Úr deiliskipulagi svæðisins. Svartur hringur er umhverfis Stapavelli 16-22
Á fundi velferðarráðs í gær var tilkynnt að Íbúðarlánasjóður hafi samþykkt umsókn Brynju - Hússjóðs Öryrkjabandalags Ísland um stofnframlag vegna byggingar sjö íbúða við Stapavelli 16 - 22. Áætlað er að íbúðirnar verði teknar í notkun á árinu 2021. Fundargerð velferðarráðs fer fyrir bæjarstjórn nk. þriðjudag.
Brynja - Hússjóður hafði áður óskað eftir stofnfjárframlagi frá bæjarráði Reykjanesbæjar. Á fundi ráðsins þann 20. september 2018 samþykkti bæjarráð stofnframlag sem nemur 12% af áætluðum byggingarkostnaði, sem er 25.200.000.-. „Stofnframlagið skal endurgreiðast í samræmi við 5. mgr. 14. gr. laga nr. 52/2016 og reglur bæjarins um stofnframlög sem samþykktar voru á bæjarstjórnarfundi 15. nóvember 2016. Greiðsla stofnframlagsins verður í samræmi við 10. gr. sömu reglna,“ segir í fundargerð bæjarráðs, sem samþykkt var í bæjarstjórn 2. október 2018.
Lokið er við deiliskipulagningu svæðisins og að sögn Heru Óskar Einarsdóttur sviðstjóra velferðarsviðs verður vinnu við nánari þarfagreiningu lokið á næstunni.
Velferðarráð fagnar nýju búsetuúrræði.
Tengd frétt
Brynja Hússjóður samþykkir samstarf um byggingu sex til sjö þjónustuíbúða