44. fundur menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 23. maí 2023, kl. 13:15
Viðstaddir: Trausti Arngrímsson formaður, Birgitta Rún Birgisdóttir, Eydís Hentze Pétursdóttir, Gunnar Jón Ólafsson og Sverrir Bergmann Magnússon.
Að auki sátu fundinn Þórdís Ósk Helgadóttir sviðsstjóri þjónustu- og menningarsviðs, Betsý Ásta Stefánsdótir fulltrúi ungmennaráðs og Íris Eysteinsdóttir ritari.
Eva Stefánsdóttir boðaði forföll, Gunnar Jón Ólafsson sat fyrir hana.
1. Erindisbréf menningar- og þjónusturáðs (2023050182)
Forsetanefnd óskar eftir umsögn um drög að uppfærðu erindisbréfi menningar- og atvinnuráðs.
Menningar- og atvinnuráð felur Þórdísi Ósk Helgadóttur sviðsstjóra að vinna áfram í málinu og senda umsögn á forsetanefnd.
2. Markaðsstofa Reykjaness - kynning (2023050458)
Þuríður Halldóra Aradóttir forstöðumaður Markaðsstofunnar mætti og kynnti starf markaðsstofunnar. Einnig fór hún yfir fyrirhugaða uppbyggingu ferðamannastaða á Reykjanes jarðvangi.
Menningar- og atvinnuráð þakkar fyrir góða kynningu.
3. Greiningarvinna á menningarhúsum (2022110463)
Lögð fram greinargerð vegna mögulegs flutnings Bókasafns Reykjanesbæjar.
Menningar- og atvinnuráð þakkar greinagóða skýrslu og vinnur að minnisblaði sem berst bæjarráði fyrir sumarfrí.
4. 17. júní 2023 (2023020576)
Drög að dagskrá 17. júní lögð fram. Þjóðhátíðardegi Íslendinga verður fagnað í Reykjanesbæ með hátíðardagskrá sem fram fer í skrúðgarðinum í Keflavík. Í framhaldi verður svo skemmtidagskrá. Menningar- og atvinnuráð hvetur íbúa til þátttöku.
5. Sjómannadagurinn í Reykjanesbæ 2023 (2023050455)
Sjómannamessa verður haldin á vegum Keflavíkurkirkju á sjómannadaginn 4. júní kl. 11:00 í Bíósal Duus safnahúsa. Félagar úr Kór Keflavíkurkirkju leiða söng við undirspil og stjórn Alexanders Grybos. Sr. Erla Guðmundsdóttir þjónar. Við lok stundar verður gengið að minnismerki sjómanna á Bakkalág við Hafnargötu og þar lagður blómakrans frá Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis. Kaffi og nýsteiktar kleinur í boði Duus safnahúsa og Keflavíkurkirkju. Menningar- og atvinnuráð hvetur fólk til að mæta.
6. Ljósanótt 2023 (2023030560)
Undirbúningur fyrir Ljósanótt, 31. ágúst - 3. september 2023, er í fullum gangi. Á næstu dögum berast fyrirtækjum erindi um framlög til hátíðarinnar og hvetur menningar- og atvinnuráð bæði þau, sem og félög og íbúa alla, eindregið til þess að taka höndum saman og leggja sitt af mörkum. Ljósanótt er tákn bjartsýni, ljóss og birtu og þá fögnum við lífinu, tilverunni og njótum nærveru hvers annars.
7. BAUN - Barna- og ungmennahátíð Reykjanesbæjar (2023020574)
BAUN, barna- og ungmennahátíð fór fram dagana 27. apríl – 7. maí. Börn á leikskólaaldri sem og börn í 1.- 7. bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar fengu afhent BAUNabréf. Það innihélt fjölbreytt verkefni, viðburði og þrautir fyrir fjölskyldur að taka þátt í. Þátttaka fór fram úr björtustu vonum og heimsóttu til að mynda 4.700 gestir Duus safnahús á meðan á hátíðinni stóð. Hátíð sem þessi krefst samvinnu margra stofnana Reykjanesbæjar og aðkoma félagasamtaka í bænum er mjög mikilvæg. Að lokinni hátíð var viðhorfskönnun sett í loftið og bárust um tvö hundruð svör. Almenn ánægja var meðal barna og foreldra með hátíðina. Rúmlega 85% þeirra barna sem svarað var fyrir tóku þátt í fjórum eða fleiri dagskrárliðum á BAUN. Spurt var um ánægju barnanna með þátttöku í hátíðinni og voru yfir 96% mjög eða frekar ánægð. Spurt var hversu ánægt fullorðna fólkið sem svaraði könnuninni hefði verið með hátíðina og voru 96% mjög eða frekar ánægðir.
8. Listasafn Reykjanesbæjar – opnun nýrrar sýningar (2023030561)
Miðvikudaginn 17. maí opnaði Listasafn Reykjanesbæjar sýninguna Boðflenna sem er yfirlitssýning á verkum listamannsins Snorra Ásmundssonar.
Sköpun og gjörðir Snorra verða til þar sem hann stendur og hvíla í honum sjálfum. Þannig er myndsköpun hans ekki skáldskapur eða vel nært „alter egó“. Listamaðurinn er gjörsneiddur leiklistarhæfileikum. Að þessari ástæðu má mögulega halda því fram að Snorri sé stórtækasta lifandi listaverk íslenskrar listasögu. Í raun er aðeins hægt að bera Snorra saman við bresku listamennina Gilbert og George, sem framkvæma eigið líf sem lifandi skúlptúr þar sem efniviðurinn er breskur persónuleiki og sú táknfræði sem umlykja það auðkenni. Það sem þú sérð er framlag Snorra Ásmundssonar til listarinnar, til íslensku þjóðarinnar og heimsins líka. Hver man eftir forsetaframboðinu 2004? Vinstri Hægri Snú framboðinu? Kattaframboðinu? Besta píanóleikara Evrópu? Fjallkonunni? Listasafn Reykjanesbæjar ætlar að ramma inn og færa persónu- og myndsköpun Snorra í ákveðinn farveg sem mun auka skilning almennings á gagnrýninni samfélagslegri gjörningalist á Íslandi.
Menningar- og atvinnuráð hvetur alla til þess að heimsækja þessa áhugaverðu sýningu í Duus menningarhúsum.
9. Byggðasafn Reykjanesbæjar (2023020580)
Í byrjun maí tók Byggðasafn Reykjanesbæjar við ljósmyndum Sólveigar Þórðardóttur ljósmyndara. Sólveig rak ljósmyndastofuna Nýmynd frá 1982-2022 svo um er að ræða myndir sem spanna 40 ára tímabil. Myndirnar eru úr hátt í 10.000 tökum og má leiða líkur á að fjöldi mynda sé um 300.000 talsins. Þær eru varðveittar á filmum og fylgdu með skúffur sem þær hafa verið geymdar í hjá Nýmynd. Byggðasafn Reykjanesbæjar þakkar Sólveigu fyrir þessa rausnarlegu gjöf. Myndirnar eru einstök heimild um íbúa Reykjaness síðastliðna áratugi og er það heiður fyrir safnið að fá það hlutverk að varðveita þær fyrir komandi kynslóðir. Á sama tíma ítrekar þessi gjöf þörf safnsins á sérhæfðum starfskrafti vegna myndasafnsins. Í myndasafninu eru nú 45.000 myndir sem búið er að skrá, skanna og ganga frá til varðveislu. Gera má ráð fyrir að um 600.000 myndir séu óskráðar í safninu og er það varlega áætlað. Ljósmyndir eru mikilvægar heimildir um liðna tíð sem safninu er ljúft og skylt að taka við til varðveislu enda myndi stór hluti þeirra eflaust glatast annars. Óskráðar eru þær þó fáum til gagns og hætta er á að þær verði fyrir skemmdum verði þeim ekki komið fyrir í viðeigandi umbúðum og við réttar varðveisluaðstæður.
10. Fundargerðir stjórnar Reykjanes jarðvangs 24. mars og 14. apríl 2023 (2023030200)
Fundargerðir stjórnar Reykjanes jarðvangs lagðar fram.
Fylgigögn:
Fundargerð 70. fundar stjórnar Reykjanes jarðvangs 24. mars 2023
Fundargerð 71. fundar stjórnar Reykjanes jarðvangs 14. apríl 2023
11. Karlakór Keflavíkur (2023050457)
Menningar- og atvinnuráð óskar Karlakór Keflavíkur til hamingju með vel heppnaða vortónleika sem haldnir voru þann 25. og 26. apríl í Ytri-Njarðvíkurkirkju.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 14:50. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 6. júní 2023.