693. fundur

18.03.2025 17:00

693. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar var haldinn í Bergi, Hljómahöll þann 18. mars 2025, kl. 17:00

Viðstaddir: Guðný Birna Guðmundsdóttir, Aðalheiður Hilmarsdóttir, Díana Hilmarsdóttir, Guðbergur Reynisson, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Helga Jóhanna Oddsdóttir, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Róbert Jóhann Guðmundsson, Sverrir Bergmann Magnússon og Valgerður Björk Pálsdóttir. Í forsæti var Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Að auki sátu fundinn Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Íris Eysteinsdóttir ritari.

Sigurrós Antonsdóttir boðaði forföll. Aðalheiður Hilmarsdóttir sat fundinn í hennar stað.

Bjarni Páll Tryggvason boðaði forföll. Róbert Jóhann Guðmundsson sat fundinn í hans stað.

1. Fundargerðir bæjarráðs 6. og 13. mars 2025 (2025010003)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar.

Fundargerðirnar samþykktar 11-0 án umræðu.

Fylgigögn:

Fundargerð bæjarráðs 6. mars 2025 (2025010003)

Fundargerð bæjarráðs 13. mars 2025 (2025010003)

2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 7. mars 2025 (2025010011)

Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi mál fundargerðarinnar frá 7. mars til sérstakrar samþykktar.

Fjórða mál fundargerðarinnar Breyting á deiliskipulagi Vogshóll – Sjónarhóll (2023100048) samþykkt 11-0 án umræðu.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun:

1. mál fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. mars 2025 - Metanólframleiðsla - umsagnarbeiðni (2024080024).

Umhverfis- og skipulagsráð hefur samþykkt framkvæmd á metanólverksmiðju á Reykjanesi. Þrátt fyrir þessa ákvörðun eru ýmsar áhyggjur sem vert er að benda á áður en bæjarstjórn samþykkir fundargerðina.
Reykjanesbær hefur áður upplifað áskoranir tengdar iðnaðarverkefnum, eins og United Silicon í Helguvík sem olli íbúum óþægindum vegna mengunar og rekstrarvandamála. Þessi reynsla undirstrikar mikilvægi þess að fara varlega í ný verkefni og tryggja að öll leyfi og eftirlit séu í lagi til að koma í veg fyrir svipaðar aðstæður.
Swiss Green Gas International (SGGI) er lítið fyrirtæki með sterka hluthafa og svissneska kolefnishlutleysisstefnan virðist vera hluti af ástæðu þess að þetta verkefni er til umræðu. En þó að einkahlutafélög beri takmarkaða ábyrgð, þurfum við að tryggja að raunveruleg ábyrgð sé til staðar. Við verðum að spyrja okkur: Hvernig geta hluthafar tryggt stöðugleika? Getur sveitarfélagið sett skilmála í samninga til að verja sig?
Við höfum áður séð verkefni sem fengu öll tilskilin leyfi en ollu samt skaða eins og ég nefndi hér áður. United Silicon (USI) er skýrasta dæmið. Það sem gerðist með þá verksmiðju er skýr áminning um afleiðingar þess að veita leyfi án nægilegrar ábyrgðar. Hún fékk öll tilskilin leyfi frá eftirlitsstofnunum ríkisins en þegar í ljós kom að hún olli skaða var mjög erfitt að fá henni lokað og enn erfiðara að fá hana fjarlægða. Enn stendur hún sem minnisvarði um slæma ákvörðun og skort á ábyrgð.
Þetta er ástæðan fyrir því að við verðum að gera miklar kröfur til allra verksmiðja sem vilja starfa í okkar sveitarfélagi. Við getum ekki treyst því að eftirlitsaðilar muni tryggja að allt fari eins og skyldi, því reynslan segir okkur annað.
Það voru líka fjársterkir aðilar sem stóðu að baki United Silicon, eins og lífeyrissjóðir og bankastofnanir. Fjárhagslegt bakland er því engin trygging fyrir því að verkefni sé vel ígrundað eða að það gangi upp. Það skiptir ekki máli hversu sterkir hluthafar eru ef ábyrgðin er ekki skýr og raunveruleg.
Annað stórt áhyggjuefni er skortur á rannsóknum á áhrifum á sjávarlífríki. Engar haldbærar rannsóknir liggja fyrir um hvaða afleiðingar þetta gæti haft á lífríkið við ströndina en þar eru gjöful fiskimið. Þó að skýrslan viðurkenni að ásýnd landsins muni skerðast, þá eru það aðeins ytri áhrif en hvað með þau sem sjást ekki?
Með þessum fyrirvörum samþykkti umhverfis- og skipulagsráð verkefnið, með skilyrðum um að ásýnd lands yrði lágmörkuð og að umhverfiskröfur yrðu tryggðar. En orð á blaði duga ekki til, við þurfum skýra ábyrgð.
Nú spyr ég meirihlutann Framsókn, Samfylkinguna og Beina Leið, hvernig munum við tryggja að við sitjum ekki uppi með verksmiðju sem minnisvarða um mistök, rétt eins og United Silicon? Er þetta að skapa störf og raunverulegan ávinning, eða erum við einfaldlega að taka áhættu sem getur orðið okkur dýrkeypt?
Við verðum að tryggja að ríkiseftirlitið vinni sína vinnu áður en við höldum áfram. Það er ekki of seint að bakka út ef það reynist nauðsynlegt.
Við verðum að vanda okkur sem ein heild, því annars geta þetta orðið dýrkeypt mistök. Við megum ekki brenna okkur aftur. Því er brýnt að sveitarfélagið setji stranga skilmála í samninga við SGGI og að eftirlitsstofnanir fylgist náið með framkvæmdinni til að tryggja áreiðanleika og vernda hagsmuni íbúa. Í ljósi þessa mun Umbót sitja hjá við atkvæðigreiðslu málsins.

Til máls tóku Róbert Jóhann Guðmundsson, Valgerður Björk Pálsdóttir, Kjartan Már Kjartansson, Margrét Þórarinsdóttir og Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Margrét Þórarinsdóttir (U) sat hjá í fyrsta máli, fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 7. mars 2025 (2025010011)

3. Fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs 12. mars 2025 (2025010005)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Valgerður Björk Pálsdóttir, Guðbergur Reynisson, Margrét Sanders, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir og Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs 12. mars 2025 (2025010005)

4. Fundargerð lýðheilsuráðs 13. mars 2025 (2025010006)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Díana Hilmarsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Helga Jóhanna Oddsdóttir og Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð lýðheilsuráðs 13. mars 2025 (2025010006)

5. Fundargerð velferðarráðs 13. mars 2025 (2025010012)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.

Til máls tóku Aðalheiður Hilmarsdóttir og Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Til máls tók Margrét Sanders og lagði fram eftirfarandi bókun:

2. mál úr fundargerð velferðarráðs 13. mars 2025 - Félagslegt húsnæði - eignasafn, biðlisti og biðtími eftir úthlutun (2025020341)

„Í fundargerð Velferðarráðs kemur fram að ráðið hvetur til að fjölgað verði minni íbúðum í eignasafni Fasteigna Reykjanesbæjar.
Sjálfstæðisflokkurinn óskar eftir upplýsingum um eftirfarandi vegna þessarar hvatningar:
1. Hvað eru margar félagslegar íbúðir í eigu og útleigu á vegum Fasteigna Reykjanesbæjar?
2. Hvað eru margar íbúðir í Reykjanesbæ er tilheyra öðrum óhagnaðardrifnum leigufélögum?
3. Hvernig er staðan, þ.e. fjöldi íbúða, í sambærilegum sveitarfélögum þ.e. Akureyri, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi er varðar óhagnaðardrifin leigufélög ýmist í eigu sveitarfélagsins eða annarra félaga?
4. Hversu lengi þarf einstaklingur að búa í Reykjanesbæ til að komast á biðlista eftir félagslegu húsnæði?
5. Hversu lengi þarf einstaklingur að búa á Akureyri, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi til að komast á biðlista eftir félagslegu húsnæði?
6. Hversu algengar eru undanþágur á skilyrðum fyrir umsókn skv. reglum Reykjanesbæjar og hverjar eru ástæður fyrir helstu undanþágum?
7. Í reglum um félagslegt leiguhúsnæði Fasteigna Reykjanesbæjar segir að líta beri á leigu í félagslegu húsnæði sem tímabundna úrlausn húsnæðismála. Hver er meðal leigutími íbúða hjá Fasteignum Reykjanesbæjar?
8. Hefur verið gerð úttekt á kostum og göllum þess að Reykjanesbær eigi félagslegar íbúðir og/eða að önnur óhagnaðardrifin leigufélög sjái um það að hluta eða heild?

Sjálfstæðisflokkurinn tekur undir með ráðinu mikilvægi þess að sveitarfélagið setji sér framtíðarsýn og markmið varðandi félagslegt húsnæði.“

Margrét Sanders (D), Guðbergur Reynisson (D) og Helga Jóhanna Oddsdóttir (D).

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð velferðarráðs 13. mars 2025 (2025010012)

6. Fundargerð menntaráðs 14. mars 2025 (2025010008)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Sverrir Bergmann Magnússon.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð menntaráðs 14. mars 2025 (2025010008)

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17.57.