Reykjanesbær hefur tekið ákvörðun um að takmarka starfsemi sína í kjölfar þess að Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni vegna kórónaveiru (COVID-19) og er ákvörðun tekin með tilliti til fólks sem er í viðkvæmri stöðu eða með undirliggjandi sjúkdóma. Eftirfarandi takmarkanir gilda frá og með mánudeginum 9. mars þar til annað verður ákveðið.
Á Nesvöllum verður lokað í matsal og félagsstarf aldraðra fellur niður, þ.m.t. leikfimi, listasmiðja og aðrir viðburðir á vegum Félags eldri borgara á Suðurnesjum.
Boðið verður upp á heimsendingu matar fyrir þá sem þess þurfa. Nánari upplýsingar í síma 420-3400.
Dagdvalir á Nesvöllum og í Selinu verða opnar. Takmörkuð þjónusta verður í Hæfingarstöðinni.
Reykjaneshöll verður lokað fyrir gönguhópa. Þátttakendum í Fjölþættri heilsueflingu 65+ Janusarhóparnir er bent á að fylgjast með tölvupóstum og tilkynningum á Facebook-síðum verkefnisins.
Öll önnur þjónusta Velferðarsviðs helst órofin sbr. öll heimaþjónusta, stuðningsþjónusta, þjónusta í íbúðakjörnum og á heimilum.
Bent er á að Sóttvarnalæknir beinir því sérstaklega til þeirra sem teljast til viðkvæmra hópa, einkum þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma og eldri einstaklinga að huga vel að hreinlætisaðgerðum og forðast mannamót að óþörfu.