Þann 1. mars síðastliðinn hélt Reykjanesbær íbúafund í Stapa um málefni fólks á flótta. Fundurinn var vel sóttur og mættu um 100 íbúar. Auk þeirra horfðu þó nokkuð margir á fundinn í streymi á Facebook síðu Reykjanesbæjar.
Tilgangur fundarins var að upplýsa íbúa um hvernig móttöku flóttafólks er háttað hér á landi og þá þjónustu sem sveitarfélagið veitir þessum hópi fólks í samstarfi við ríkið og önnur félög og stofnanir hér á svæðinu.
Kjartan Már Kjartansson opnaði fundinn og tók Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra við af honum með erindi sem setti Ísland í alþjóðlegt samhengi við þá stöðu sem við búum við í dag . Þá fór Hilma Hólmfríður verkefnastjóri fjölmenningar hjá Reykjanesbæ yfir áhugaverðar staðreyndir um samsetningu samfélagsins hér á Suðurnesjum og Ásta Kristín Guðmundsdóttir teymisstjóri alþjóðateymisins sagði frá því hvernig Reykjanesbær tekur á móti fólki á flótta og styður þau til virkni. Hjálpræðisherinn var með innslag um það metnaðarfulla starf sem þau sinna fyrir þennan hóp og síðust á mælendaskrá var svo Lilya Zholobova frá Úkraínu sem jafnframt er starfsmaður alþjóðateymis Reykjanesbæjar. Lilya gaf innsýn inn í það hvernig það er vera innflytjandi á Íslandi og hvað samfélagið í heild getur gert til að taka vel á móti innflytjendum.
Að auki voru sýnd fjögur myndbönd með viðtölum við fólk sem flúið hefur heimaland sitt og býr í dag í Reykjanesbæ. Í lok fundar fóru fram pallborðsumræður þar sem frummælendur sátu fyrir svörum og tóku við spurningum frá íbúum. Hjördís Rut Sigurjónsdóttir stýrði pallborðinu ásamt því að vera fundarstjóri.
Mikil ánægja var með fundinn og færir Reykjanesbær öllum þeim sem að honum komu kærar þakkir fyrir þeirra framlag.
Upptöku af fundinum má finna hér: Fólk á flótta
Svör við spurningum sem bárust og ekki náðist að svara í pallborði:
Hvernig getum við sem íbúar hjálpað til að gera móttöku flóttafólks sem þægilegasta?
- Við getum skapað tækifæri fyrir flóttafólk svo það geti í auknum mæli tekið þátt í samfélaginu og tilheyrt samfélagsheildinni.
- Við getum verið opin fyrir nýjum tengslum og kunningjaskap.
- Við getum upplýst fólk í nærumhverfi okkar um skipulagt barnastarf, íþróttamót, skólastarf og annað sem tengist börnum.
- Við getum verið opin fyrir því að ráða fólk í störf.
- Við getum tekið þátt í sjálboðaliðastarfi Hjálpræðishersins og/eða Rauða krossins.
Hefur Reykjanesbær bolmagn til að taka á móti fleira fólki? Húsnæði, félagsaðstoð ofl.
- Framboð á lausu leiguhúsnæði fer minnkandi og starfsmenn alþjóðateymis hafa miklar áhyggjur af því.
- Reykjanesbær telur að sá fjöldi sem er í þjónustu sveitarfélagsins skv. gildandi samningu sé hæfilegur fjöldi flóttafólks og áætlar ekki að stækka þann samning. Reykjanesbær skorar á önnur sveitarfélög að taka þátt í móttöku og þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd og skorar á ríkið að koma að byggingu húsnæðis fyrir hópinn í öðrum sveitarfélögum.
Hefur Reykjanesbær neitunarvald ef ríkið fer fram á að sveitarfélagið taki við fleira flóttafólki heldur en það getur?
- Nei sveitarfélagið hefur ekki neitunarvald en Reykjanesbær hefur engu að síður verið að neita óformlegum fyrirspurnum Vinnumálastofnunar um grænt ljós á frekari fjölgun.
Hver er aðild ríkisins að hjálpa sveitarfélögunum við móttöku flóttafólks?
- Samningarnir þrír sem Reykjanesbær hefur við ríkið felast annars vegar í daggjöldum vegna umsækjenda um vernd sem Reykjanesbær rukkar. Daggjöldin dekka allan rekstar kostnað sem hlýst af þjónustunni við umsækjendur má þar nefna skólagjöld, leikskólagjöld, framfærsla, rekstur á húsnæði undir fjölskyldurnar og frístundastarf og virki. Ef afgangur er á rekstrinum rennur sá afgangur inn í fjárhag Reykjanesbæjar.
- Að auki greiðir ríkið allan útlagann kostnað vegna fjárhagsaðstoðar við einstaklinga og fjölskyldur með erlent ríkisfang sem hafa búið skemur en tvö ár á Íslandi.
- Ríkið niðurgreiðir auk þess íslenskukennslu og samfélagsfræðslu fyrir flóttafólk og hefur Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum sinnt þeirri fræðslu og kennslu af mikilli kostgæfni með lausnamiðuðum og fjölbreyttum hætti.
Hvað getum við gert til að hafa áhrif á viðhorf íbúa til flóttafólks? Þ.e. draga úr fordómum og ótta og sjá tækifærin og auðlindir sem felast í móttöku þeirra?
- Tala jákvætt um hópinn. Vera forvitin um hvort annað, spyrja spurninga og kynnast og styrkja tengsl hvert við annað.
- Vera þáttakandi í viðburðum sem eru í boði.
- Velferðarþjónusta og skólarnir í Reykjanesbæ hafa staðið sig afar vel í móttöku flóttafólks og eru þeim hér með færðar þakkir fyrir. Nálgun þeirra í þjónustunni er til þess fallin að gera aðlögun betri og auka tækifæri fólks til þátttöku í samfélagi sem aftur skapar gott umtal og styrkir tengsl við aðra íbúa.
Nú eru um 600+ manns upp á Ásbrú að bíða eftir stöðu sinna mála, fólk sem við vitum lítið um. Er eðlilegt að þau fái að vera frjáls í bæjarfélaginu á meðan?
- Já, þau eru frjáls ferða sinna eins og aðrir. En það er mikilvægt að þau hafi eitthvað fyrir stafni og bjóðist þátttaka í einhverri virkni. Bæði Hjálpræðisherinn og Rauða krossinn sinna metnaðarfullu starfi fyrir sjálfboðaliða.