Úr kennslustund í Heiðarskóla fyrir margt löngu.
Reykjanesbær er eitt þriggja sveitarfélaga á landsbyggðinni sem bætir sig stórkostlega, sagði Arnór Guðmundsson forstjóri Menntamálastofnunar í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Tilefni viðtalsins var slæm niðurstaða íslenskra nemenda í nýjustu PISA könnun, sem opinberuð var í gær, en framkvæmd 2015. Hin sveitarfélögin tvö eru Árborg og Hafnarfjörður.
Árangurinn í grunnskólum Reykjanesbæjar má rekja til þess að farið var í markvissar aðgerðir við að bæta árangur nemenda eftir niðurstöður PISA könnunar árið 2012. Hún sýndi einnig slakt gengi íslenskra nemenda. Nemendur bættu sig ekki aðeins í lestri, heldur einnig í náttúrufræði og stærðfræði. Arnór sagði Þjóðarsáttmála um læsi vera byggðan á því módeli sem sveitarfélögin þrjú notuðu til að bæta árangur nemenda. Þjóðarsáttmáli um læsi byggir síðan á Hvítbók menntamálaráðherra, Illuga Gunnarssonar, sem enn er starfandi menntamálaráðherra. Hann sagði í fjölmiðlum í gær að aðgerða væri þörf. Arnór sagði hins vegar í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun að árangur þeirra aðgerða sem settar voru á í kjölfar slæmrar niðurstöðu 2012, s.s. Hvítbókar, ætti að sjást innan fárra ára, ef ekki þá þyrftu Íslendingar að hafa áhyggjur.
Frekari niðurgreiningar grunnskóla í átta stærstu sveitarfélögum landsins er að vænta og gefur hún tilefni til frekari umfjöllunar um stöðu grunnskólanemenda í Reykjanesbæ.
Visir fjallaði m.a. um niðurstöðu nýjustu PISA könnunar sem lesa má hér