Reykjanesbær og Carbon Recycling International (CRI) skrifuðu í dag undir samstarfssamning um þróun og uppbyggingu umhverfisvæns efnavinnslugarðs í Helguvík. Efnavinnslugarður er svæði þar sem fyrirtæki í efnavinnslu eru tengd saman þannig að þau nýta aukaafurðir og losun hvers annars til að draga úr orkunotkun, minnka úrgang og útblástur og samnýta aðstöðu.
Stefna Reykjanesbæjar í atvinnumálum er að styðja við uppbyggingu umhverfisvænnar atvinnustarfsemi og fjölgun hátæknistarfa í sveitarfélaginu. Búið er í haginn fyrir fyrirtæki með öflugri stoðþjónustu, góðu vegakerfi, hafnarþjónustu, stuðningi við verkefni, sem og bjóða landrými fyrir slíka starfsemi.
CRI framleiðir vistvænt endurnýjanlegt eldsneyti úr innlendum auðlindum sem dregur úr losun koltvísýrings út í andrúmsloftið. CRI hefur þróað framleiðsluaðferð til að vinna endurnýjanlegt metanól úr koltvísýringi sem losaður er frá jarðvarmavirkjunum og vetni sem unnið er úr vatni með rafgreiningu.
Með samstarfssamningnum staðfesta Reykjanesbær og CRI þann ásetning sinn um að vinna saman á eftirfarandi sviðum við að þróa og byggja umhverfisvænan efnavinnslugarð í Helguvík:
- Reykjanesbær, í samvinnu við CRI og önnur vistvæn efnavinnslufyrirtæki, mun tryggja nægjanlegt landrými fyrir starfsemina og aðstoða við orkuöflun vegna hennar.
- Reykjanesbær mun greiða leiðir fyrir gerð deiliskipulags fyrir efnavinnslugarðinn.
- Reykjanesbær verður til ráðgjafar við hönnun bygginga og annarra mannvirkja svo að þau falli sem best að umhverfinu.
- CRI og önnur umhverfisvæn efnavinnslufyrirtæki sem taka þátt í uppbyggingu efnavinnslugarðsins munu í samvinnu við Reykjanesbæ afla nauðsynlegra leyfa til að flýta hönnun og uppbyggingu efnavinnslugarðsins eins og kostur er.
- Reykjanesbær og CRI munu í sameiningu vinna að því að skapa tugi eða hundruð beinna og afleiddra starfa við byggingu verksmiðjanna, við framleiðslu þeirra og í tengdri starfsemi.