Mikill mannfjöldi tók þátt í hátíðar- og skemmtidagskrá í skrúðgarðinum á 17. júní en í ár var því einnig fagnað að lýðveldið Ísland á 80 ára afmæli og Reykjanesbær 30 ára afmæli. Í tilefni afmælanna var landsmönnum boðið upp á lýðveldisafmælisbollaköku og bókina Fjallkonan. Þú ert móðir vor kær, sem enn er hægt að nálgast í Bókasafni Reykjanesbæjar og Sundmiðstöðinni við Sunnubraut. Í tilefni afmælis Reykjanesbæjar var íslenska fánanum dreift til allra í skrúðgöngu og gesta í garðinum auk þess sem sérstakt framlag var sett í skemmtidagskrá hátíðarinnar svo hún yrði sem veglegust.
Dagskráin hófst með því að skátar frá Heiðabúum og lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar gengu fylktu liði inn í skrúðgarðinn í Keflavík með hátíðarfánann, þann stærsta á Íslandi. Með lúðrasveitinni léku einnig sérstakir gestir úr U.S. Naval Forces Europe and Africa Band sem eru í heimsókn hér á landi á vegum bandaríska sendiráðsins og settu þeir skemmtilegan svip á gönguna.
Fánahyllir dró fánann að húni en til þess er valinn íbúi sem hefur unnið gott starf í þágu samfélagsins. Í ár hlotnaðist sá heiður Friðriki Georgssyni, rafvélavirkjameistara en Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri flutti honum þakkarorð fyrir hönd bæjarstjórnar. Þakkarorðin má lesa hér.
Karlakór Keflavíkur flutti þjóðsönginn og forseti bæjarstjórnar flutti setningarræðu hátíðarinnar og kom það í hlut Guðnýjar Birnu Guðmundsdóttur. Ræðu hennar má lesa hér.
Að setningarræðu lokinni flutti fjallkona ársins, Eva Margrét Falsdóttir, nýstúdent ljóðið Ísland eftir Huldu.
Böðvar Jónsson, framkvæmdastjóri, var ræðumaður dagsins en Böðvar gegndi stöðu bæjarfulltrúa í 24 ár og er sá bæjarfulltrúa sem hefur setið flesta bæjarstjórnarfundi allra frá stofnun Reykjanesbæjar eða samtals 453 fundi. Ræðu Böðvars má lesa hér.
Að hátíðardagskrá lokinni tók við fjölbreytt skemmtidagskrá með atriðum á sviði, á plattanum og víða í garðinum. Í fyrsta sinn kom það í hlutverk flokkstjóra úr Vinnuskólanum að skipuleggja og starfrækja skemmtistöðvar í skrúðgarðinum og tókst þeim frábærlega upp við að skemmta kátum krökkum um allan skrúðgarð.
Skemmtidagskráin var öllum að kostnaðarlausu og var virkilega gaman að sjá hversu margir lögðu leið sína í skrúðgarðinn til að fagna þjóðhátíðardeginum.
Öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við að gera þjóðhátíðardaginn sem hátíðlegastan með sínu framlagi eru færðar sérstakar þakkir.
Myndsafn frá 17. júní