Ráðhús Reykjanesbæjar með Stjörnuþokusmið Erlings Jónssonar í forgrunni.
Velferðarráð Reykjanesbæjar telur það fyrirkomulag sem ríkið viðhefur í dag, við að koma á fót úrræðum í þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd, óásættanlegt og skorta verulega á samráð við sveitarfélög þegar ríkið kemur slíkum úrræðum á fót. Ráðið vill að settar verði reglur varðandi úrræði og aðkomu sveitarfélaga að þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd og að fleiri sveitarfélög komi að þessari þjónustu.
Velferðarráð Reykjanesbæjar fundaði í gær með fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga um verklag ríkisins, þ.e. Útlendingastofnunar, við að setja niður þjónustu sína við umsækjendur um alþjóðlega vernd í sveitarfélögum, án þess að sveitarfélög hafi eitthvað um það að segja. Ráðið gerir einnig athugasemd við það að ekki sé tekið tillit til annarra þátta en fjárhagslegs hagkvæmis fyrir ríkið og nálægðar við höfuðborgina vegna verkefna og hlutverks Útlendingastofnunar.
„Nýjasta dæmið er leiga Útlendingastofnunar á húsnæði á Ásbrú, Reykjanesbæ, en sami háttur hefur verið hafður á á höfuðborgarsvæðinu. Önnur sveitarfélög á Íslandi virðast undanskilin og/eða hafa ekki, að því er velferðarráð best veit, sýnt neinn áhuga á að sinna þessu verkefni, þ.e. þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd,“ segir í bókun ráðsins.
Reykjanesbær hefur til langs tíma bent á að framlögum ríkisins til uppbyggingar innviða eins og heilbrigðisþjónustu og löggæslu hefur verið verulega ábótavant, ekki hvað síst í ljósi þeirrar íbúafjölgunar sem er orðin í sveitarfélaginu og á Suðurnesjum. Einnig er rétt að benda á að Reykjanesbæ hefur í skipulagsvinnu sinni lagt ríka áherslu á að vanda vel til uppbyggingar á Ásbrú, sem er nýjasti bæjarhluti sveitarfélagsins, ungt og viðkvæmt hverfi sem er að þróast sem nýr bæjarhluti.
Anna Guðrún Björnsdóttir sviðsstjóri þróunar- og alþjóðasviðs og Guðjón Bragason sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga mættu á fund velferðarráðs í gær. Í máli þeirra kom fram að í stefnumótun Sambandsins um málefni flóttamanna sé horft til þess að huga þurfi sérstaklega að móttökusveitarfélögum flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Ráðið mun í framhaldi óska eftir fundi með dómsmálaráðuneytinu um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd.