19. fundur öldungaráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Nesvöllum þann 30. september 2024 kl. 14:00
Viðstaddir: Borgar Jónsson formaður, Karítas Lára Rafnkelsdóttir, Rúnar V. Arnarson fulltrúar Reykjanesbæjar, Guðrún Eyjólfsdóttir, Ingibjörg Magnúsdóttir og Kristján Gunnarsson fulltrúar Félags eldri borgara.
Að auki sátu fundinn Margrét Arnbjörg Valsdóttir, teymisstjóri stuðnings- og öldrunarþjónustu og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.
1. Hvatagreiðslur eldra fólks í Reykjanesbæ (2023050588)
Hafþór B. Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúi mætti á fundinn og fór yfir ýmis atriði sem varða hvatagreiðslur fyrir íbúa 67 ára og eldri í Reykjanesbæ.
Hvatagreiðslur eru 45.000 krónur fyrir hvern einstakling á árinu 2024. Hægt er að nýta styrkinn sinn rafrænt í gegnum vefinn abler eða með því að fá kvittun og fara með hana í þjónustuver Reykjanesbæjar að Tjarnargötu 12. Ef styrkurinn hefur ekki verið fullnýttur fyrir áramót fellur hann niður og er því mikilvægt að hann sé nýttur fyrir 31. desember. Hægt er að kanna stöðu hvatagreiðslna í þjónustuveri Reykjanesbæjar í síma 421-6700. Á vefnum Frístundir.is má sjá fjölbreytt frístundastarf sem er í boði fyrir eldra fólk í Reykjanesbæ.
Öldungaráð fagnar því hversu vel hvatagreiðslur hafa verið nýttar af eldra fólki.
Fylgigögn:
Lýðheilsu- og frístundamál eldri borgara í Reykjanesbæ - kynning
Með því að smella hér má skoða reglur um hvatagreiðslur fyrir íbúa 67 ára og eldri á vefnum Frístundir.is
2. Frísk í Reykjanesbæ - heilsuefling fyrir íbúa 60 ára og eldri
Hafþór B. Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúi mætti á fundinn og sagði frá nýju úrræði, Frísk í Reykjanesbæ, heilsueflingu fyrir 60 ára og eldri á vegum íþróttafélaganna Keflavík og Njarðvík. Starfið verður byggt í kringum hópþjálfun þar sem þátttakendur fá tækifæri til að stunda líkamsrækt í skemmtilegum félagsskap undir handleiðslu fagmenntaðra þjálfara.
Kynningarfundir voru haldnir 16. og 19. september síðastliðinn og voru viðtökur mjög góðar.
Öldungaráð lýsir ánægju með þessa þjónustu og hvetur eldra fólk til að nýta sér hana.
Fylgigögn:
Með því að smella hér má skoða upplýsingar um Frísk í Reykjanesbæ á vefnum Frístundir.is
3. Lýðheilsu- og forvarnarvika Reykjanesbæjar 2024 (2024080331)
Hafþór B. Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúi mætti á fundinn og kynnti dagskrá lýðheilsu- og forvarnarviku Reykjanesbæjar sem hefst í dag, 30. september og stendur til 6. október.
Fjölbreytt dagskrá verður alla vikuna og ýmis tilboð í gangi hjá fyrirtækjum og stofnunum Reykjanesbæjar. M.a. verður þjónustumiðstöðin á Nesvöllum með viðburði fyrir eldra fólk. Dagskrána í heild sinni má skoða á vefnum visitreykjanesbaer.is.
Öldungaráð hvetur bæjarbúa til að taka þátt í lýðheilsu- og forvarnarvikunni.
Fylgigögn:
Lýðheilsu- og forvarnarvika Reykjanesbæjar 2024 - upplýsingar
Auglýsing um lýðheilsu- og forvarnarviku Reykjanesbæjar
Með því að smella hér má skoða dagskrá lýðheilsu- og forvarnarviku á vefnum visitreykjanesbaer.is
4. Frístundastefna Reykjanesbæjar (2023050566)
Hafþór B. Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúi mætti á fundinn og kynnti fyrirhugaða vinnu við frístundastefnu Reykjanesbæjar.
Öldungaráð þakkar fyrir kynninguna og leggur áherslu á að frístundir eldra fólks fái pláss í stefnunni.
Fylgigögn:
Frístundastefna Reykjanesbæjar - kynning
5. Nesvellir 4, þjónustumiðstöð - breytingar (2023070388)
Margrét Arnbjörg Valsdóttir, teymisstjóri stuðnings- og öldrunarþjónustu, kynnti fyrirhugaðar breytingar í þjónustumiðstöðinni að Nesvöllum.
6. Heima- og stuðningsþjónusta - vaktavinna (2024050046)
Margrét Arnbjörg Valsdóttir, teymisstjóri stuðnings- og öldrunarþjónustu, skýrði frá því að breytingar á vinnufyrirkomulagi í heima- og stuðningsþjónustu Reykjanesbæjar hafa verið samþykktar og verður unnið í vaktavinnu frá og með 1. janúar 2025.
Með breytingunni verður samfelld þjónusta allan daginn og fram á kvöld og góð þjónusta um helgar. Þannig er vonast til að þörfum þjónustuþega verði betur sinnt. Áfram verður þó einungis forgangsþjónusta á rauðum dögum.
7. Félagsstarf aldraðra - aukning (2024050425)
Margrét Arnbjörg Valsdóttir, teymisstjóri stuðnings- og öldrunarþjónustu, sagði frá aukningu í aðsókn að félagsstarfi aldraðra á vegum þjónustumiðstöðvarinnar á Nesvöllum. Á döfinni er að taka upp nýjungar í starfinu.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:01.