Frá setningarathöfn í skrúðgarði í fyrra. Ljósmynd Víkurfréttir
Ljósanótt verður sett í 20. sinn kl. 16:30 í dag í skrúðgarðinum við Suðurgötu. Þar með byrjar stórkostleg menningar- og fjölskylduhátíð með yfir 150 viðburði víðsvegar um bæinn. Þetta væri ekki hægt nema með framkvæmdagleði og metnaði bæjarbúa og okkar tryggu stuðningsaðila sem fjármagna hátíðina að stórum hluta.
Eftir þrotlausan undirbúning síðustu vikna og mánaða getum við nú farið að njóta. Undir lok ágúst var skrifað undir samninga við stærstu styrktaraðila hátíðarinnar í Ráðhúsi. Þeir eru Isavia, Lagardère, Securitas, Skólamatur, Landsbankinn og Nettó. Aðstandendur Ljósanætur eru afar þakklátir fyrir stuðning þessarar fyrirtækja í gegnum árin, en án hans væri ekki möguleiki að halda Ljósanótt með eins glæsilegum hætti og raunin er.
Ljósanótt er fyrst og fremst fjölskylduhátíðin og setningarathöfnin í skrúðgarði gefur þann tón. Hún fer fram síðdegis þegar hefðbundnum vinnu- og skóladegi er lokið. Börnin eru í aðalhlutverki í setningarathöfninni og eru foreldrar hvattir til að fylgja börnum sínum. Við fylkjum liði í skrúðgarðinn undir tónum lúðrasveitar Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og tökum okkur stöðu við sviðið.
Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi býður gesti velkomna og að því loknu mun Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri ávarpa gesti. Hann mun svo njóta aðstoðar nemendanna Filorettu Osmani og Maciek Baginski við að draga Ljósanæturfánann að hún og setja hátíðina. Eftir að samkór úr grunnskólum Reykjanesbæjar hefur sungið Meistara Jakob á hinum ýmsu tungumálum mun söngkonan geðþekka Salka Sól skemmta hátíðargestum. Í tilefni 20 ára afmælis Ljósanætur verður svo slegið upp pylsupartýi í skrúðgarðinum.
Við hvetjum íbúa til að fjölmenna í skrúðgarðinn og taka þátt í gleðinni frá upphafi. Allar nánari upplýsingar eru á vef Ljósanætur, www.ljosanott.is. Með því að smella hér opnast vefur Ljósanætur
Gleðilega Ljósanótt!