Stjörnuþokusmiður

Stjörnuþokusmiður

Sparisjóðurinn í Keflavík festi árið 2004 kaup á listaverkinu af Listasafni Erlings Jónssonar og var það staðsett á lóðinni við húsnæði Sparisjóðsins að Tjarnargötu 12. Erlingur segir þannig sjálfur frá tilurð verksins að Kristinn Reyr hafi hitt hann á Hafnargötunni, heilsað og farið með nýorta vísu eftir sjálfan sig sem var svohljóðandi:

Nú er ég að námi sestur,
norður, suður, austur, vestur.
Hvað er upp og hvað er niður
herra stjörnuþokusmiður.

Tilefni vísunnar var lestur skáldsins á grein um stjörnufræði. Erlingur reyndi að myndskreyta vísuna og varð jafnframt hugsað til þess þegar Kristinn Reyr kom í Sparisjóðinn, hitti Guðmund Guðmundsson sparisjóðsstjóra og bað um lán til siglingar.
Guðmundur svaraði að venju: “Það eru engir peningar til,” sagði þó við Kristin: “Komdu aftur á morgun, ég athuga málið.” Þegar Kristinn kom aftur daginn eftir sagði Guðmundur: “Þeir vilja að þú siglir.”

Skúlptúrinn er spurning um hvað sé  upp og hvað sé niður, einnig skírskotun til stjarnfræðilegrar siglingar Kristins. Jörðin er orðin að skálarformuðu skipi með lengdar- og breiddarbauga fyrir reiða. Önnur eliment tákna hreyfitæki (segl) og eru áttir þeirra í hæsta máta óræðar.

Heimild: Faxi og Erlingur Jónsson (skilti)

 

Ábyrgðaraðili: Listasafn Reykjanesbæjar