Frá æfingu á Fiðlaranum á þakinu í Stapa sl. laugardag. Hér syngur hópurinn um siðvenjur sem söngleikurinn snýst að miklu leiti um. Jóhann Smári í hlutverki Tevje fyrir miðju.
Eitt stærsta verkefni sem Tónlistarskóli Reykjanesbæjar hefur ráðist í er uppsetning á söngleiknum „Fiðlarinn á þakinu“ eftir Jerry Bock. sem frumsýndur verður í Stapa, Hljómahöll föstudaginn 15. nóvember kl. 19:00. Tvær aðrar sýningar verða 16. og 17. nóvember einnig kl. 19:00. Uppfærslan markar upphafið að 20 ára afmælisári skólans, en hann tók til starfa 1. september árið 1999. Uppfærslan er einnig afmælissýning Óperufélagins Norðuróps, sem líka fagnar 20 ára afmæli í ár.
Að sögn Haraldar Árna Haraldssonar skólastjóra Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Jóhanns Smára Sævarssonar listræns stjórnanda Norðuróps var hugmyndin um að leiða saman skólann og óperufélagið búin að ganga þeirra á milli um langt skeið. Draumur Jóhanns var að setja verkið á svið á Íslandi, en hann söng hlutverk Tevje í Regensburg árið 2002. Svo viss var hann að hann keypti íslensku þýðinguna og hafði með sér í farteskinu þegar hann flutti heim til Íslands árið 2008. Tónlistarskóli Reykjanesbæjar hefur lengst af ekki verið í húsnæði sem bauð upp á slíka uppfærslu, en þegar skólinn flutti í Hljómahöll árið 2014 skapaðist á ný viðræðugrundvöllur fyrir uppsetningu. Það má svo segja að þrír straumar hafi mæst og gert þetta mögulegt þegar húsakynnin voru til staðar, Jóhann Smári með verkið og reynsluna meðferðis og afmæli hjá óperufélaginu og tónlistarskólanum á sama ári.
Gríðarlega mikil vinna að baki
Þó undirbúningur standi nú sem hæst í gerð sviðsmyndar, búningahönnunar og söfnun leikmuna þá hafa æfingar staðið yfir í ár. Aðstandendur sýningarinnar hafa lagt á sig gríðarlega mikla vinnu við að koma þessu heim og saman. Að jafnaði hafa þrjár æfingar verið í hverri viku og laugardagar undirlagðir í æfingum. Að sögn Jóhanns Smára hefur þó enginn helst úr lestinni og enn vinnur hann með þrjú sett af söngvurum. Kannski er skýringarinnar á leita í því að reynslan af uppfærslunni hefur verið góður skóli fyrir nemendur. „Það er meira en segja það að taka þátt í söngleik sem þessum. Þetta er mikil samhæfing og í mörg horn að líta. Ég segi að það er mikill hagur fyrir nemendur að hafa með í för atvinnufólk sem kemur frá Norðurópi því það lyftir sýningunni upp á annað plan.“
Haraldur Árni er mjög ánægður með þann velvilja sem honum finnst samfélagið hafa sýnt uppsetningunni og allri vinnunni í kringum hana. „Mér finnst það sérstaklega ánægjulegt vegna þess að klassísk tónlist er mjög mikilvæg fyrir þetta svæði. Við höfum í gegnum tíðina haft mikið af popp- og rokktónlist en minna af jazz og klassík, fyrir utan það sem við erum að gera hér í skólanum. En miðað við aðsóknina að þeim klassísku viðburðum sem hafa verið hér að undanförnu, er greinilega þörf á ná betur til almennings með þessari tegund tónlistar.“
Um leikstjórn sér Jóhann Smári og hljómsveitarstjóri er Karen J. Sturlaugsson. Framkvæmdastjórn er í höndum Haraldar Árna og Jóhanns Smára.
Undir áhrifum frá kvenréttindabaráttu?
Söngleikurinn „Fiðlarinn á þakinu“ er einn þekktasti og dáðasti söngleikur allra tíma og er sýndur reglulega um allan heim. Einnig hefur verið gerð bíómynd eftir verkinu. Söngleikurinn var frumfluttur árið 1964 og er því 55 ára gamall. Hann segir frá Tevje mjólkurpósti, fjölskyldu hans og samferðafólki í litla þorpinu Anatevka í Rússlandi í upphafi 20. aldar þegar kommúnisminn var allsráðandi. Tevja heldur fast í gamlar siðvenjur og reynir að stjórna fjölskyldunni samkvæmt þeim. Smátt og smátt molnar þó undan þeim. Eiginkonan og dæturnar sjá að mestu um það. Spurning hvort höfundur hafi verið undir áhrifum frá kvenréttindabaráttunni sem var að ryðja sér til rúms á sjöunda áratugnum hafi læðst að höfundi.
Fiðlarinn á þakinu er fjörugur, hjartnæmur og á köflum alvarlegur söngleikur, en fyrst og fremst fyndinn og stór skemmtilegur, og tónlistin er grípandi. Til að mynda þekkja allir lögin „Ef ég væri ríkur“ og „Sól rís, sól sest“.