Í kjölfar barna- og ungmennaþings sem haldið var síðastliðið haust ákvað Sjálfbærniráð Reykjanesbæjar að ráðast í fjárfestingu á útiflokkunartunnum eftir að ungmennin lögðu fram óskir um fleiri flokkunartunnum í bæinn. Nú hafa verið keyptar og settar upp sex flokkunartunnur, með það að markmiði að auðvelda almenningi að flokka úrgang sinn á ferðinni og stuðla að aukinni umhverfisvitund.
Flokkunartunnurnar, sem voru settar upp, má finna við 88 Húsið, Vatnaveröld, Skrúðgarðinn við Villa, við Minnismerki sjómanna við Hafnargötu, strætóstöðina við Nettó Krossmóa og strætóskýlið til móts við Nettó á Aðalgötu. Tunnurnar eru frá íslenska nýsköpunarfyrirtækinu Borgartunnan, sem hefur sérhæft sig í að hanna tunnur sérstaklega fyrir íslenskar aðstæður. Hver tunna býður upp á fjögurra flokka sorpflokkun, almennt, plast, pappír og skilagjaldsskyldar umbúðir.
Ungmennaráð Reykjanesbæjar á mikið hrós skilið fyrir sitt framlag til umræðunnar um umhverfismál og sorpflokkun. Ungmenni sveitarfélagsins eiga fulltrúa í ýmsum nefndum og ráðum innan bæjarins, þar sem þau hafa tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum og hugmyndum á framfæri.
Reykjanesbær hvetur alla íbúa til að nýta sér þessar nýju flokkunartunnur með því að flokka úrgang sinn, einnig þegar farið er í göngutúr!