Föst hefð er komin á íbúafundi í Reykjanesbæ. Nú var að ljúka tíunda árinu þar sem Árni Sigfússon bæjarstjóri hefur ásamt helstu stjórnendum sviða og stofnana fundað með íbúum bæjarhluta í Reykjanesbæ á hverju ári, í 5-6 bæjarkjörnum. Á fundunum er farið yfir sameiginleg mál bæjarbúa en síðan er gefinn kostur á að koma með athugasemdir, ábendingar og hugmyndir um hin mörgu þjónustusvið bæjarins og leitað álits íbúa. Aðsókn á fundina hefur verið góð, allt frá 50-150 með undantekningu í Höfnum en þar mættu 17 af 103 íbúum. Árni segir að þær ábendingar sem hafa komið fram á íbúafundum alltaf hafa verið mikilvægur efniviður í endurnýjun framtíðarsýnar sem lögð er fram á 4-5 ára fresti. Þar er farið yfir öll svið bæjarins og lögð lína um verkefni næstu ára. Þá er hlustað á óskir um endurbætur í hverfum sem reynt er að verða við og skila verkinu fyrir næsta íbúafund árið eftir. Annað hvert ár hafa einnig verið haldnir íbúafundir með grunnskólanemum og/eða yngri kynslóðinni.