Svanhildur Eiríksdóttir verkefnisstjóri bókasafns stýrði göngu.
Reykjanesbær er bara nokkuð ríkur af bókmenntun. Það kom í ljós þegar starfsfólk Bókasafns Reykjanesbæjar bauð upp á bókmenntagöngu í heilsu- og forvarnarviku. Af nógu var að taka, þannig að göngurnar verða án efa fleiri í framtíðinni.
Góður hópur fólks var mættur á Bókasafnið fyrir kl. 11:00 sl. laugardag til að taka þátt í fyrstu bókmenntagöngu safnsins. Það var spenningur í lofti, ekki síst hjá starfsfólki sem var að bjóða upp á bókmenntagöngu í fyrsta sinn. En gangan tókst vel og marga óraði ekki fyrir því hversu mikið við eigum af skemmtilegum bókmenntatextum. Auk þess að koma við á gömlum bókasafnsslóðum, við Sólvallargötu, Skólaveg og Mánagötu var lesið bernskubrot úr ævisögum Rúnars Júlíussonar, Gunnars Eyjólfssonar og Árna Bergmann, lesið ljóð eftir Kristinn Reyr, brot úr Diddu og dauða kettinum eftir Kikku, upphaf Ódáðahrauns eftir Stefán Mána og sagt frá tilurð þess að skessa Herdísar Egilsdóttur fékk bústað í Gróf.
Þegar Lestrarmenning í Reykjanesbæ var sett árið 2003 sagði Sigurður Þór Salvarsson blaðamaður að nú væri Reykjanesbær ekki bara þekktur fyrir bolta og bítlatónlist, heldur líka bækur. Það er ástæða til að rifja þau orð upp hér. Að lokum má geta þess að Njarðvíkingurinn Elías Snæland Jónsson var að senda frá sér nýja sögu þar sem Reykjanesbær er sögusviðið. Hún heitir Ævintýri á Ljósanótt.