487. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar var haldinn 3. nóvember 2015 að Tjarnargötu 12, kl. 17:00.
Mættir : Böðvar Jónsson aðalbæjarfulltrúi, Árni Sigfússon aðalbæjarfulltrúi, Magnea Guðmundsdóttir aðalbæjarfulltrúi, Gunnar Þórarinsson aðalbæjarfulltrúi, Baldur Guðmundsson aðalbæjarfulltrúi, Friðjón Einarsson aðalbæjarfulltrúi, Kristinn Þór Jakobsson aðalbæjarfulltrúi, Guðbrandur Einarsson aðalbæjarfulltrúi, Elín Rós Bjarnadóttir aðalbæjarfulltrúi, Kolbrún Jóna Pétursdóttir aðalbæjarfulltrúi, Eysteinn Eyjólfsson varabæjarfulltrúi, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Ásbjörn Jónsson ritari. Í forsæti var Guðbrandur Einarsson.
1. Fundargerðir bæjarráðs 22. og 29. október 2015 (2015010022)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar.
2. mál frá 1046. fundi bæjarráðs 29. október 2015.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkir hér með að veita einfalda ábyrgð vegna lántöku Reykjaneshafnar hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð 60.000.000 kr. til 10 ára, í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Ábyrgð þessi er veitt sbr. heimild í 1. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, og veitir sveitarstjórnin lánasjóðnum veð í tekjum sínum til tryggingar þeirri ábyrgð, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sömu laga. Ábyrgðin tekur til greiðslu höfuðstóls láns þessa, ásamt vöxtum og verðbótum auk hvers kyns innheimtukostnaðar. Lánið er tekið til endurfjármögnunar afborgana af lánum Reykjaneshafnar, sem fellur undir lánshæf verkefni, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar skuldbindur hér með sveitarfélagið sem eiganda Reykjaneshafnar til að selja ekki eignarhlut sinn í Reykjaneshöfn til einkaaðila, í heild eða að hluta, fram til þess tíma að lán þetta er að fullu greitt.
Fari svo að Reykjanesbær selji eignarhlut í Reykjaneshöfn til annarra opinberra aðila, skuldbindur Reykjanesbær sig til þess að tryggja að samhliða yfirtaki nýr eigandi ábyrgð á láninu í hlutfalli við eignarhlut sinn í félaginu.
Jafnframt er Kjartani Má Kjartanssyni, kennitala ekki birt, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess að samþykkja f.h. Reykjanesbæjar veitingu ofangreindrar ábyrgðar og veðsetningar og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast veitingu ábyrgðar þessarar.
Heimildin samþykkt 11-0
Fundargerðirnar samþykktar að öðru leyti 11-0 án umræðu.
2. Fundargerð velferðarráðs 26. október 2015 (2015090358)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Kristinn Þór Jakobsson, Eysteinn Eyjólfsson, Kjartan Már Kjartansson og Guðbrandur Einarsson. Fundargerðin samþykkt 11-0.
3. Fundargerð barnaverndarnefndar 26. október 2015 (2015010018)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Fundargerðin lögð fram án umræðu.
4. Fundargerð stjórnar Reykjaneshafnar 28. október 2015 (2015100353)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Gunnar Þórarinsson, Kristinn Þór Jakobsson, Magnea Guðmundsdóttir, Árni Sigfússon, Kolbrún Jóna Pétursdóttir, Kjartan Már Kjartansson og Guðbrandur Einarsson. Fundargerðin samþykkt 11-0.
5. Fundargerð fræðsluráðs 30. október 2015 (2015010099)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Elín Rós Bjarnadóttir, Böðvar Jónsson, Kristinn Þór Jakobsson, Magnea Guðmundsdóttir, Friðjón Einarsson, Kjartan Már Kjartansson, Eysteinn Eyjólfsson, Árni Sigfússon, Gunnar Þórarinsson, Baldur Guðmundsson og Guðbrandur Einarsson. Fundargerðin samþykkt 11-0.
6. Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar og sameiginlega rekinna stofnana 2016 - 2019 - fyrri umræða (2015080120)
Forseti gaf orðið laust um fjárhagsáætlunina. Til máls tók Kjartan M. Kjartansson er fylgdi áætluninni úr hlaði. Til máls tóku Böðvar Jónsson, Kristinn Þór Jakobsson, Magnea Guðmundsdóttir, Guðbrandur Einarsson, Kjartan Már Kjartansson, Friðjón Einarsson og Árni Sigfússon og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks:
Áætlun meirihluta bæjarstjórnar sem hér er lögð fram á að gilda til ársins 2019. Hún gerir ekki ráð fyrir að tekist hafi að færa rekstur bæjarins í viðunandi horf á þeim tíma. Það gefur því auga leið að þetta getur ekki verið sú áætlun sem samþykkt verður eftir síðari umræðu.
Áætlunin horfir framhjá þeim staðreyndum að hér er eitt öflugasta uppbyggingarsvæði landsins þar sem um 700 milljón kr. tekjur munu koma til bæjarsjóðs á ári, frá árinu 2017, aðeins vegna verkefnanna í Helguvík. Alþjóðaflugvöllurinn er einnig í mikilli uppbyggingu sem kallar á hundruð starfa á hverju ári og því verulega skatttekjuaukningu fyrir Reykjanesbæ. Áætlun um íbúafjölgun tekur ekki mið af þessu.
Þá er hvergi gert ráð fyrir að takist að semja við lánadrottna, sem eru að stórum hluta útlendir vogunarsjóðir hinna föllnu banka, þegar ríkið semur á sama tíma við þá um verulega eftirgjöf skulda.
Áætlunin er því eingöngu stöðutaka sem sýnir stöðu ef hvorki verður áfram unnið í tekjuöflun eða samningum um skuldir bæjarins. Vonandi er ætlun meirihlutans önnur. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn eru sannarlega áfram reiðubúnir að aðstoða við þá vinnu.
Til máls tóku Friðjón Einarsson, Árni Sigfússon og Gunnar Þórarinsson
Fjárhagsáætlun 2016 vísað til síðari umræðu 15. desember n.k.
7. Samstarf sveitarfélaga á Suðurnesjum (2015100464)
Forseti leggur til að þessum dagskrálið verði frestað til næsta fundar. Tillagan samþykkt 11-0.
Fleira ekki gert og fundi slitið.