563. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 2. apríl 2019, kl. 17:00
Viðstaddir: Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Baldur Þórir Guðmundsson, Díana Hilmarsdóttir, Guðbrandur Einarsson, Gunnar Þórarinsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Margrét Ólöf A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Styrmir Gauti Fjeldsted, Eydís Hentze Pétursdóttir, Sigurrós Antonsdóttir, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Hrefna Gunnarsdóttir ritari. Í forsæti var Jóhann Friðrik Friðriksson.
1. Fundargerðir bæjarráðs 21. og 28. mars 2019 (2019010002)
Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókanir:
Liður 3 frá fundargerð bæjarráðs 21. mars 2019
„Þann 3. mars kom Miðflokkurinn með fyrirspurn vegna útgáfu bókar um sögu Keflavíkur og spurði hver kostnaður við þessa fyrirhuguðu útgáfu yrði. Forseti bæjarstjórnar gat þá ekki svarað spurningunni. Málið virðist vera þannig vaxið að hér sé meirihlutinn að fara að ráðast í verkefni án þess að fyrir liggi kostnaðaráætlun. Það eru að sjálfsögðu engin vinnubrögð. Rétt er að geta þess hér að svona verkefni, kostnaðurinn við svona bókaútgáfu, hefur tilhneigingu til að fara fram úr áætlunum. Má þar nefna útgáfu um sögu Akraness sem dæmi. Ég vil því ítreka fyrirspurn mína og ætti meirihlutinn nú að hafa haft nægan tíma til að vinna svarið.“
Liður 1 frá fundargerð bæjarráðs 28. mars 2019
„Nú er þessi skýrsla komin til afgreiðslu í bæjarstjórn. Þessar breytingar hafa væntanlega verið kostnaðargreindar og óska ég hér með eftir því að fá minnisblað um allan kostnað er málið varðar. Ég mun sitja hjá við afgreiðslu málsins og vísa til fyrri bókunar minnar frá bæjarstjórnarfundi þann 19. mars hvað það varðar.“
Liður 2 frá fundargerð bæjarráðs 28. mars 2019
„Stjórnsýslusvið bæjarins hefur komist að þeirri niðurstöðu að undirbúningur og framkvæmd fyrirliggjandi undirskriftasöfnunar er ekki í samræmi við 108. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og reglugerðar nr. 155/2013. Samkvæmt þeirra áliti er því ekki grundvöllur íbúakosningar. Málið varðar grundvallarréttindi íbúanna. Lýðræðislegan rétt þeirra til þess að fá að segja skoðun sína í veigamiklum málum. Í svo stóru máli er eðlilegt að skjóta því til frekari úrlausnar. Bæjarfulltrúi Miðflokksins hvetur því aðstandendur undirskriftasöfnunarinnar að láta reyna á gildi hennar með því að kæra ákvörðun Reykjanesbæjar til ráðuneytisins sbr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga. Það er auk þess mikilvægt fyrir bæjarfélagið upp á framhaldið.
Bent er á að kæran skal berast ráðuneytinu innan þriggja mánaða. Það er dæmalaust ef bæjarstjórnin ætlar að hundsa vilja íbúa bæjarins í þessu stóra umhverfismáli. Þvert á gefin loforð. Það fór eins og Miðflokkurinn hafði spáð að meirihlutinn myndi beita fyrir sig lagatæknilegum atriðum vegna þess að hann hefur ekki kjark og þor til að standa með íbúunum. Við vitum það öll að mikill meirihluti íbúa í Reykjanesbæ er á móti þessari starfsemi við bæjardyrnar.“
Liður 3 frá fundargerð bæjarráðs 28. mars 2019
„Það er óskiljanlegt að horfa upp á hvernig skipulagsvinnu var háttað varðandi þessar byggingar. Ljóst er að þetta er búið að vera eitt allsherjar klúður. Auðvitað vekur þetta mál upp fleiri spurningar eins og hvort það sé eðlilegt að hægt sé að fá úthlutaða verðmæta lóð og draga það svo í mörg ár að hefja framkvæmdir. Þessi bygging mun hafa áhrif á útsýnið frá Pósthússtræti 3. Mjög margir hafa einmitt keypt sér íbúðir í þessu húsi vegna útsýnisins. Það eru verðmæti í útsýni þegar um fasteignir er að ræða. Þarna var verið að ganga á verðmæti fólks. Með þessari nýbyggingu að Pósthússtræti 5, svo nálægt Pósthússtræti 3, er verið að draga úr gæðum og verið að rýra verðgildi eigna í Pósthússtræti 3. Þetta mál birtist mér þannig að það hafi verið laumast við að hliðra þessu húsi til á byggingarreit, verktakanum í hag en íbúum í næsta húsi í óhag. Fyrir það eiga íbúarnir í næsta húsi ekki að þurfa að gjalda. Nú hefur samkomulag náðst við byggingaraðilann og bærinn skuldbindur sig til að greiða honum 43 milljónir í skaðabætur. Þetta er nú meira ruglið. Bæinn munar svo sannarlega um 43 milljónir, hver ætlar að axla þá ábyrgð? Ég spyr. Var búið að gera ráð fyrir þessum kostnaði í fjárhagsáætlun? Ég óska hér með eftir því að fá minnisblað um það hver heildarkostnaður bæjarins er á þessu klúðri.“
Liður 4 frá fundargerð bæjarráðs 28. mars 2019
„Ég tek undir bókun Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna frystingar á fjárframlögum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og fagna henni. Þó er ljóst af yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar að ekki verður farið í skerðingarnar án samráðs við sveitarfélögin. Enda annað ekki forsvaranlegt. Náist ekki samkomulag og skerðingin verði að veruleika þá er það mikið högg ofan á það sem við sjáum nú fram á vegna gjaldþrots Wow. Ég trúi því reyndar ekki að ríkisstjórnin ætli að halda þessu til streitu gagnvart Suðurnesjunum í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem blasir við, nú þegar hundruð manna hafa misst vinnuna. Nú þarf meirihlutinn að svara því til hvaða ráðstafana verður gripið til að mæta tekjutapinu, sem ríkisstjórnin ætlar að skella á okkur ofan á allt annað. Alveg er það makalaust hvað við erum alltaf annars flokks fólk í augum ríkisvaldsins. Ljóst er að endurskoða þarf fjárhagsáætlun bæjarins og koma stjórnvöldum í skilning um það að svona gera menn ekki.“
Liður 11 frá fundargerð bæjarráðs 28. mars 2019
„Ég velti því fyrir mér hvort að meirihlutinn sé að reyna að keyra þessa sameiningu í gegn, án eðlilegrar og upplýstrar umræðu. Við þurfum að fá skýrari og betri gögn varðandi málið. Ég er til dæmis alveg undrandi á ráðgjöfum Capacent, hvernig þeir héldu á þessari kynningu, varðandi sameiningu Kölku og Sorpu. Hún var mjög sérstök og ekki nægilega vönduð að mínum dómi. Það hallaði verulega á okkur og þetta birtist mér þannig að hagsmunir Sorpu væru aðalmálið í þessu. Ég vil ítreka fyrri bókun Miðflokksins frá bæjarstjórnarfundi þann 6. febrúar sl.“
Bæjarfulltrúi Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki.
Til máls tóku Jóhann Friðrik Friðriksson og Guðbrandur Einarsson sem lagði fram eftirfarandi bókun frá meirihluta Reykjanesbæjar, Beinni leið, Framsóknarflokki og Samfylkingunni, við lið 2 í fundargerð bæjarráðs frá 28. mars 2019:
„Á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar þann 28. mars sl. voru lagðir fram undirskriftalistar með áskorun til bæjarstjórnar um að efna til bindandi íbúakosningar um starfsemi kísilvera í Helguvík.
Í minnisblaði bæjarlögmanns sem var hluti af framlögðum gögnum kemur eftirfarandi fram:
„Grundvöllur slíkrar íbúakosningar er heimild 108. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138 frá 2011 og reglugerð nr. 155 frá 2013 um undirskriftasafnanir vegna almennra atkvæðagreiðslna samkvæmt sveitarstjórnarlögum.
Tilkynna þarf sveitarstjórn um fyrirhugaða undirskriftasöfnun þar sem óskað er eftir almennri atkvæðagreiðslu um tiltekið mál er varðar sveitarfélagið. Tilkynningin þarf að vera undirrituð af a.m.k. þremur einstaklingum og þar á að koma fram tilefni undirskriftasöfnunar og ábyrgðaraðili.
Ekki var leitað til bæjarstjórnar varðandi undirskriftasöfnunina og þar af leiðandi er undirbúningur og framkvæmd hennar ekki í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar og því ófullnægjandi sem grundvöllur íbúakosningar.
Þá gafst bæjarstjórn Reykjanesbæjar ekki tækifæri til að meta hvort ákvæði 3. mgr. 108 gr. sveitarstjórnarlaga hamli því að unnt sé að krefjast almennrar atkvæðagreiðslu.
Ákvæði 4. gr. reglugerðarinnar var ekki fullnægt varðandi söfnun undirskrifta. Þá er skilyrðum 5. gr. og 6. gr. reglugerðarinnar um hlutverk ábyrgðaraðila og afhendingu undirskrifta ekki fullnægt.
Niðurstaða: Undirbúningur og framkvæmd fyrirliggjandi undirskriftasöfnunar eru ekki í samræmi við 108. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og reglugerðar nr. 155/2013 og því ekki grundvöllur íbúakosninga.”
Það er því ljóst að bæjarstjórn Reykjanesbæjar getur ekki lagt til að farið verði í bindandi íbúakosningu á grundvelli þessarar undirskriftasöfnunar. Þó er ljóst að þessir undirskriftalistar gefa skýrt til kynna að stór hópur íbúa vilji koma að frekari ákvörðunum um framhald reksturs kísilsvers Stakksbergs í Helguvík ásamt því að vilja hafa áhrif á það hvort Thorsil hefji rekstur kísilmálmverksmiðju á sama stað.
Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar hefur nú þegar lýst þeirri skoðun sinni að starfsemi af þessu tagi sé óhentug svo nærri íbúabyggð og hefur skorað á viðkomandi fyrirtæki að hætta við frekari uppbyggingu í Helguvík. Það er því ljóst að meirihluti bæjarstjórnar deilir skoðunum með þeim sem rituðu nafn sitt á undirskriftalistana og mun í framhaldinu skoða möguleika á aðkomu íbúa að frekari uppbyggingu kísilvera í Helguvík sé þess nokkur kostur. Bindandi íbúakosning um meiriháttar breytingu á deiliskipulagi gæti verið leið til þess.“
Bæjarfulltrúar Beinnar leiðar, Framsóknarflokks og Samfylkingar.
Til máls tóku Margrét A. Sanders, Gunnar Þórarinsson, Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Kjartan Már Kjartansson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Margrét Þórarinsdóttir, Baldur Þ. Guðmundsson og Guðbrandur Einarsson.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar lagði fram eftirfarandi bókun:
„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar lýsir ánægju sinni með hversu hratt og vel hefur verið brugðist við þeim mikla vanda sem hefur skapast í kjölfar þess að WOW Air var lýst gjaldþrota.
Ríkisstjórn, þingmenn, sveitarstjórnir, stéttarfélög og margir fleiri brugðust strax við, til þess að lágmarka þann skaða sem óneitanlega fylgir þegar um svo margar uppsagnir er að ræða og til þess að halda utan um þann stóra hóp fjölskyldna sem misst hefur lífsviðurværi sitt.
Sveitarfélagið hefur nú þegar brugðist við og hefur myndað aðgerðahóp til þess að meta stöðuna frá degi til dags. Þar verður sérstaklega horft til þess að koma í veg fyrir að þessi staða hafi neikvæð áhrif á börn og ungmenni sveitarfélagsins. Stéttarfélög hafa lýst sig reiðubúin til að lána starfsmönnum WOW Air sem ekki fengu greidd laun um mánaðarmótin auk þess sem ríki hefur lagt aukna fjármuni til Vinnumálastofnunar. Einnig er ljóst að styrkja þarf atvinnuleysistryggingasjóð og ábyrgðarsjóð launa sem ábyrgist launagreiðslur við gjaldþrot fyrirtækja í framhaldi.
Samstillt átak af þessu tagi er ánægjulegt og mun leiða til þess að árangri verði náð fyrr en ella hefði verið. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar mun standa þétt saman og vinna með nágrannasveitarfélögum og ríki að mótvægisaðgerðum eins og þurfa þykir.“
Bæjarfulltrúar Beinnar leiðar, Frjáls afls, Framsóknarflokks, Miðflokks, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.
Fundargerðirnar samþykktar 11-0.
2. Fundargerð stjórnar Reykjaneshafnar 21. mars 2019 (2019010286)
Forseti gaf orðið laust.
Fundargerðin samþykkt 11-0 án umræðu.
3. Fundargerð barnaverndarnefndar 25. mars 2019 (2019010523)
Fundargerð lögð fram án umræðu.
4. Fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs 26. mars 2019 (2019010053)
Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson og Styrmir Gauti Fjeldsted.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:40.