604. fundur

02.02.2021 17:00

604. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, haldinn í Merkinesi, Hljómahöll 2. febrúar 2021, kl. 17:00

Viðstaddir: Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Baldur Þ. Guðmundsson, Díana Hilmarsdóttir, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Styrmir Gauti Fjeldsted, Jasmina Vajzovic Crnac, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari. Í forsæti var Guðbrandur Einarsson.

1. Fundargerðir bæjarráðs 21. og 28. janúar 2020 (2021010002)

Í upphafi fundar afhenti Guðný Birna Guðmundsdóttir 1. varaforseti bæjarstjórnar Guðbrandi Einarssyni forseta bæjarstjórnar blóm í tilefni af setu á 300 bæjarstjórnarfundum.

Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Fundargerðirnar samþykktar án umræðu 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 1303. fundar bæjarráðs 21. janúar 2021
Fundargerð 1304. fundur bæjarráðs 28. janúar 2021

2. Fundargerð menningar- og atvinnuráðs 20. janúar 2021 (2021010008)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Friðjón Einarsson.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 17. fundar menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar 20. janúar 2021

3. Fundargerð framtíðarnefndar 20. janúar 2021 (2021010004)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Styrmir Gauti Fjeldsted og Margrét A. Sanders.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 16. fundar framtíðarnefndar 20. janúar 2021

4. Fundargerð stjórnar Reykjaneshafnar 21. janúar 2021 (2021010009)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Fundargerðin samþykkt án umræðu 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 248. fundar Stjórnar Reykjaneshafnar 21.01.2021

5. Fundargerð barnaverndarnefndar 25. janúar 2021 (2021010003)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Díana Hilmarsdóttir.

Fylgigögn:

Fundargerð 277. fundar barnaverndarnefndar 25. janúar 2021

6. Sala Útlendings ehf. (Víkingaheima) (2020080084)

Til máls tók Guðbrandur Einarsson og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa meirihlutans, Samfylkingar, Framsóknarflokks og Beinnar leiðar:

„Allt frá því að Sóknin (samkomulag um endurskipulag efnahags Reykjanesbæjar) var samþykkt þann 29. október 2014 hefur verið unnið að endurskipulagningu fjárhags Reykjanesbæjar. Ein af aðgerðum Sóknarinnar var að stöðva fjárflæði frá A-hluta bæjarsjóðs yfir í B-hluta stofnanir og fyrirtæki, sem eru þau fyrirtæki sem sveitarfélagið á að öllu leyti eða meirihluta í. Reykjaneshöfn er eitt slíkt fyrirtæki, Víkingaheimar annað.
Víkingaheimar (Íslendingur/Útlendingur) sem hóf rekstur árið 2008 var í eigu nokkurra aðila til að byrja með en vegna mikils tapreksturs, endaði félagið hjá Reykjanesbæ og voru aðrir hluthafar keyptir út þegar sveitarfélagið lagði inn aukið hlutafé eða afskrifaði skuldir.
Skv. fyrirliggjandi rekstraráætlunum var gert ráð fyrir að gestir safnsins yrðu 100 þúsund á ári og gert var ráð fyrir þeim fjölda strax á árinu 2009. Þessar áætlanir stóðust alls ekki og var gestafjöldi á árinu 2009 aðeins 10.000 gestir. Gestafjöldi á safnið hefur mest verið fimmtungur af þeim gestafjölda sem áætlaður var, að meðtöldum börnum sem voru ekki greiðendur.
Reykjanesbær hefur því þurft að leggja félaginu til verulega fjármuni og er sú tala komin í 479 milljónir síðan 2009 á verðlagi hvers árs.
Þessu til viðbótar voru lagðir til fjármunir í frágang á lóð í gegnum Reykjaneshöfn að upphæð kr. 37,6 milljónir og því er um að ræða upphæð sem nemur 516,6 milljónum sem runnið hafa frá Reykjanesbæ til þessa safns.
Tap félaganna er hins vegar í raun talsvert hærra en hér er nefnt frá 2009 eða um 550 milljónir og felst mismunurinn í fjármagnsliðum og afskriftum rekstrarfjármuna Íslendings og Útlendings.
Stjórn Íslendings/Útlendings þurfti því að leita leiða í framhaldi af undirritun Sóknarinnar, til að láta safnið halda áfram, án fjárframlags frá Reykjanesbæ.
Kostirnir voru þrír:
1. Að hundsa þau skilyrði sem fram komu í Sókninni og treysta á að bæjarsjóður Reykjanesbæjar myndi halda áfram að greiða tugi milljóna með safninu á hverju ári.
2. Að lýsa safnið gjaldþrota með tilheyrandi skaða fyrir alla.
3. Að freista þess að einhver annar gæti rekið safnið og selja hlutabréfin.
Niðurstaðan varð sú að velja kost þrjú.
Auglýst var eftir áhugasömum aðilum til þess að reka safnið og gáfu þrír aðilar sig fram. Gerður var afnotasamningur vegna víkingaskipsins og leigusamningur vegna Víkingabrautar 1 við þann aðila sem rekið hefur safnið síðan. Í báðum samningum var ákvæði um kauprétt á hinu leigða og til afnota og nam kaupverðið sömu fjárhæðar skuldum við lánastofnanir vegna víkingaskipsins annarsvegar og veðskuldum áhvílandi á fasteigninni.
Hefur sá kaupréttur nú verið nýttur.
Á bæjarstjórnarfundi þann 15. desember 2020 samþykktu allir bæjarfulltrúar veðskuldabréf til fullnustu þeim samningi sem gerður var á miðju ári 2015 og því er safnið endanlega komið úr höndum sveitarfélagsins.
Bæjarfulltrúi Miðflokksins, hélt því m.a. fram í viðtali á Bylgjunni, fimmtudaginn 28. janúar sl. að söluferli hafi ekki verið opið, að lóð hafi verið seld til einkaaðila, að bærinn hafi lánað fyrir öllu kaupverðinu svo að eitthvað sé nefnt af þeim rangfærslum fram komu í þessu viðtali.
Rétt er að leiðrétta eitthvað af því sem þar kom fram.
1. Ákvörðun um að fara þessa leið var tekin á árinu 2015 í fullu samráði aðila og fyrir opnum tjöldum, þar sem auglýst var eftir áhugasömum aðilum sem gætu tryggt áframhaldandi rekstur safnsins án aðkomu sveitarfélagsins og án fjárútláta af hálfu þess.
2. Víkingaheimar voru skuldsett safn og því er yfirtaka á verulegum skuldum sem fjármálastofnanir eiga hluti af greiðslu.
3. Lóðin var ekki seld heldur leigð með leigusamningi og verður greidd af henni lóðarleiga í framhaldinu. Nýting lóðar er ákveðin í aðalskipulagi sveitarfélagsins sem hægt er að endurskoða á hverju kjörtímabili, en sú endurskoðun er umfangsmikil og fer fram í miklu samráði við íbúa sveitarfélagsins. Nú stendur yfir endurskoðun aðalskipulags og enginn vilji er fyrir því að breyta nýtingu þessa lands.
Skv. aðalskipulagi er stór hluti þessa svæðis skilgreindur sem svæði fyrir samfélagsþjónustu en hluti þess skilgreindur sem opið svæði. Þess má og geta að hluti þessa svæðis er undir sjávarmáli og eins liggur landið lágt og er undir viðmiðunarmörkum vegna hækkunar sjávar. Það væri því ekki verjandi að heimila íbúabyggð á þessu svæði.
4. Bæjarfulltrúinn hélt því einnig fram að bærinn hafi ekki gert henni auðvelt fyrir á sama tíma og hún upplýsti um að hún hafi fengið aðgang að 130 gögnum.
5. Svo virðist sem bæjarfulltrúinn geri sér ekki grein fyrir þeim mun sem felst í kauprétti annars vegar og forkaupsrétti hins vegar.
Það má alltaf deila um verðmæti hluta en enginn hlutur er verðmætari en það verð sem einhver vill greiða fyrir hann. Reykjanesbæ bar hins vegar skylda til, eftir að hafa undirgengist skilmála Sóknarinnar, að stöðva fjárflæði frá bæjarsjóði til annara stofnanna og fyrirtækja.
Sala á Víkingaheimum var liður í því.“

Guðbrandur Einarsson (Y), Friðjón Einarsson (S), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Styrmir Gauti Fjeldsted (S), Jóhann Friðrik Friðriksson (B) og Díana Hilmarsdóttir (B).

Forseti gaf orðið laust.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (M) og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Miðflokksins:

„Íbúar í Reykjanesbæ hafa ekki góða reynslu af eignasölu bæjarins í gegnum árin. Allt verður að vera upp á borðum við söluna á Víkingaheimum. Það er það ekki.
Nú er það meirihluta bæjarstjórnar: Samfylkingar, Framsóknar og Beinnar leiðar að upplýsa bæjarbúa um að hagsmuna bæjarins hafi verið gætt í hvívetna við söluna á Víkingaheimum.
Eftirfarandi spurningar legg ég hér með fram um söluna og óska eftir skriflegu svari.
Spurningarnar eru þessar:
1. Ljóst er að samningur Reykjanesbæjar við leigutaka Víkingaheima frá 2015 kemur í veg fyrir opið söluferli. Ekki er hægt að auglýsa Víkingaheima til sölu og selja þá hæstbjóðanda. Hvers vegna gerði bæjarstjórn svo afleitan samning árið 2015?
2. Hvers vegna var kaupverðið fyrir fram ákveðið í leigusamningi frá árinu 2015?
3. Kaupréttur leigutaka rann út um áramótin 2020, tengist það sölunni degi fyrir áramót?
4. Hefði kaupréttarákvæði samningsins frá 2015 virkjast ef bærinn hefði ekki lánað leigutaka fyrir kaupunum?
5. Hvers vegna fær almenningur ekki að vita kaupverðið?
6. Hvers vegna lánaði Reykjanesbær kaupanda kaupverðið? Hver voru kjörin?
7. Var bærinn skyldugur til að lána leigutaka kaupverðið?
8. Í samningi við leigutaka frá 2015 segir að leigutaki eigi að greiða kaupverðið. Það gerir hann ekki þar sem bærinn lánar honum fyrir kaupunum. Er Reykjanesbær ekki að veita leigutaka óeðlilega fyrirgreiðslu?
9. Hvers vegna var verðmætt land ekki undanskilið kauprétti árið 2015?
10. Hvaða skilmálar fylgdu sölunni? Verður svipaður rekstur eða hyggst kaupandi breyta starfseminni?
11. Hver átti frumkvæði að því að virkja kaupréttarákvæði leigusamningsins frá 2015, fáeinum dögum áður en það rann úr gildi, var það leigutaki eða leigusalinn Reykjanesbær?
12. Hvaða skuldir yfirtók kaupandi?
13. Hvaða skuldir hefur bærinn afskrifað af eignarhaldsfélaginu Útlendingi sem hélt utan um fasteignir safnsins fyrir árið 2015?“

Margrét Þórarinsdóttir Miðflokki.

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Friðjón Einarsson, Jóhann Friðrik Friðriksson og Kjartan Már Kjartansson.

Til máls tók Margrét A. Sanders og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

„Sjálfstæðisflokkurinn styður sölu á Víkingaheimum en telur að þær upplýsingar sem voru lagðar fyrir okkur hafi verið misvísandi og algert grundvallaratriði að þegar fasteignir Reykjanesbæjar eru seldar að söluferlið sé opið og gegnsætt. Einnig erum við ósammála meirihlutanum og bæjarstjóranum að heimilt sé að halda þessum samningum leyndum í skjóli 9. gr. upplýsingalaga.
Í gerð leigusamnings vegna Víkingaheima við rekstraraðila frá 2015 er ákvæði um kauprétt rekstraraðila og er kaupverðið tilgreint og tengt vísitölu. Bæjarstjóri hefur lagt mikla áherslu á það í samskiptum við bæjarfulltrúa að sveitarfélagið sé bundið trúnaði um gögn sem innihalda fjárhags eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila og ber fyrir sig í þessu sambandi 9. gr. upplýsingalaga um heimild á takmörkun á upplýsingarétti til almennings.
Sú grein er undantekning frá upplýsingarétti almennings og ber að beita af mikilli varúð. Stjórnvald verður að leggja mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingarnar varða. Við bendum á að markmið upplýsingalaga er að tryggja gegnsæi í stjórnsýslu við meðferð opinberra hagsmuna meðal annars í þeim tilgangi að styrkja aðhald fjölmiðla og almennings að opinberum aðilum og möguleika fjölmiðla til að miðla upplýsingum um opinber málefni.
Bæjarfulltrúum hefur ekki borist mat á því hvort viðkomandi upplýsingar varði svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni viðkomandi fyrirtækis að ætla megi að þær geti valdið viðkomandi aðilum tjóni og hversu miklu.
Því leggjum við fram eftirfarandi spurningar:
1. Fór fram mat á því hvort umræddar upplýsingar séu þess eðlis að um mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni þeirra lögaðila sem getið er í umræddum samningum sé að ræða og hversu miklu tjóni upplýsingarnar gætu valdið viðkomandi lögaðila?
2. Í gögnum sem liggja fyrir sést að auglýst var eftir rekstraraðila vegna Víkingaheima árið 2015 en meirihlutinn tjáði bæjarfulltrúum að fasteignin hafi einnig verið auglýst til sölu á sama tíma? Er möguleiki að fá að sjá þá auglýsingu?“

Margrét Sanders, Baldur Guðmundsson og Anna Sigríður Jóhannesdóttir Sjálfstæðisflokki.

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Guðbrandur Einarsson, Kjartan Már Kjartansson, Friðjón Einarsson, Baldur Þ. Guðmundsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Margrét Þórarinsdóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson og Margrét A. Sanders.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:40