642. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, haldinn í Merkinesi, Hljómahöll 6. desember 2022, kl. 17:00
Viðstaddir: Alexander Ragnarsson, Bjarni Páll Tryggvason, Díana Hilmarsdóttir, Friðjón Einarsson, Guðbergur Reynisson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Helga Jóhanna Oddsdóttir, Margrét Þórarinsdóttir, Sverrir Bergmann Magnússon og Valgerður Björk Pálsdóttir. Í forsæti var Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir.
Að auki sátu fundinn Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari.
Margrét A. Sanders boðaði forföll, Alexander Ragnarsson sat fyrir hana.
Áður en fyrsta mál var tekið fyrir lagði forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar fram sameiginlega bókun bæjarfulltrúa Reykjanesbæjar:
„Þann 1. desember síðastliðinn birtist tilkynning á vefsíðu Arion Banka þess efnis að samningar milli Stakksbergs og PCC um kaup þess síðarnefnda á þrotabúi Kísilvers United Silicon í Helguvík myndu ekki ganga eftir. Síðar í tilkynningunni segir "Í kjölfar þessarar niðurstöðu mun Arion banki horfa til sölu á þeim innviðum sem eru til staðar í Helguvík, annað hvort til flutnings eða með það að markmiði að koma þar upp annars konar starfsemi en kísilframleiðslu."
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar fagnar því að nú sé komin niðurstaða í málinu og að áralangri óvissu sem uppi hefur verið um starfsemi kísilvinnslu í Helguvík sé nú lokið. Bæjarbúar geta því horft björtum augum fram á við og treyst því að framtíðaruppbygging í Helguvík muni byggja á öðrum grunni en stóriðju.
Bæjarstjórn leggur áherslu á að mikil og fjölbreytt tækifæri felast í framtíðaruppbyggingu svæðisins og ítrekar mikilvægi þess að öll frekari uppbygging á svæðinu sé gerð í samstarfi og sátt við umhverfið og samfélagið í Reykjanesbæ. Nú stendur yfir mikil uppbygging í Reykjanesbæ og nágrenni. Helguvík skipar stórt hlutverk í þeirri uppbyggingu og mun bæjarstjórn Reykjanesbæjar vinna að því að svæðið verði hluti af þeirri jákvæðu uppbyggingu. Verður þar meðal annars unnið eftir þeirri stefnu sem fram kemur í framtíðarsýn Reykjaneshafnar.
Bæjarstjórn vekur athygli á því að á Helguvíkursvæðinu eru til staðar fjölmörg tækifæri fyrir atvinnurekstur og hvetur bæjarstjórn aðila í íslensku atvinnulífi að gaumgæfa vel þá valkosti sem bjóðast í nágrenni Helguvíkurhafnar og við alþjóðaflugvöll. Framúrskarandi stórskipahöfn, nægt framboð hagstæðra atvinnulóða og nálægð við stærstu atvinnugreinar landsins ásamt vel menntuðum og hæfum mannauði eru einungis nokkrir af þeim kostum sem Helguvík og Reykjanesbær bjóða upp á.“
Alexander Ragnarsson, Bjarni Páll Tryggvason, Díana Hilmarsdóttir, Friðjón Einarsson, Guðbergur Reynisson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Helga Jóhanna Oddsdóttir, Margrét Þórarinsdóttir, Sverrir Bergmann Magnússon og Valgerður Björk Pálsdóttir.
1. Fundargerðir bæjarráðs 17. og 24. nóvember og 1. desember 2022 (2022010004)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tóku Guðný Birna Guðmundsdóttir, Guðbergur Reynisson, Friðjón Einarsson, Kjartan Már Kjartansson og Bjarni Páll Tryggvason.
Til máls tók Valgerður Björk Pálsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun:
Tíunda mál í fundargerð bæjarráðs frá 24. nóvember 2022:
„Á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar þann 24. nóvember 2022 var samþykkt af kjörnum fulltrúum allra flokka að skoða það hvort færa eigi Bókasafn Reykjanesbæjar í núverandi húsnæði Rokksafns Íslands í Hljómahöll. Það væri liður í því að efla Hljómahöll enn frekar sem menningarhús Reykjanesbæjar og styrkja daglega starfsemi í Hljómahöll. Bæjarstjóra var falið að skoða málið með starfsfólki Reykjanesbæjar; gera kostnaðaráætlun, skoða mögulega hönnun vegna breytinga á húsnæðinu að innan og skoða heildrænt hvort það sé góð hugmynd að færa bókasafnið í núverandi rými Rokksafnsins. Ef af ákvörðuninni yrði, myndi sambærileg vinna einnig fara fram um safnmuni Rokksafnsins, en margar hugmyndir eru uppi um hvort hægt sé að færa allt safnið eða hluta þess í aðrar byggingar, eða jafnvel halda hluta safnsins enn í núverandi húsnæði, enda vilji til þess að virða og miðla áfram tónlistarsögu Reykjanesbæjar.
Rekstur Rokksafnsins hefur verið krefjandi í mörg ár en er á sama tíma ekki lögbundið verkefni. Bókasöfn eru skilgreind sem lögbundin verkefni sveitarfélaga. Miklar fjárfestingar eru framundan á næstu árum í sveitarfélaginu og því ljóst að takmarkað fjármagn er til verkefna sem ekki eru lögbundin. Einnig er ólíklegt að hægt verði að fjárfesta í nýju húsnæði fyrir bókasafnið á komandi árum, enda dýr framkvæmd. Það er eindreginn vilji bæjaryfirvalda að nýta allt húsnæði Reykjanesbæjar á sem hagkvæmastan hátt og að húsnæði bæjarins þjóni þörfum íbúa sem best.
Bókasafn Reykjanesbæjar hefur verið í Ráðhúsi Reykjanesbæjar síðan 2013. Undanfarin ár, með fjölgun íbúa og nýjum hugmyndum um starfsemi bókasafna, hefur þörfin fyrir stærra og hentugra húsnæði aukist. Með mögulegum flutningi fengi bókasafnið nýrra og stærra húsnæði en áður og hefði loks möguleika á að láta framtíðarsýn Reykjanesbæjar í málefnum bókasafnsins frá 2019 verða að veruleika.
Í framtíðarsýn bókasafnsins, sem er stefnumótandi skjal samþykkt af bæjaryfirvöldum, kemur m.a. fram að bókasöfn á Norðurlöndunum eru í auknum mæli að breytast í samfélagsmiðstöðvar og nokkurs konar almannarými þar sem boðið er upp á fjölbreytta þjónustu aðra en útlán bóka. Hér er því ekki verið að hugsa um að færa einungis bækur og bókahillur yfir í Hljómahöllina, heldur að bókasafnið sem samfélagsmiðstöð verði hluti af menningarhúsi þar sem fjölbreytt starfsemi fer fram.
Bókasafnið hefur undanfarin ár boðið upp á fjölbreytta viðburði öllum bæjarbúum að kostnaðarlausu, eins og upplestrarstund fyrir börn og fullorðna, foreldramorgna, listasmiðjur, fjölbreytta viðburði fyrir konur af erlendum uppruna, margs konar markaði sem styðja við deilihagkerfið og fleira. Í nýrra og stærra rými yrði betra pláss fyrir viðburði sem og lestrarrými, leiksvæði fyrir börn, kaffisölu og fleira. Hljómahöll yrði áfram vettvangur þar sem stærri tónleikar, veislur og viðburðir myndu fara fram m.a. í Bergi og Stapa.
Ef að flutningi bókasafnsins verður mun Reykjanesbær standa fyrir samráðsferli í takt við viðmið um íbúasamráð Sambands íslenskra sveitarfélaga, um uppbyggingu Hljómahallar sem enn öflugra menningarhúss þar sem leitast verður eftir að ná fram fjölbreytt sjónarmið bæjarbúa á öllum aldri.“
Bjarni Páll Tryggvason (B), Díana Hilmarsdóttir (B), Friðjón Einarsson (S), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (B), Sverrir Bergmann Magnússon (S), Valgerður Björk Pálsdóttir (Y) og Margrét Þórarinsdóttir (U).
Til máls tók Helga Jóhanna Oddsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks:
Tíunda mál í fundargerð bæjarráðs frá 24. nóvember 2022:
„Sjálfstæðisflokkurinn lagði í haust meðal annars fram þá hugmynd að hagræðingu að skoða fýsileika þess að fá einkaaðila að rekstrinum í Hljómahöll og þannig minnka til muna það fjárframlag sem húsnæðið og starfsemin þar krefst frá sveitarfélaginu. Það olli okkur því vonbrigðum að sjá tillögu meirihlutans um að færa skyldi bókasafn Reykjanesbæjar af Tjarnargötu 12 og í Hljómahöll opinberaða. Áður hafa komið fram hugmyndir um færslu bókasafns, t.d. í Duus hús en ljóst að hugmyndir eru lítils virði ef við vitum ekki hverjar þarfirnar eru. Rekstur bókasafna í dag er gjörólíkur því sem hann var fyrir nokkrum árum og ljóst að breytingar munu halda áfram að ryðja sér til rúms. Greining á húsnæðisþörf bókasafna og stefnumótun um framtíðar starfsemi og þróun þarf því að byggja á mun fleiri þáttum en hillumetrum af bókum sem hreyfast æ sjaldnar og eiga í harðri samkeppni við rafbækur.
Við erum að byrja á öfugum enda með því að ætla að kostnaðarmeta hvað það kostar að koma bókasafni fyrir í Hljómahöll áður en við skoðum raunverulegar þarfir bókasafnsins óháð staðsetningu. Hljómahöll hefur í dag tekjur af útleigu sala og er Rokksafnið liður í aðdráttarafli salarleigunnar. Með færslu bókasafnsins erum við ekki að minnka kostnaðinn við Hljómahöll enda hann þegar til staðar við rekstur hússins og fermetrum sem hægt er að nýta til tekjuöflunar á móti. Tryggja þarf að gerð verið greining á því hvaða áhrif það hefði á þær tekjur sem við þó höfum af húsinu, ef Rokksafnið yrði flutt eða því lokað. Hversu vel fer salarleiga fyrir mannfagnaði og viðburði saman við starfsemi bókasafns? Er markmiðið að vera með „flottasta bókasafn landsins“? Hvenær er húsnæði einfaldlega of dýrt fyrir starfsemi sveitarfélags sem ekki skilar tekjum að neinu marki? Þessum spurningum og ótal fleiri er algjörlega ósvarað og að okkar mati óábyrgt að kasta því fram að færa skuli bókasafnið og vinna kostnaðaráætlun bundna við einn kost sem býður upp á að mat á kostnaði verði óskin ein, svo að kosturinn teljist góður.
Það er ljóst að kostnaður við húsnæðið í Hljómahöll er mikill og því ekkert unnið með að færa hann á milli lykla, hann minnkar ekki við það. Í raun mætti ætla að þessi breyting leiði til mun meiri kostnaðar þar sem leigutekjur tapast. Það er alls ekki hugmynd meirihlutans sem slík sem veldur okkur áhyggjum heldur sem fyrr, þau vinnubrögð sem viðhöfð eru í aðdraganda hennar. Meirihlutinn vildi upphaflega bóka á fundi bæjarráðs, að tekin væri ákvörðun um flutninginn. Því mótmælti Sjálfstæðisflokkurinn enda óásættanlegt að ætla að ákveða þetta stóra framkvæmd án allrar greiningarvinnu.“
Helga Jóhanna Oddsdóttir, Guðbergur Reynisson og Alexander Ragnarsson.
Til máls tóku Friðjón Einarsson, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Valgerður Björk Pálsdóttir, Helga Jóhanna Oddsdóttir, Bjarni Páll Tryggvason og Kjartan Már Kjartansson.
Fundargerðirnar samþykktar 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 1393. fundar bæjarráðs 17. nóvember 2022
Fundargerð 1394. fundar bæjarráðs 24. nóvember 2022
Fundargerð 1395. fundar bæjarráðs 1. desember 2022
2. Fundargerðir umhverfis- og skipulagsráðs 18. nóvember og 2. desember 2022 (2022010013)
Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi liði fundargerðarinnar frá 18. nóvember til sérstakrar samþykktar:
Sjötta mál fundargerðarinnar Suðurbraut 758 - niðurstaða grenndarkynningar (2022090270) samþykktur 11-0 án umræðu.
Áttunda mál fundargerðarinnar Leikskóli í Drekadal 4 - stækkun á lóð (2022100203) samþykktur 11-0 án umræðu.
Tíunda mál fundargerðarinnar Aðaltorg - þróunarsamningur (202006000) samþykktur 10-0 án umræðu, Alexander Ragnarsson (D) sat hjá.
Ellefta mál fundargerðarinnar Ósk um undanþágu frá úthlutunarreglum (2022110032) samþykktur 11-0 án umræðu.
Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi liði fundargerðarinnar frá 2. desember til sérstakrar samþykktar:
Þriðja mál fundargerðarinnar Fyrirspurn um uppsetningu á svefnskála (2022100285) samþykktur 11-0 án umræðu.
Fimmta mál fundargerðarinnar Hafnargata 23 - breyting (2022110326) samþykktur 11-0 án umræðu.
Áttunda mál fundargerðarinnar Klettatröð 6b – stækkun (2022110634) samþykktur 11-0 án umræðu.
Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Díana Hilmarsdóttir, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Guðbergur Reynisson og Friðjón Einarsson.
Fundargerðirnar samþykktar að öðru leyti 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 303. fundar umhverfis- og skipulagsráðs 18. nóvember 2022
Fundargerð 304. fundar umhverfis- og skipulagsráðs 2. desember 2022
3. Fundargerð lýðheilsuráðs 15. nóvember 2022 (2022010010)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Díana Hilmarsdóttir og Helga Jóhanna Oddsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 33. fundar lýðheilsuráðs 15. nóvember 2022
4. Fundargerð velferðarráðs 16. nóvember 2022 (2022010014)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.
Til máls tók Alexander Ragnarsson og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks:
Fyrsta mál í fundargerð velferðarráðs frá 16. nóvember 2022:
„Sjálfstæðisflokkurinn lýsir yfir áhyggjum að ekki verðið staðið við hámarkið 350 notendur, eins og fram kemur í bókun velferðarráðs um samræmda móttöku flóttafólks. Reynslan hefur sýnt okkur að ríkið tekur húsnæði á leigu í sveitarfélaginu, skráir fólk til heimilis sem þýðir að sveitarfélaginu ber skylda til að veita þjónustu. Ríkið semur svo um greiðslur eftir á og við því stöðugt að elta skottið á okkur. Enginn samningur, engar greiðslur en fólkinu hefur verið komið fyrir. Það er ljóst að við getum ekki haldið svona á málum mikið lengur.
Mikil fjölgun flóttafólks til landsins á skömmum tíma hefur reynt á innviði sveitarfélagsins og sem þegar voru komnir að þolmörkum. Búsetuúrræði eru af skornum skammti og mikil álag er á skólaþjónustuna. Vandséð er hvernig Reykjanesbær á að geta tekið á móti fleira flóttafólki eins og staðan er í dag. Mikilvægt er að á hverjum tíma liggi fyrir réttar upplýsingar um fjölda þeirra sem búa í sveitarfélaginu og bíða úrlausnar sinna mála. Jafnframt er mikilvægt að hafa skýra sýn á hversu margir hafa fengið vernd og eru í þjónustu Reykjanesbæjar.
Sjálfstæðisflokkurinn óskar eftir sundurliðun upplýsinga hvað þetta varðar miðað við 1. desember 2022, yfirliti yfir þá samninga sem gerðir hafa verið við ríkið hingað til og ofangreindar fjöldatölur á sama tíma, á næsta fundi bæjarstjórnar. Mun beiðni þess efnis verða send sviðsstjóra skv. þeim leiðbeiningum sem sendar voru bæjarfulltrúum af bæjarstjóra með tölvupósti þann 2.11.2022.“
Alexander Ragnarsson, Guðbergur Reynisson og Helga Jóhanna Oddsdóttir
Til máls tóku Kjartan Már Kjartansson, Guðný Birna Guðmundsdóttir og Helga Jóhanna Oddsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 415. fundar velferðarráðs 16. nóvember 2022
5. Fundargerð stjórnar Reykjaneshafnar 17. nóvember 2022 (2022010012)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Alexander Ragnarsson.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 268. fundar Stjórnar Reykjaneshafnar 17.11.22
6. Fundargerð menningar- og atvinnuráðs 25. nóvember 2022 (2022010011)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Sverrir Bergmann Magnússon, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir og Helga Jóhanna Oddsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 38. fundar menningar- og atvinnuráðs 25. nóvember 2022
7. Fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs 29. nóvember 2022 (2022010009)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.
Fundargerðin samþykkt án umræðu 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 165.fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar 29.11.2022
8. Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2023-2026 – síðari umræða (2022080148)
Forseti gaf orðið laust um fjárhagsáætlunina. Til máls tók Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri sem fylgdi áætluninni úr hlaði og fór yfir breytingar frá fyrri umræðu 15. nóvember 2022.
Til máls tók Valgerður Björk Pálsdóttir.
Til máls tók Helga Jóhanna Oddsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun Sjálfstæðisflokks:
„Frá því að núverandi meirihluti tók við árið 2014 hafa tekjur sveitarfélagsins aukist um 88%. Á sama tíma hefur launakostnaður bæjarsjóðs aukist um 117% (launakostnaður a og b hluta um 143%) og stöðugildi sveitarfélagsins um 43%. Til samanburðar hefur íbúafjöldi aukist um 37% á sama tíma. Skuldir og skuldbindingar bæjarsjóðs hafa, þvert á fullyrðingar meirihluta undanfarin misseri, aukist um 17% (11% séu a og b hluti skoðaðir saman).
|
2021 |
2014 |
Hækkun / aukning |
Íbúafjöldi |
20.393 |
14.924 |
36,65% |
Stöðugildi bæjarsjóðs skv. ársreikningum |
1.010 |
708 |
42,66% |
Tekjur bæjarsjóðs |
18.327.803 |
9.753.490 |
87,91% |
Launakostnaður bæjarsjóðs |
10.041.148 |
4.623.509 |
117% |
Skuldir og skuldbindingar bæjarsjóðs |
27.874.262 |
23.777.439 |
17% |
Tafla 1. Þróun lykilstærða í rekstri Reykjanesbæjar 2014-2021.
Rekstur
Við búum við erfitt efnahagsástand í landinu þar sem verðbólga er mikil og verðhækkanir koma illa við heimilin. Þessi staða kallar á enn dýpri rýni á hlutverk og verkefni sveitarfélagsins og að við veltum hverjum einasta steini í verkefnum og forgangsröðun þeirra, með tilliti til framtíðar áhrifa. Við erum að fara með fé íbúa, verðum að vanda okkur og hlífa okkur hvergi við slíka skoðun.
Svo virðist sem ekki sé verið að taka á launakostnaði í áætlun fyrir 2023 að neinu marki eins og meirihlutinn hefur lýst yfir. Þó er ráðist í að leggja niður stöðugildi lýðheilsufulltrúa, verkefnastjóra barnvæns samfélags og verkefnastjóra atvinnu- og þróunarmála en um leið bætt við stöðugildi sjálfbærnifulltrúa. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt áherslu á að rýna til gagns hvernig, og þá hvaða árangri þróun stöðugilda sveitarfélagsins, hefur skilað sér í bættri þjónustu við íbúa sl. tvö kjörtímabil. Það er von okkar að slík greining standi að baki þessari ákvörðun meirihlutans þó það við fyrstu sýn sé erfitt að koma auga á hana.
Dagpeningar eiga samkvæmt áætlun að hverfa úr bókum sveitarfélagsins og þannig sparast kr. 4.320.000. Ekkert er tekið á því hvar kostnaður vegna ferða starfsfólks bókist á móti en ljóst er að ef eðlilega er að málum staðið, á ekki að vera mikill munur á greiddum dagpeningum og þeim útlagða kostnaði sem kemur á móti. Það sama á við um bifreiðastyrki, þar virðist vera hægt að stroka út heilar 10 milljónir króna með því að skerpa á reglum. Hvaða reglur hafa verið í gildi hingað til og á hverju þarf að skerpa sem skilar 10 milljón króna sparnaði á akstri starfsfólks, eða sem nemur gróflega áætlað kr. 10.000 á hvert einasta stöðugildi sveitarfélagsins? Hversu margir fá greiddan bifreiðastyrk sem mun lækka og standa að baki þessum 10 milljóna króna sparnaði?
Það er óumdeilt að fjölgun íbúa á árunum 2014-2021 nemi 36,65% en fjölgun stöðugilda sveitarfélagsins nemur á sama tíma 42,66% og launakostnaður hefur aukist um 117%. Það er eðlilegt að starfsfólki fjölgi með fjölgun íbúa en varla getur talist eðlilegt að starfsfólki fjölgi meira en íbúum, einhversstaðar hlýtur stærðarhagkvæmnin að liggja.
Fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir innleiðingu hvatagreiðslna til eldri íbúa að fjárhæð 10 milljónir króna. Á móti muni sveitarfélagið hætta að styðja við Janusarverkefnið og „spara um 8 milljónir króna“. Enn og aftur er þarna dæmi um vanhugsaða ákvörðun meirihlutans byggða á skilningsleysi framtíðarhugsunar og forvarna. Með faglegri nálgun líkt og þeirri sem býr að baki verkefninu má auka lífsgæði íbúa til muna og til framtíðar spara gífurlega háar fjárhæðir. Þátttakendur eru frá 65 ára aldri og geta með markvissri fræðslu og þjálfun hlotið ávinning sem strax eykur líkur á betri heilsu á efri árum. Hvert ár sem íbúar okkar geta búið lengur heilsuhraustir á eigin heimili, sparar um 13-15 milljónir króna í vistgjöld hvers einstaklings á hjúkrunarheimili á verðlagi dagsins í dag. Framlag sveitarfélagsins til verkefnisins voru um 18 milljónir á ári. Með því að einn íbúi, dvelji við betri heilsu heima, einu og hálfu ári lengur en ella, jafnar út heils árs framlag sveitarfélagsins. Dvöl eins einstaklings í eitt og hálft ár á hjúkrunarheimili kostar um það bil það sama og sveitarfélagið hefur lagt til verkefnisins á ári og að baki framlagi sveitarfélagsins hafa þátttakendur verið allt að 120 hverju sinni.
Áður en rokið er til og 10 milljónum króna útdeilt án skýrra markmiða um aukin lífsgæði þeirra sem aurinn þiggja, væri nær lagi að leggjast í greiningarvinnu sem Sjálfstæðisflokkurinn telur að í þessu sem og öðru sé stórlega ábótavant. Hvar liggur fyrir greining á mögulegum áhrifum hvatagreiðslna fyrir eldri íbúa? Hver eru markmiðin með þessum greiðslum og hvernig mælum við hvort þeim sé náð? Hvað fæst með því að niðurgreiða sundkort eða árgjaldið í uppáhalds klúbbinn? Þarna teljum við að verið sé að leggja að jöfnu ítarlega rannsakað og viðurkennt, gríðarlega vinsælt og faglega unnið verkefni, sem fylgir eftir og styðst við vísindalega nálgun um heilsueflingu eldra fólks og það að geta stundað hreyfingu eða annað áhugamál á örlítið ódýrari máta. Í stað þess að hætta alfarið við verkefnið hefði mátt óska eftir endurskoðun verðs við þjónustuaðila, aukið eigið framlag þátttakenda og um leið að hleypa fleirum að. Við byggjum þetta verkefni að hluta á færum sérfræðingum úr Reykjanesbæ og búum yfir afbragðs aðstöðu til að halda þessu áfram. Hvers vegna þurfum við flottustu grunnskólabyggingu á landinu sem þó er einskis virði án fagfólks, fjölda menningarviðburða sem ekki eru gerðir upp svo í raun megi meta hverju þeir skila bæði í ánægju og fjárhag, á meðan við höfum engan metnað fyrir því að hugsa til framtíðar og eiga hér heilsuhraustustu eldri íbúa landsins?
Sjálfstæðisflokkurinn hefur ákveðið að gera ekki athugasemd við framlög til íþrótta- og tómstundamála á þessum tímapunkti enda vinna nefndar um endurskipulagningu samstarfs sveitarfélagsins og íþróttafélaga í fullum gangi. Nefndin mun ljúka störfum í mars 2023.
Fjárfestingaráætlun:
Í fjárfestingaráætlun, sem lögð var fyrir bæjarráð þann 1. desember sl. er gert ráð fyrir að á árunum 2023-2024 sé 600 milljónum króna veitt í endurbætur á bæjarskrifstofum en 300 milljónum króna til endurbóta á Holtaskóla og öðrum skólum. Vitað er að Holtaskóli er þegar í miklum vanda vegna myglu. Sjálfstæðisflokkurinn veltir fyrir sér hversu vel þessi áætlun er unnin og hvort hún endurspegli í raun vanda skólans og annarra skóla? Hversu raunhæft er að áætla 300 m.kr. í endurbætur á Holtaskóla og öðrum skólum á árinu 2023 og engu á árinu 2024 þegar komið er í ljós að þegar er barist við myglu í húsnæði Holtaskóla? Við höfum ný dæmi um kostnaðarliði og umfang, enda að standa í framkvæmdum vegna myglu í Myllubakkaskóla. Þar er kostnaður við færanlegar stofur eingöngu þegar kominn í 244 milljónir. Heildarkostnaður við endurbætur í Holtaskóla og öðrum skólum er áætlaður 300 milljónir á árinu 2023. Sjálfstæðisflokkurinn ítrekar að kostnaður við endurbætur Myllubakkaskóla vegna myglu er áætlaður 3.950.000.0000 (þrír milljarðar, níuhundruð og fimmtíu milljónir). Þar er lagt af stað í verkefni upp á tæpa fjóra milljarða sem við vitum ekki enn hvort bera muni árangur.
„Flottasti skóli landsins“, Stapaskóli, sem var byggður án þess að taka lán að sögn meirihlutans, er samkvæmt fyrirliggjandi áætlun langt í frá fullbúinn. Enn skal leggja í bygginguna 3,7 milljarða sem þýðir að fullbúin stendur hún í á milli 7,5 og 8 milljörðum gangi þetta eftir. Meirihlutinn hefur svo sannarlega tekið lán fyrir þessari fjárhæð, lán á kostnað viðhalds annarra bygginga í sveitarfélaginu sem nú falla hver á hendur annarri fyrir myglu sem skýrist ekki síst af lélegu viðhaldi undanfarin ár. Steininn tekur þó úr þegar gaslýsingin nær hámarki og starfsfólk stofnana í þessum byggingum er sagt að það sé ekki nógu duglegt að opna glugga.
Við eigum að byggja af skynsemi og tryggja að hönnun húsnæðis sveitarfélagsins sé þannig að auðvelt sé að byggja við þegar sú þörf kemur upp. Það er ekki ábyrg meðferð á skattfé að tapa sér í keppninni um eða hreykja sér af „flottustu byggingum“ landsins þar sem fegurðin trompar notagildi til framtíðar og kosta hefði mátt mun minna til.
Að lokum
Við sjáum skýr dæmi þess að við erum ekki að hugsa hlutina til enda. Nærtækasta dæmið er að á fundi bæjarráðs þann 20. janúar 2022 var lagt fram minnisblað dagsett 18. janúar 2022 þar sem var lögð fram beiðni um að keyptar yrðu lausar einingar við leikskólann Holt. Þörfin fyrir þessar einingar hefur væntanlega ekki dúkkað upp á þeim eina og hálfa mánuði sem liðinn var frá samþykkt fjárhagsáætlunar. Viðbótarfjármagn við kaup og rekstur þessara eininga hljóðaði upp á kr. 124 milljónir og var minnisblaðið dagsett þann 18. janúar. Átján dögum eftir að nýtt fjárhagsár hófst sem hlýtur að teljast einhverskonar met.
Eins og fram hefur komið teljum við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fjárhagsáætlunina vera óraunhæfa og höfum áhyggjur af því að hún endurspegli illa þær framkvæmdir sem ráðast þarf í, óskýra stefnu, auk þess sem ekki sé búið að kafa nógu vel ofan í kostnað hinna ýmsu verkefna. Að því leyti teljum við okkur ekki geta samþykkt hana og sitjum hjá.“
Alexander Ragnarsson, Guðbergur Reynisson og Helga Jóhanna Oddsdóttir
Til máls tóku Friðjón Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir og Helga Jóhanna Oddsdóttir.
Til máls tók Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun meirihluta:
„Reykjanesbær starfar eftir fjárhagsáætlun sveitarfélagsins þar sem grundvallarhlutverk bæjarsjóðs, A-hluta Reykjanesbæjar, er að veita íbúum bæjarins góða og skilvirka þjónustu. Með fjárhagsáætlun ársins 2023 höldum við áfram að tryggja ábyrga fjármálastjórn og samhliða því að efla og styrkja þá þjónustu sem í boði er í Reykjanesbæ. Eitt meginmarkmið sveitarfélagsins er að reksturinn skili afgangi til greiðslu skulda og að geta staðið við skuldbindingar sínar á hverjum tíma með skatttekjum og um leið veitt bestu mögulega þjónustu við íbúa og setur bæjarstjórn því fram framlegðarmarkmið í samræmi við lög.
Gert er ráð fyrir 925 milljóna króna jákvæðri afkomu af samstæðu þ.e. A og B hluta og að rekstur A hluta bæjarsjóðs skili 233 milljóna króna jákvæðri afkomu.
Mun hraðari viðsnúningur í atvinnulífi svæðisins hefur tryggt að bjartari sviðsmynd blasir við en fyrirséð var í upphafi árs, atvinnuleysi í október í ár var 4,9% en forsendur fjárhagsáætlunar 2022 gerðu ráð fyrir 7% atvinnuleysi. Útsvarstekjur hafa því aukist umfram áætlun sem gefur sveitarfélaginu jákvæða viðspyrnu inn í áætlun ársins 2023. Sala á eignarhlut Reykjanesbæjar í HS ORKU ásamt bættum rekstri bæjarsjóðs tryggir að bæjarsjóður hefur ekki þurft á fjármögnun í formi lánsfjár að halda þrátt fyrir miklar fjárfestingar í nýjum grunnskóla og íþróttamannvirkjum við hann.
Íbúafjölgun í Reykjanesbæ er áfram fordæmalaus. Íbúar voru í upphafi árs 2022 20.415 en nú í nóvember var íbúafjöldi Reykjanesbæjar 22.008, sem er fjölgun upp á 7,8%. Ein af þeim áskorunum sem fylgir því að vera eitt mest stækkandi sveitarfélagið á landinu er að þjónustuþörf eykst hratt. Til að mæta þeim þörfum hefur Reykjanesbær, líkt og kemur fram að ofan, staðið fyrir viðamiklum innviðafjárfestingum, fyrst og fremst er þar um að ræða innviðfjárfestingar sem kalla á aukinn mannauð til starfa. Grunnskólar og leikskólar eru þar fremstir í flokki. Aukin þjónusta eykur því launakostnað sveitarfélagsins en samhliða fjölgun stöðugilda skýra kjarasamningsbundnar launahækkanir aukinn kostnað ásamt kostnaði vegna styttingar vinnuvikunnar.
Fræðslu- og uppeldismál eru sem fyrr langstærsti málaflokkurinn í útgjöldum á árinu 2023 og nema 57,4% af heildarrekstrarkostnaði, 16,4% fara í velferðarþjónustu, 7,6% í íþrótta- og tómstundamál, 4,4% í umhverfis-, umferðar- og skipulagsmál, 2,9% í menningarmál og brunamál og almannavarnir nema 2%. Sameiginlegur kostnaður nemur 6,4%.
Grunnfjárfestingar í stofnframkvæmdum eru hámarkaðar við 550 m.kr. í fjárfestingaráætlun 2023. Gert er ráð fyrir að fullklára áfanga II sem er íþróttahús með sundlaug við Stapaskóla sem er fjárfesting að fjárhæð 1.550 m.kr. Þá er gert ráð fyrir 1.000 m.kr. í viðhald á húsnæði Myllubakkaskóla á árinu 2023 og fjármagn til að byggja leikskóla í Dalshverfi III.
Í fjárhagsáætlun 2023 er gert ráð fyrir að útsvarsprósenta haldist óbreytt frá fyrra ári eða 14,52%. Til að koma til móts við hækkandi fasteignamat er álagningarstuðull fasteignaskatts á húsnæði í A-flokki lækkað úr 0,30% í 0,25% og í C flokki lækkar hlutfallið úr 1,50% í 1,45%. Gjaldskrárhækkunum er stillt í hóf og tryggt að þær verði í öllum tilfellum lægri en almennar verðlagshækkanir.
Meirihluti Reykjanesbæjar leggur fyrst og fremst áherslu á að sinna lögbundnum verkefnum og gera það vel. Rekstur er í jafnvægi og framkvæmdir eru kostaðar af eigin fé.
Fjárhagsáætlun sem nú er lögð fram hefur framtíðarsýn Reykjanesbæjar til ársins 2030 að leiðarljósi. Í þeirri framtíðarsýn er lögð áhersla á kraft fjölbreytileikans, skilvirka þjónustu, fjölbreytt störf, vistvænt samfélag, vellíðan íbúa og að börnin séu mikilvægust. Meðal verkefna sem raungerast með þessari fjárhagsáætlun má til dæmis nefna að hvatagreiðslur fyrir 4-5 ára börn hefjast á næsta ári, nýr leikskóli verður tekinn í notkun í Dalshverfi III ásamt því að unnið verður að byggingu leikskóla í Hlíðarhverfi, lokið verður við gerð íþróttahúss og sundlaugar við Stapaskóla, unnið verður að betra aðgengi í 88 húsinu, hafist verður handa við að umbylta skólalóðum í bænum, kraftur verður settur í rafhleðsluvæðingu í sveitarfélaginu, áframhaldandi uppbygging á heilsustígum og bygging 80 rýma hjúkrunarheimilis við Nesvelli fer af stað.
Við viljum þakka starfsmönnum Reykjanesbæjar samskiptin á árinu sem er að líða og óskum þeim og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.“
Bjarni Páll Tryggvason (B), Díana Hilmarsdóttir (B), Friðjón Einarsson (S), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (B), Sverrir Bergmann Magnússon (S) og Valgerður Björk Pálsdóttir (Y) og Margrétar Þórarinsdóttur (U).
Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar og sameiginlega rekinna stofnana 2023-2026 er samþykkt með 8 atkvæðum Beinnar leiðar, Framsóknarflokks, Samfylkingar og Umbótar. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks sitja hjá.
Fylgigögn:
Forsendur og markmið fjárhagsáætlunar 2023 til 2026
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:30.