Ágætu íbúar og gestir,
Ljósanótt var haldin í 11. sinn í Reykjanesbæ um liðna helgi og var þátttaka mikil frá fimmtudegi til sunnudags.
Mikill fjöldi lagði hönd á plóg við að skapa hér fjölbreytta dagskrá og bjóða upp á þjónustu við gesti Ljósanætur á meðan á hátíðarhöldum stóð.
Opnunaratriði grunnskóla- og leikskólabarna var frábært að venju og markaði upphaf að fjölmörgum vel unnum sýningum um allan bæ. Mikill fjöldi íbúa fékk góða gesti til sín og þannig má segja að hver einasti íbúi hafi haft hlutverki að gegna á þessari mögnuðu hátíð.
Þakklæti okkar til þeirra sem lögðu sig fram um að þjóna öðrum með svo margvíslegum hætti á ljósanótt er mikið. Án sýninga og skemmtiatriða, áhugamanna og atvinnumanna, einstaklinga og hópa, heimamanna og aðkomumanna, væri ljósanótt ekki það sem hún er orðin.
Unglingarnir okkar voru til fyrirmyndar, eins og jafnan. Lögregla og öryggissveitir sinntu starfi sínu af sömu alúð og við þekkjum þau fyrir og leystu verkefni sín frábærlega. Allir eru sammála um að þessi ljósanótt hafi farið afar vel fram.
Ljósanæturnefndinni færi ég bestu þakkir fyrir frábært starf.
Hafið öll bestu þakkir fyrir frábæra hátíð og velkomin á Ljósanótt að ári.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri