Dagur íslenskrar tungu er opinber fánadagur.
Í dag er Dagur íslenskrar tungu, á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Í öllum skólum Reykjanesbæjar er dagsins minnst með margvíslegum hætti og við ráðhús hefur íslenski fáninn verið dreginn að húni. Almenningur í landinu er sérstaklega hvattur til málvöndunar á þessum degi og stóra upplestrarkeppnin hefst í skólum í dag.
í ár eru nemendur og kennarar hvattir til að vinna saman að gerð örmyndbanda þar sem leitað verði svara við tveimur spurningum: Af hverju er íslenskan mikilvæg fyrir þig? og Af hverju ert þú mikilvæg/-ur fyrir íslenskuna?, að því er fram kemur á vef Stjórnarráðs Íslands. Valin myndbönd verða birt á Facebook síðu Dags íslenskrar tungu, ásamt öðrum upplýsingum er varðar viðburði dagsins.
Dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember, samkvæmt tillögu menntamálaráðherra frá árinu 1996. Menntamála- og menningarmálaráðuneytið hefur árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það. Með því móti beinist athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu.
Árlega eru veitt Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og þá eru jafnframt veittar sérstakar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslensk máls. Í dag verður tilkynnt hver hlýtur verðlaunin í ár. Hér má nálgast upplýsingar um verðlaunahafa frá 1996, þegar dagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur.