601. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn 15. desember 2020, kl. 17:00
Viðstaddir: Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Baldur Þ. Guðmundsson, Díana Hilmarsdóttir, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Gunnar Þórarinsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Styrmir Gauti Fjeldsted, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari. Í forsæti var Guðbrandur Einarsson.
1. Fundargerðir bæjarráðs 3. og 10. desember 2020 (2020010002)
Forseti bar upp til sérstakrar samþykktar lið 10 frá fundi bæjarráðs 10. desember 2020 „Veðskuldabréf með veði í Víkingabraut 1 í Reykjanesbæ og sjálfskuldarábyrgð kaupanda.“ Veðskuldabréfið samþykkt 11-0.
Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tók Margrét A. Sanders.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (M) og lagði fram eftirfarandi bókun:
Liður 15 í fundargerð bæjarráðs frá 10. desember 2020:
„Ég kem hér undir lið 15 í fundargerð bæjarráðs frá 10 desember. Fjárhagsáætlun 2021-2024.
Miðflokkurinn getur ekki samþykkt viðbót við fjárheimildir vegna fjárhagsáætlunar 2021 og mun því sitja hjá varðandi þennan lið í fundargerð bæjarráðs. Miðflokkurinn getur samþykkt alla liði við fjárheimildir nema lið númer 5 og 7.“
Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki.
Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tóku Margrét A. Sanders, Friðjón Einarsson og Jóhann Friðrik Friðriksson.
Jóhann Friðrik Friðriksson lýsti sig vanhæfan undir lið 8 úr fundargerð bæjarráðs 10. desember 2020.
Forseti bar upp til sérstakrar samþykktar lið 8 frá fundi bæjarráðs 10. desember 2020
„Hlutafjáraukning – Keilir.“ Hlutafjáraukning samþykkt 10-0.
Fundargerðirnar samþykktar að öðru leyti 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 1297. fundar bæjarráðs 3. desember 2020
Fundargerð 1298. fundar bæjarráðs 10. desember 2020
2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 4. desember 2020 (2020010012)
Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi liði fundargerðarinnar frá 4. desember til sérstakrar samþykktar:
Þriðji liður fundargerðarinnar Hafnargata 76 – fyrirspurn (2020120023) var samþykktur 11-0 án umræðu.
Fimmti liður fundargerðarinnar Skólavegur 3 (2020080062) var samþykktur 11-0 án umræðu.
Áttundi liður fundargerðarinnar Flugvallarbraut 937 - uppskipting á lóð (2020110028) var samþykktur 11-0 án umræðu.
Níundi liður fundargerðarinnar Faxabraut 20 - fjölgun íbúða (2020090261) var samþykktur 11-0 án umræðu.
Tíundi liður fundargerðarinnar Njarðvíkurhöfn - skipulagslýsing og húsakönnun (2020100160) var samþykktur 11-0 án umræðu.
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.
Fundargerðin samþykkt án umræðu að öðru leyti 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 261. fundar umhverfis- og skipulagsráðs 4. desember 2020
3. Fundargerð fræðsluráðs 4. desember 2020 (2020010006)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Díana Hilmarsdóttir og Anna Sigríður Jóhannesdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 338. fundar fræðsluráðs 4. desember 2020
4. Fundargerð velferðarráðs 9. desember 2020 (2020010007)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 393. fundar velferðarráðs 9. desember 2020
5. Fundargerð lýðheilsuráðs 10. desember 2020 (2020010008)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Jóhann Friðrik Friðriksson og Anna Sigríður Jóhannesdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 14. fundar lýðheilsuráðs 10. desember 2020
6. Fundargerð stjórnar Reykjaneshafnar 10. desember 2020 (2020010252)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Kjartan Már Kjartansson og Jóhann Friðrik Friðriksson.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 247. fundar Stjórnar Reykjaneshafnar 10.12.20
7. Lýðheilsustefna – síðari umræða (2019100079)
Forseti gaf orðið laust um lýðheilsustefnu Reykjanesbæjar. Jóhann Friðrik Friðriksson fór yfir helstu punktana sem fram koma í stefnunni.
Til máls tóku Díana Hilmarsdóttir, Guðný Birna Guðmundsdóttir og Anna Sigríður Jóhannesdóttir.
Lýðheilsustefna Reykjanesbæjar samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Lýðheilsustefna Reykjanesbæjar
8. Gjaldskrá 2021 - síðari umræða (2020110443)
Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Kjartan Már Kjartansson.
Gjaldskráin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Gjaldskrá 2021 bæjarráð 26.11.2020
9. Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar og sameiginlega rekinna stofnana 2021 - 2024 - síðari umræða (2020060158)
Forseti gaf orðið laust um fjárhagsáætlunina. Til máls tók Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri sem fylgdi áætluninni úr hlaði og fór yfir breytingar frá fyrri umræðu 1. desember 2020.
Til máls tók Margrét A. Sanders (D) og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
„Sú fjárhagsáætlun sem nú er lögð fram fyrir næsta ár litast mjög af erfiðu efnahagsástandi í kjölfar heimsfaraldurs. Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir bæjarsjóð árið 2021 gerir ráð fyrir tæplega 2,5 milljarða tapi. Áætlað er að tekjur lækki um 224 milljónir, laun og launatengd gjöld hækki um 7,4% m.a. vegna samningsbundinna launahækkana og annar rekstrarkostnaður hækki um 11,7%.
Sitjandi meirihluti gaf minnihlutanum tækifæri á að sitja kynningar stjórnenda bæjarins við undirbúning fjárhagsáætlunar og þakka bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ fyrir þá frumraun. Eftir þá yfirferð þótti meirihlutanum ekki tilefni til að draga úr kostnaði og er áætluð hækkun kostnaðar eins og kemur fram hér á undan. Allar hugmyndir sem Sjálfstæðisflokkurinn ásamt öðrum í minnihluta hafa viðrað hafa verið slegnir út af borðinu og því teljum við að ekki sé grundvöllur til að koma með beinar tillögur um lækkun á kostnaði. Sjálfstæðisflokkurinn hefur margoft bent á óhagræði í því skipulagi sem meirihlutinn kom á með fjölgun yfirmanna, fjölgun nefnda og fjölgun nýrra stöðugilda sem hafa aukið kostnað og óskilvirkni.
Reykjanesbær hefur stækkað mikið sem sveitarfélag á undanförnum árum, íbúum fjölgað og tekjur aukist gríðarlega. Hið sorglega er að stækkunin hefur ekki skilað sér í auknu hagræði fyrir bæjarbúa. Frá 1. desember 2014 eða frá því að nýr meirihluti tók við af Sjálfstæðismönnum og fyrir skipulagsbreytingar hjá nýjum meirihluta hefur stöðugildum í Reykjanesbæ fjölgað um 260 eða um 38% á sama tíma og bæjarbúum hefur fjölgað um 35,5%. Rétt er að geta þess að einungis 20% fjölgun hefur verið á börnum í grunnskólum bæjarins á sama tíma.
Í erfiðu atvinnuástandi er snúið að beita hagræðingaraðgerðum án þess að til uppsagna komi, en nauðsynlegt að beita aðhaldi í rekstri, en ekki auka annan rekstrarkostnað.“
Margrét A. Sanders. Baldur Þ. Guðmundsson og Anna Sigríður Jóhannesdóttir Sjálfstæðisflokki.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (M) og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Miðflokks:
„Fjárhagsáætlunin ber þess merki að tekjufall bæjarsjóðs er mikið á sama tíma og útgjöld hafa aukist. Kórónuveirufaraldurinn hefur haft mikil áhrif á stöðuna eins og mörg önnur sveitarfélög. Hallinn á næsta ári er verulegur eða 2,4 milljarðar króna. Undir þessum kringumstæðum er nauðsynlegt að hagræða í rekstri bæjarins eins og mögulegt er án þess að til uppsagna þurfi að koma.
Meirihlutinn tók tillögu Miðflokksins um hagræðingu í stjórnsýslunni, sem hefur blásið út, fálega. Undirrituð þurfti að sitja undir hreinum ósannindum og dylgjum af hálfu bæjarstjóra og bæjarfulltrúa meirihlutans vegna málsins. Framkoma bæjarstjóra sem er ráðinn embættismaður, í garð undirritaðrar sem er kjörinn fulltrúi að gæta hagsmuna útsvarsgreiðenda er umhugsunarefni.
Fjármálastjórnun bæjarins fyrir kórónuveirufaraldurinn einkenndist af útgjaldaaukningu sem ekki reyndist innistæða fyrir. Þannig var hækkun launa sviðsstjóra fyrir ári síðan um 122 þúsund krónur á mánuði sem köld vatnsgusa í andlit almennra starfsmanna bæjarins og sýnir best hvar forgangsröðun meirihlutans liggur, á sama tíma og þeir felldu tillögu Miðflokksins um gjaldfrjálsar skólamáltíðir sem skiptir margar fjölskyldur verulegu máli ekki síst núna þegar atvinnuleysi er verulegt og mikið áhyggjuefni.
Halda þarf vel á fjármálum bæjarins á næstu mánuðum og gangi nýjustu spár um hagvöxt og atvinnuleysi eftir, sem meirihlutinn vildi ekki horfa til við vinnu áætlunarinnar, má ljóst vera að rekstur bæjarins er í járnum. Vanhugsaðar ákvarðanir og valdahroki endurspegla vinnubrögð meirihluta Framsóknar, Samfylkingar og Beinnar leiðar.
Miðflokkurinn greiðir ekki atkvæði.“
Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki.
Til máls tók Friðjón Einarsson og lagði fram eftirfarandi bókun meirihluta bæjarstjórnar, bæjarfulltrúa Beinnar leiðar, Framsóknarflokks og Samfylkingar:
„Þegar rýnt er í fjölgun stöðugilda hjá Reykjanesbæ frá árinu 2014-2020 kemur ýmislegt áhugavert í ljós. Íbúum Reykjanesbæjar hefur á þessu tímabili fjölgað úr 14.525 í 19.678 eða um 5.154 sem er meira en heildarfjöldi allra íbúa í Grindavík, svo dæmi sé tekið.
Þessi mikla fjölgun kallar að sjálfsögðu á aukna þjónustu og við því hefur verið brugðist. Fjölgun stöðugilda hefur verið talsverð og hefur stöðugildum hjá Reykjanesbæ fjölgað um 260 á þessu tímabili. Þetta á sér sínar eðlilegu skýringar þar sem stærstur hluti þessarar fjölgunar er á fræðslusviði og velferðarsviði.
Á fræðslusviði hefur verið fjölgað um 186 stöðugildi vegna mikillar fjölgunar nemenda en einnig vegna fjölgunar skóla.
Á velferðarsviði hefur stöðugildum fjölgað um 40 manns, þar af um 38 vegna þjónustu við fatlaða einstaklinga.
Síðan má nefna að 20 ráðningar hafa orðið til vegna svokallaðra ráðningarstyrkja í sameiginlegu átaki sveitarfélagsins og Vinnumálastofnunar.
Eftir standa þá 14 stöðugildi sem liggja víða
2 stöðugildi mannauðssvið
2 stöðugildi skjalavarsla
3 stöðugildi þjónustumiðstöð
2 stöðugildi skrifstofa umhverfissviðs
1 stöðugildi markaðs og kynningarmál
2 stöðugildi Súlan
2 stöðugildi Upplýsingamál, þjónusta og þróun.
Öll umræða um að báknið hafi vaxið er því byggð á sandi og þessar tölur sýna svo ekki verður um villst að aðhaldi hefur verið beitt þegar horft er á fjölgun stöðugilda hjá sveitarfélaginu.“
Guðbrandur Einarsson (Y), Friðjón Einarsson (S), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Styrmir Gauti Fjeldsted (S), Jóhann Friðrik Friðriksson (B) og Díana Hilmarsdóttir (B).
Til máls tóku Jóhann Friðrik Friðriksson, Baldur Þ. Guðmundsson, Gunnar Þórarinsson, Margrét Þórarinsdóttir, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Díana Hilmarsdóttir, Margrét A. Sanders, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson og Kjartan Már Kjartansson.
Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar og sameiginlega rekinna stofnana 2021-2024 samþykkt með 6 atkvæðum Beinnar leiðar, Framsóknarflokks og Samfylkingar. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks, Frjáls afls og Miðflokks sitja hjá.
Til máls tók Guðbrandur Einarsson og lagði fram eftirfarandi bókun meirihluta bæjarstjórnar, bæjarfulltrúa Beinnar leiðar, Framsóknarflokks og Samfylkingar:
„Sú fjárhagsáætlun sem nú hefur verið samþykkt sýnir í raun hversu mikil óvissa ríkir um stöðu mála í Reykjanesbæ. Samfélagið býr nú við meira atvinnuleysi en við höfum áður þekkt og því reynir verulega á alla innviði þess. Það er ekki auðvelt, við þessar aðstæður, að gera raunhæfar áætlanir, þar sem enginn getur sagt fyrir með einhverri vissu hvað muni gerast á nýju ári.
Fréttir um mögulegt bóluefni gefa hins vegar vonir um að hægt verði að aflétta þeim sóttvarnarhöftum sem við höfum búið við innan skamms og við tekið upp venjubundið líf að nýju.
Dugmikið starfsfólk
Það hefur hins vegar komið í ljós að sveitarfélagið, með öllu sínu frábæra starfsfólki, hefur getað tekist á við þær miklu áskoranir sem kórónuveirufaraldrinum hefur fylgt. Það hefur reynt verulega á framlínustarfsfólkið okkar sem ekki hefur talið eftir sér að vinna sín störf af kostgæfni á sama tíma og það hefur sjálft staðið frammi fyrir verulegri smithættu. Sú fórnfýsi verður seint full þökkuð.
Bjartara framundan
Á nýju ári þarf að mæta nýjum áskorunum og útlit er fyrir að þær geti orðið aðrar og auðveldari viðfangs en gert var ráð fyrir þegar samþykktar áætlanir voru unnar. Hins vegar hefur þeirri stefnu verið fylgt um hríð, að áætla tekjur varlega en útgjöld ríflega og hafa þá borð fyrir báru ef eitthvað gerist sem takast þarf á við.
Margt gott að gerast
Mýmörg verkefni eru í gangi sem sveitarfélagið er með á sinni könnu og má m.a. nefna þá miklu uppbyggingu skóla- og íþróttamannvirkja sem nú á sér stað í Innri Njarðvík.
Nýr gervigrasvöllur verður svo tekinn í notkun með hækkandi sól og verið er að gera miklar endurbætur í Sundmiðstöð með nýrri vatnsrennibraut, nýju gufubaði og heitum pottum.
Þá hafa göngustígar verið lagfærðir og stefnt er að framhaldi á því verkefni á nýju ári.
Þá væntum við þess að sjá verkefni sem ríkið sinnir, fara í gang á nýju ári s.s. byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar, byggingu nýs hjúkrunarheimilis og einnig munum við sjá metnaðarfullar framkvæmdir fara af stað hjá Skipasmíðastöð Njarðvíkur ef áætlanir ganga eftir. Þá hefur Samherji til skoðunar hvort fýsilegt sé að koma fyrir laxeldi í Helguvík sem mun, ef af verður, hafa mikla og jákvæða þýðingu fyrir Suðurnesin í heild.
Áframhaldandi vöxtur
Reykjanesbær sem samfélag heldur því áfram að vaxa og dafna á nýju ári. Við sjáum ný hverfi verða til og íbúum mun halda áfram að fjölga. Þjónusta við íbúa verður aukin með auðveldara rafrænu aðgengi, hækkun verður á hvatagreiðslum, framlenging á samstarfssamningum við íþróttafélögin, stuðningi við Janusarverkefnið og hækkun á fjárhagsaðstoð svo eitthvað sé nefnt. Þannig forgangsröðum við í átt að aukinni velferð bæjarbúa.
Við viljum færa starfsfólki Reykjanesbæjar og íbúum öllum bestu þakkir fyrir ánægjuleg samskipti á árinu sem er að líða, með von um gleðileg jól og farsæld á nýju ári.“
Guðbrandur Einarsson (Y), Friðjón Einarsson (S), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Styrmir Gauti Fjeldsted (S), Jóhann Friðrik Friðriksson (B) og Díana Hilmarsdóttir (B).
Fylgigögn:
Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2021 - 2024 seinni umræða bæjarstjórnar 15.12.20
Forsendur og markmið fjárhagsáætlunar 2021 til 2024 RNB-fyrri umræða.pdf
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:35