524. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 20. júní 2017 kl. 17:00.
Viðstaddir: Baldur Guðmundsson, Böðvar Jónsson, Elín Rós Bjarnadóttir, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson , Guðný Birna Guðmundsdóttir, Gunnar Þórarinsson, Kolbrún Jóna Pétursdóttir, Kristinn Þór Jakobsson, Magnea Guðmundsdóttir, Ingigerður Sæmundsdóttir, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Ásbjörn Jónsson ritari. Í forsæti var Guðbrandur Einarsson.
1. Fundargerðir bæjarráðs 8. og 15. júní 2017 (2017010007)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tóku Friðjón Einarsson og Böðvar Jónsson. Fundargerðirnar samþykktar 11-0.
2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 13. júní 2017 (2017010147)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Baldur Guðmundsson og leggur fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins:
„Undirritaðir bæjarfulltrúar vekja athygli á og gera athugasemdir við afar slaka mætingu nefndarmanna meirihlutans hjá Umhverfis- og skipulagsráði. Fyrir utan formann nefndarinnar, sem hefur sinnt sínum verkefnum með ágætum, skipar meirihluti bæjarstjórnar tvo nefndarmenn í Umhverfis- og skipulagsráð. Hefur annar þeirra um 60% mætingarhlutfall á fundi þessa árs en hinn aðeins innan við 15%. Þrátt fyrir slaka mætingu nefndarmanna meirihlutans á fundi heyrir nánast til undantekninga að varamenn þeirra séu boðaðir í staðinn. Á síðasta fundi nefndarinnar voru aðeins 3 af 5 aðalfulltrúum mættir, þar af vantar tvo fulltrúa meirihlutans á fundinn og enginn varamaður var boðaður.
Umhverfis- og skipulagsráð er ein mikilvægasta fastanefnd sveitarfélagsins og gegnir mjög mikilvægu hlutverki í stjórnsýslunni. Á það ekki síst við á uppbyggingartímum eins og nú er, þegar byggingarframkvæmdir íbúðarhúsnæðis eru í blóma auk framkvæmda við iðnaðarsvæðið í Helguvík, óskir um breytingar á skipulagi eru fjölmargar og vinna við aðal- og deiliskipulag stendur yfir.
Skorað er á meirihlutann að sýna málaflokknum meiri áhuga og tryggja að þeir fulltrúar sem skipaðir eru til að sinna verkefninu geri það, eða boði varamenn sína að öðrum kosti.“
Baldur Þ. Guðmundsson, Böðvar Jónsson, Ingigerður Sæmundsdóttir, Kristinn Þór Jakobsson, Magnea Guðmundsdóttir.
Til máls tóku Gunnar Þórarinsson, Kristinn Þór Jakobsson Elín Rós Bjarnadóttir, Guðbrandur Einarsson, Friðjón Einarsson og Böðvar Jónsson.
Gert var fundarhlé kl. 17:22. Fundur hófst aftur kl. 17:35.
Sautjánda lið í fundargerðinni, Leirdalur 22-28 – Deiliskipulagsbreyting, var vísað til aftur til afgreiðslu hjá Umhverfis- og skipulagsráðs og var það samþykkt með 11 atkvæðum.
Sextándi liður í fundargerðinni Leirdalur 2-16 – Skipulagsbreyting ( 2017010077) var borinn sérstaklega upp til atkvæða og var samþykktur með 11 atkvæðum.
Tuttugasti og fjórði liður í fundargerðinni Hafnargata 12 – Deiliskipulagsbreyting
(20160100194) var borinn sérstaklega upp til atkvæða og var samþykktur með 11 atkvæðum.
Tuttugasti og fimmti liður í fundargerðinni Endurskoðun Aðalskipulags- Afgreiðsla Skipulagsstofnunar var borinn sérstaklega upp til atkvæða og var samþykktur með 11 atkvæðum.
Fundargerðin samþykkt 11-0 að öðru leyti.
3. Fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs 6. júní 2017 (2017010209)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Fundargerðin samþykkt 11-0.
4. Fundargerð stjórnar Reykjaneshafnar 8. júní 2017 (2017020267)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Fundargerðin samþykkt 11-0 .
5. Sumarleyfi bæjarstjórnar (2017060210)
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkir að fela bæjarráði fullnaðarafgreiðslu mála á meðan sumarleyfi bæjarstjórnar stendur yfir frá 21. júní til 17. ágúst n.k.Næsti bæjarstjórnarfundur verður þriðjudaginn 22. ágúst 2017. Tillagan samþykkt 11-0.
6. Kosningar til eins árs í bæjarstjórn og bæjarráð 2017 (2017060212)
Kosningar til eins árs.
Bæjarstjórn:
Forseti bæjarstjórnar: Uppástunga kom um Guðbrand Einarsson og var hann kjörinn með öllum greiddum atkvæðum. Fyrsti varaforseti: Uppástunga kom um Elínu Rós Bjarnadóttur og var hún kjörin með öllum greiddum atkvæðum.
Annar varaforseti: Uppástunga kom um Magneu Guðmundsdóttur og var hún kjörin með öllum greiddum atkvæðum.
Tveir skrifarar: Uppástunga kom um Guðnýju B. Guðmundsdóttur og Böðvar Jónsson og voru þau kjörin með öllum greiddum atkvæðum. Tveir varaskrifarar: Uppástunga kom um Baldur Guðmundsson og Gunnar Þórarinsson og voru þeir kjörnir með öllum greiddum atkvæðum.
Bæjarráð:
Uppástunga kom um aðalmenn Gunnar Þórarinsson, Guðbrand Einarsson, Friðjón Einarsson, Árna Sigfússon og Böðvar Jónsson og voru þeir kjörnir með öllum greiddum atkvæðum. Varamenn þeirra skv. 2. mgr. 44. gr. samþykkta um stjórn Reykjanesbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar, eru kjörnir bæjarfulltrúar og varabæjarfulltrúar af sama framboðslista í þeirri röð sem þeir skipuðu listann þegar kosið var til bæjarstjórnar.
Fleira ekki gert og fundi slitið.