597. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn 20. október 2020, kl. 17:00
Viðstaddir: Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Baldur Þ. Guðmundsson, Díana Hilmarsdóttir, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Gunnar Þórarinsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Styrmir Gauti Fjeldsted, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari. Í forsæti var Guðbrandur Einarsson.
1. Fundargerðir bæjarráðs 8. og 15. október 2020 (2020010002)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun:
Liður 9 í fundargerð bæjarráðs frá 20. október 2020:
„Miðflokkurinn fagnar áhuga Samherja á atvinnuuppbyggingu í Helguvík og vonar að áform fyrirtækisins um laxeldi á landi verði að veruleika. Miðflokkurinn leggur áherslu á að bæjarstjórn eigi gott samstarf við fyrirtækið í þessum efnum og greiði götu þess við verkefnið eins og kostur er.“
Margrét Þórarinsdóttir (M).
Til máls tók Margrét A. Sanders og lagði fram eftirfarandi bókun:
Liður 9 í fundargerð bæjarráðs frá 20. október 2020:
„Mikið atvinnuleysi er á Suðurnesjum og fjölbreytileiki í atvinnulífinu ekki mikill. Sjálfstæðisflokkurinn fagnar því að Samherji hafi sýnt áhuga á atvinnuuppbyggingu í Helguvík. Atvinnumál eru brýnustu verkefni sveitarfélagsins núna og því verða bæjaryfirvöld að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess treysta stoðir atvinnuuppbyggingar á svæðinu.“
Margrét Sanders, Baldur Guðmundsson og Anna Sigríður Jóhannesdóttir Sjálfstæðisflokki.
Til máls tók Baldur Þ. Guðmundsson og lagði fram eftirfarandi bókun:
Liður 2 í fundargerð bæjarráðs frá 20. október 2020:
„Fyrsti áfangi Stapaskóla hefur nú verið tekinn í notkun og þykir byggingin afar glæsileg enda mun dýrari en sambærilegar byggingar.
Áfangi 2 snýr að byggingu íþróttaaðstöðu og upphafleg greining tók mið af þörfum skólabarna þar sem kennslulaug og einfaldur íþróttasalur myndi duga. Á síðari stigum var viðruð sú hugmynd að íþróttasalur nýttist sem löglegur körfuknattleiksvöllur og í sumar var ræddur sá möguleiki að setja upp aðstöðu fyrir rúmlega 1.000 áhorfendur og sundlaug yrði einnig stækkuð. Á síðasta bæjarráðsfundi voru lagðar fram skissur þar sem nokkrir valkostir voru kynntir ásamt grófri kostnaðaráætlun. Einföld útfærsla mun kosta rúman milljarð en ef farið yrði alla leið þá gæti kostnaður nálgast 2 milljarða.
Við undirrituð treystum okkur ekki til að styðja auknar fjárfestingar um nærri milljarð króna án þess að frekari greiningarvinna fari fram. Í greiningunni komi fram hvernig íþróttahúsið og sundlaug muni nýtast í náinni framtíð, hvaða íþróttagreinar og félög myndu nota aðstöðuna og hvort það nýtist einnig til æfinga, hvort bílastæði séu nægjanleg þegar kappleikir standa yfir, hvort sundlaugin verði notuð til æfinga eða hvort opið verði fyrir almenning fram eftir kvöldi og fleira sem skiptir máli í þarfagreiningu. Nú þegar gróf kostnaðaráætlun hefur verið kynnt er nauðsynlegt að rýna þarfirnar áður en lengra er haldið. Við hönnunarvinnu verði leitast við að velta upp öllum möguleikum á ódýrari útfærslum án þess að það komi niður á gæðum.“
Margrét Sanders (D) Baldur Guðmundsson (D) Anna Sigríður Jóhannesdóttir (D) og Margrét Þórarinsdóttir (M).
Til máls tóku Díana Hilmarsdóttir, Friðjón Einarsson, Gunnar Þórarinsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Margrét A. Sanders, Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Baldur Þ. Guðmundsson og Guðbrandur Einarsson.
Forseti bar upp til sérstakrar samþykktar 1. lið frá bæjarráðsfundi 15. október 2020 Faxabraut 20 fjölgun íbúða. Var afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. september samþykkt 11-0.
Fundargerðirnar samþykktar að öðru leyti 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 1289. fundar bæjarráðs 8. október 2020
Fundargerð 1290. fundar bæjarráðs 15. október 2020
2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 16. október 2020 (2020010012)
Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi liði fundargerðarinnar frá 16. október til sérstakrar samþykktar:
Fjórði liður fundargerðarinnar Íshússtígur 6 - Fyrirspurn um byggingu á lóð (2020100162) var samþykktur með 11 atkvæðum án umræðu.
Níundi liður fundargerðarinnar Hafnargata 31 – Skábraut (2020100165) var samþykktur með 11 atkvæðum án umræðu.
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun:
Liður 10 í fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. október 2020:
„Eftirfarandi bókun kom frá fulltrúa Miðflokksins á fundi ráðsins:
„Miðflokkurinn fagnar í raun þessum frábæru tillögum og er í raun óskiljanlegt að það skuli ekki vera nú þegar til aðstaða fyrir þennan markhóp. Það er grundvallarþjónusta að hvert bæjarfélag reki tjaldsvæði. Slíkt eflir og frjóvgar hvert samfélag, eykur þjónustu og listalíf. Það er öllum til hagsbóta að þessi hugmynd verði að veruleika fyrir næsta sumar“. Tilvitnun líkur.
Að leggja í markaðsátak eins og gert var nú í sumar með útsvarstekjum Reykjanesbúa er skot út í myrkrið ef ekki er til staðar tjaldsvæði fyrir Íslendinga á faraldsfæti með hjólhýsi, fellihýsi eða tjöld. Ekki er hægt að einblína bara á hótelin í bænum, þó þau gegni mikilvægu hlutverki fyrir okkur öll. Reykjanesbær verður að standa undir merki að geta boðið upp á margvíslega gistimöguleika eins og t.d. Árborg sem er með framúrskarandi tjaldstæði sem hefur sett það sveitarfélag í fyrsta flokk þegar kemur að Landsmótum UMFÍ, hestamannamótum og fleiri landsviðburðum.“
Margrét Þórarinsdóttir (M).
Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 258. fundar umhverfis- og skipulagsráðs 16. október 2020
3. Fundargerð velferðarráðs 14. október 2020 (2020010007)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Guðný Birna Guðmundsdóttir, Díana Hilmarsdóttir og Margrét A. Sanders.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun:
Liður 2 í fundargerð velferðarráðs frá 14. október 2020:
„Nauðsynlegt er að fara yfir reynsluna af fyrri þjónustusamningi áður en lengra verður haldið. Ljóst er að umsækjendum um alþjóðlega vernd fer fjölgandi og ekki hefur dregið úr umsóknum þrátt fyrir veirufaraldurinn og verulegan samdrátt í flugsamgöngum. Þjónustusamningurinn við Útlendingastofnun hefur haft í för með sér álag á ýmsa innviði bæjarins og skiptar skoðanir eru meðal bæjarbúa um þennan samning. Til að mynda hefur mikið álag verið á sjúkraflutningamönnum, sem hafa flutt hælisleitendur frá Leifsstöð í Sóttvarnarhúsið í Reykjavík undanfarnar vikur og hefur þetta álag vakið upp spurningar um hvort dregið hafi úr öryggi bæjarbúa þegar kemur að mikilvægri þjónustu slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.“
Margrét Þórarinsdóttir (M).
Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 391. fundar velferðarráðs 14. október 2020
4. Kosning aðalmanns og varamanns í íþrótta- og tómstundaráð (2020100229)
Jóhann Birnir Guðmundsson (D) aðalmaður í íþrótta- og tómstundaráði hefur sagt sig úr ráðinu sem aðalmaður. Í hans stað var lagt til að Birgitta Rún Birgisdóttir (D) taki sæti hans og var hún sjálfkjörin.
Þá var kosið um varamann í stað Birgittu Rúnar Birgisdóttur (D) og var lagt til að Jóhann Birnir Guðmundsson (D) verði varamaður og var hann sjálfkjörinn.
Jóhannes Kristbjörnsson (Á) vék úr ráðinu sem varamaður vegna flutnings úr bæjarfélaginu. Í hans stað var lagt til að Bjarni Sæmundsson (Á) taki sæti hans og var hann sjálfkjörinn.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:00