Það er ekki að ástæðulausu sem flugfreyjan segir okkur að setja súrefnisgrímuna fyrst á okkur sjálf áður en við aðstoðum aðra. Það er auðvitað til þess að tryggja að við séum fær um að rétta hjálparhönd. Þetta á við um svo margt. Til dæmis fólk sem gætir ekki nægilega vel að sér í vinnu og gengur of nærri sér, líkamlega eða andlega. Kennurum, læknum og fólki í störfum innan félagsþjónustunnar er mjög hætt við þessu.
Nú hefur einn af lykil starfsmönnum Reykjanesbæjar í áratugi; Hjördís Árnadóttir, tilkynnt að hún hafi ákveðið að láta af störfum vegna heilsubrests. Hún ætlar að einbeita sér að því að ná heilsu á ný; ætlar að freista þess að setja súrefnisgrímuna á sjálfa sig. Hún hefur einnig tilkynnt að þegar því markmiði verði náð ætli hún að sinna ýmis konar sjálfboðaliðsstörfum og í raun halda áfram þeirri samfélagsþjónustu sem hún hefur verið að veita í áratugi. Það er göfugt markmið.
Hjördís hefur leitt starfsemi félagsþjónustu Reykjanesbæjar um langt árabil. Á þrengingartímum eins og við lifum nú hafa mál sem koma inn á borð sviðsins orðið erfiðari og meira krefjandi s.s. í framfærslu, barnavernd o.s.frv. Því er mikilvægt að fólk sem sinnir slíkum störum fari sérstaklega varlega og hugi að eigin velferð svo það geti sinnt skjólstæðingum félagsþjónustunnar jafn vel og það vill og þarf. Það má samt ekki verða á kostnað eigin heilsu.
En slíkum tímamótum fylgja líka tækifæri. Á næstu vikum munum við fylla skarðið og þá gefst tækifæri til að breyta og bæta það sem þarf. Endurskipuleggja verkefni og verklag, innleiða nýja siði o.s.frv. Það verður spennandi; bæði fyrir starfsmenn og stjórnendur félagsþjónustunnar sem og skjólstæðinga hennar.
Kínverskur málsháttur segir eitthvað á þá leið að heilbrigður maður eigi sér þúsund óskir en sjúkur maður aðeins eina, sem er auðvitað sú að verða heilbrigður. Vinkonu minni Hjördísi Árnadóttur óska ég velfarnaðar í framtíðinni og þakka henni fyrir vel unnin störf í þágu þeirra sem minna mega sín. Fyrst og fremst vona ég að hún nái að setja súrefnisgrímuna á sig, og ná fyrri styrk og heilsu, en síðan að hún fái tækifæri til þess að uppfylla þá þörf sína og markmið að láta gott af sér leiða fyrir samfélagið sitt um ókomin ár.
Kær kveðja
Kjartan Már Kjartansson
bæjarstjóri Reykjanesbæjar