Verum saman á Ljósanótt

María Gunnarsdóttir
María Gunnarsdóttir

Ljósanótt, menningar- og fjölskylduhátíð í Reykjanesbæ verður haldin í sextánda sinn frá 3. til 6. september. Reykjanesbær hefur ávallt haft það að leiðarljósi að Ljósanótt sé fjölskylduhátíð og gaman hefur verið að sjá fjölskyldur úr öllum áttum sameinast með okkur á þessum tímamótum. Lögð er áhersla á að dagskráratriði hátíðarinnar höfði til fólks á öllum aldri og mikilvægt er að fjölskyldur fari saman heim að lokinni dagskrá bæjarins á meðan hátíðin stendur yfir.

Á föstudagskvöldið verður unglingaball fyrir 8.-10. bekk í Stapanum frá klukkan 20.00-23.00. Að loknu balli verður boðið upp á strætisvagnaferðir þar sem ungmennin verða keyrð til síns hverfisskóla.  Reykjanesbær hvetur foreldra að tryggja að börnin fari beint heim að loknu balli.

Á laugardagskvöldið verður rekið athvarf í öryggismiðstöð að Hafnargötu 8.  Að athvarfinu standa velferðar- og fræðslusvið Reykjanesbæjar og Lögreglan á Suðurnesjum. Börn og ungmenni sem eru ein á ferli eftir að skipulagðri dagskrá lýkur og/eða eru undir áhrifum áfengis eða vímuefna verða færð í athvarfið og foreldrum gert að sækja þau.  Á síðustu árum hafa mjög fá ungmenni frá Reykjanesbæ verið færð í athvarfið og vil ég þakka foreldrum í Reykjanesbæ fyrir þeirra þátt í að vernda börnin sín og svo að sjálfsögðu ungmennunum sjálfum.

Þann  1. september breytist útivistartíminn þannig að börn 12 ára og yngri mega ekki vera lengur úti en til kl. 20.00 nema í fylgd með fullorðnum og börn á aldrinum 13-16 ára skulu ekki vera ein á almannafæri eftir klukkan 22.00. Foreldrar; munum að halda áfram þeirri góðu hefð að virða útivistartíma barna og fara saman heim úr miðbænum að lokinni dagskrá.

Foreldrar verum góðar fyrirmyndir barna okkar, virðum útivistartímann og eigum ánægjulegar fjölskyldustundir á Ljósanótt.

Hátíðarkveðjur,
María Gunnarsdóttir
Forstöðumaður barnaverndar Reykjanesbæjar