29. fundur

10.05.2022 11:00

29. fundur lýðheilsuráðs Reykjanesbæjar haldinn á Kef Restaurant 10. maí 2022 kl. 11:00

Viðstaddir: Jóhann Friðrik Friðriksson formaður, Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Guðrún Pálsdóttir, Guðrún Ösp Theodórsdóttir og Kristín Gyða Njálsdóttir.

Að auki sátu fundinn Ásdís Ragna Einarsdóttir lýðheilsufulltrúi, Ragnheiður Anna Jónsdóttir áheyrnarfulltrúi ungmennaráðs, Ólafur Bergur Ólafsson umsjónarmaður ungmennaráðs og Íris Andrea Guðmundsdóttir ritari.

1. Upplýsingaöryggisstefna Reykjanesbæjar - drög til umsagnar (2022021198)

Drög að upplýsingaöryggisstefnu Reykjanesbæjar lögð fram. Bæjarráð óskar eftir umsögn um stefnuna.

Lýðheilsuráð lýsir yfir ánægju með upplýsingaöryggisstefnuna og gerir ekki athugasemd við stefnuna.

2. Markaðsstefna Reykjanesbæjar - drög til umsagnar (2021110284)

Menningar- og atvinnuráð óskar eftir umsögn ráða og nefnda Reykjanesbæjar um drög að markaðsstefnu Reykjanesbæjar.

Lýðheilsuráð telur að lítið fari fyrir áherslum á heilsueflandi samfélagi í stefnunni. Mikilvægt er að markaðssetja bæjarfélagið í takt við áherslur er snúa að heilsu og vellíðan íbúa. Heilsutengd ferðaþjónusta verður fyrirferðameiri á komandi árum og þar felast tækifæri fyrir bæjarfélagið og fyrirtæki á svæðinu.

3. Heilsueflandi viðburðir 2022 (2021080347)

Ásdís Ragna Einarsdóttir lýðheilsufulltrúi fór yfir heilsueflandi viðburði sem fóru fram í apríl og viðburði sem eru framundan í maí. Einnig var farið yfir hugmyndir að viðburðum fyrir komandi sumar.

 

Formaður lagði til eftirfarandi bókun:

Á þessum síðasta fundi lýðheilsuráðs á kjörtímabilinu er við hæfi að ráðið bóki eftirfarandi:

Fyrir fjórum árum tók Reykjanesbær forystu í heilsueflingu. Lýðheilsuráð var sett á stofn, lýðheilsustefna samþykkt og aðgerðir um fræðslu og bætta heilsu lagðar til. Lýðheilsuráð bendir á aukna byrði lífsstílstengdra sjúkdóma, áskoranir varðandi líðan barna og unglinga í samfélaginu og áskorunum tengdum hækkandi lífaldri. Allt eru þetta þættir sem hægt er að bregðast við með sannreyndum aðferðum. Einnig er vert að taka sérstaklega fram mikilvægi þess að íbúar hafi aðgang að hollum valkostum og grænum og öruggum svæðum til útivistar og hreyfingar.

Lýðheilsuráð hefur unnið með fjölmörgum aðilum á þessu tímabili við að efla heilsu íbúa. Mikið og gott samstarf hefur verið innan ráðsins meðal allra fulltrúa og er það von okkar að málaflokkurinn verði efldur enn frekar á næsta kjörtímabili. Við þökkum þeim fjölmörgu sem hafa lagt hönd á plóg frá stofnun ráðsins og óskum bæjarbúum góðrar heilsu.

 

Í tilefni af setu áheyrnarfulltrúa á fundinum var lögð fram spurning um hvernig bæta megi heilsueflandi skóla í Reykjanesbæ. Í samtalinu kom fram að mikilvægt væri að efla enn frekar félagslíf ungmenna. Félagslífið hefur veruleg áhrif á heilsu nemenda til góðs og eflir félagsfærni.

Áheyrnarfulltrúi ráðsins nefndi sérstaklega þörfina á að fleiri taki þátt í tómstundaviðburðum. Efla þarf samstarf skólastjórnenda og nemendafélaga og efla upplýsingagjöf til nemenda.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 13:00. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 17. maí 2022.