Íbúar í Hornbjargi gera fín í sínum beðum og umhverfi.
Vorhreinsunardagar Reykjanesbæjar verða dagana 13. til og með 20. maí. Íbúar eru hvattir til að nýta dagana til hreinsunar á görðum sínum. Sérstaklega er minnt á snyrtingu trjáa og runna sem vaxa við gangstéttar og göngustíga. Ef íbúar óska eftir aðstoð við að fjarlægja það sem til fellur á þessum dögum, þá er hægt að hafa samband við Umhverfismiðstöð í síma 420 3200 á opnunartíma.
Á vorin er tilvalið að snyrta hressilega runnana sína og klippa í burtu greinar sem þurfa að víkja. Tilgangur klippinga getur verið margvíslegur, sum tré eru orðin gömul og þurfa að víkja fyrir nýjum gróðri á meðan önnur eru úrsérvaxin og skyggja á sólina.
Tré og runnar í görðum ættu fyrst og fremst að veita skjól og gleði. Gott er að fara varlega í stórtækar aðgerðir þar sem t.d. trjáfelling verður aldrei tekin til baka. Best væri auðvitað að fá til sín fagfólk sem hefur reynslu og þekkingu ef ætlunin er að fara í róttækar framkvæmdir.
Ekki vera of vandvirk í beðahreinsun þar sem allt þetta gamla lífræna rusl frá því í fyrra mun falla inn í hringrásina og hverfa smátt og smátt í jarðveginn. Það er samt gott að róta til í jarðveginum og reita í burtu það sem ekki á að standa. Að sjálfsögðu tökum við allt ólífrænt rusl og hendum því í viðeigandi tunnu.
Fljótlega er svo óhætt að kíkja í næstu gróðrarstöð og kynna sér heitustu sumarblómin þetta árið. Alltaf bætist við úrvalið og hvet ég alla til að prufa eitthvað nýtt þetta sumarið.
Berglind Ásgeirsdóttir garðyrkjufræðingur