599. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn 17. nóvember 2020, kl. 17:00
Viðstaddir: Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Baldur Þ. Guðmundsson, Díana Hilmarsdóttir, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Gunnar Þórarinsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Styrmir Gauti Fjeldsted, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari. Í forsæti var Guðbrandur Einarsson.
1. Fundargerðir bæjarráðs 5. og 12. nóvember 2020 (2020010002)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar.
Til máls tók Margrét A. Sanders (D) og lagði fram eftirfarandi bókun:
Liður 6 í fundargerð bæjarráðs frá 12. nóvember 2020:
„Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ leggjast alfarið á móti 20% hækkun jólagjafar til starfsfólks bæjarins eins og meirihlutinn samþykkti í bæjarráði.
Í ljósi þess að 1 af hverjum rúmlega 4 einstaklingum á atvinnumarkaði í sveitarfélaginu eru án atvinnu og fjárhagslegra erfiðleika í heild hjá sveitarfélaginu, teljum við þessa hækkun taktlausa.
Jólagjöfin er í formi gjafabréfs til að nýta hjá fyrirtækjum og þjónustuaðilum í „Betri bæ“ hér í Reykjanesbæ. Við leggjum til að þessi 20% hækkun á gjafabréfum renni til þeirra sem eiga í erfiðleikum með að ná endum saman. Velferðarsviðið fái þessa upphæð til að úthluta til þeirra sem mest þurfa á gjafabréfinu að halda.“
Margrét Sanders, Baldur Guðmundsson og Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Sjálfstæðisflokki.
Lögð var fram eftirfarandi tillaga bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Við leggjum til að sú áætlaða 20% hækkun á jólagjöfum til starfsmanna í formi gjafabréfa renni til þeirra sem eiga í erfiðleikum með að ná endum saman. Velferðarsviðið fái þessa upphæð til að úthluta til þeirra sem mest þurfa á gjafabréfinu að halda.
Margrét Sanders, Baldur Guðmundsson og Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Sjálfstæðisflokki.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (M) og lagði fram eftirfarandi bókun:
„Bæjarfulltrúi Miðflokksins styður þessa framkomnu tillögu. Með henni er verið að koma til móts við fjölda fólks sem reiða sig á fjárhagsaðstoð bæjararins. Þessi tillaga er mikið réttlætismál fyrir það fólk.“
Margrét Þórarinsdóttir (M).
Tillagan er felld með 6 atkvæðum meirihlutans gegn 5 atkvæðum minnihluta.
Til máls tók Friðjón Einarsson (S) og lagði fram eftirfarandi bókun:
„Meirihlutinn hafnar framkominni tillögu enda er um að ræða 5% hækkun á heildarvirði jólagjafar til starfsfólks. Starfsfólk bæjarins hefur unnið þrekvirki við erfiðar aðstæður og alls ekki boðlegt að tengja jólagjafir til starfsmanna við stöðu velferðarmála. Lögð hefur verið til veruleg hækkun til málaflokksins og væri frekari stuðningur við velferðarmál sjálfstæð ákvörðun. Það er sorglegt að verða vitni að lýðskrumi sem þessu og bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokks til háborinnar skammar.“
Díana Hilmarsdóttir (B), Friðjón Einarsson (S), Guðbrandur Einarsson (Y), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Jóhann Friðrik Friðriksson (B) og Styrmir Gauti Fjeldsted (S).
Til máls tóku Jóhann Friðrik Friðriksson, Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Baldur Þ. Guðmundsson, Friðjón Einarsson, Margrét Þórarinsdóttir, Margrét A. Sanders, Gunnar Þórarinsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Kjartan Már Kjartansson og Guðbrandur Einarsson.
Forseti bar upp til sérstakrar samþykktar lið 3 frá fundi bæjarráðs 5. nóvember 2020 „Brunavarnaráætlun Brunavarnar Suðurnesja 2020-2025“. Samþykkt 11-0.
Fundargerðirnar samþykktar að öðru leyti 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 1293. fundur bæjarráðs 5. nóvember 2020
Fundargerð 1294. fundar bæjarráðs 12. nóvember 2020
2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 6. nóvember 2020 (2020010012)
Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi liði fundargerðarinnar frá 6. nóvember til sérstakrar samþykktar:
Sjötti liður fundargerðarinnar Brimdalur 7 – Lóðarstækkun (2020050201) var samþykktur með 11 atkvæðum án umræðu.
Sjöundi liður fundargerðarinnar Furudalur 14 og 16 – Breyting á deiliskipulagi (2020020042). Samþykkt 11-0 að vísa þeim lið til umhverfis- og skipulagsráðs til frekari skoðunar.
Níundi liður fundargerðarinnar Dalsbraut 32 - 36 bílastæðamál (2019120016) var samþykktur með 11 atkvæðum án umræðu.
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.
Fundargerðin samþykkt án umræðu að öðru leyti 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 259. fundar umhverfis- og skipulagsráðs 6. nóvember 2020
3. Fundargerð lýðheilsuráðs 13. nóvember 2020 (2020010008)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Anna Sigríður Jóhannesdóttir og Kjartan Már Kjartansson.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 13. fundar lýðheilsuráðs 13. nóvember 2020
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:45