375. fundur

14.06.2024 08:15

375. fundur menntaráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 14. júní 2024 kl. 08:15

Viðstaddir: Sverrir Bergmann Magnússon formaður, Gígja Sigríður Guðjónsdóttir, Valgerður Björk Pálsdóttir, Harpa Björg Sævarsdóttir og Sighvatur Jónsson.

Að auki sátu fundinn Rafn Markús Vilbergsson fulltrúi skólastjóra grunnskóla, Brynja Aðalbergsdóttir fulltrúi leikskólastjóra, Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs, Sigurbjörg Róbertsdóttir grunnskólafulltrúi, Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

Halldór Rósmundur Guðjónsson boðaði forföll og sat Valgerður Björk Pálsdóttir fundinn í hans stað.
Ásgerður Þorgeirsdóttir boðaði forföll og sat Rafn Markús Vilbergsson fundinn í hennar stað. Jóhanna Helgadóttir, Skúli Sigurðsson og Hildigunnur Eir Kristjánsdóttir boðuðu forföll.

1. Bættar starfsaðstæður í leikskólum - tillögur starfshóps (2024030084)

Á fundi menntaráðs 24. maí sl. voru tillögur starfshóps um bættar starfsaðstæður í leikskólum Reykjanesbæjar lagðar fram og var afgreiðslu málsins frestað.

Tillögurnar þrjár eru lagðar fram með það í huga að bæta starfsaðstæður á leikskólum vegna styttingar vinnuvikunnar og mönnunar í nýjum leikskólum í Reykjanesbæ. Ljóst er að stytting vinnuvikunnar er orðin umfangsmikill hluti af störfum vinnandi fólks í landinu enda bundin í kjarasamninga.

Í starfshópnum sem vann að tillögunum voru leikskólafulltrúi, sviðsstjóri menntasviðs, mannauðsstjóri, kjörnir fulltrúar í menntaráði, fulltrúi leikskólastjóra, fulltrúi leikskólakennara, fulltrúi starfsfólks leikskóla og fulltrúi foreldra leikskólabarna.

Tillögurnar fela í sér stefnubreytingu á fyrirkomulagi leikskóla Reykjanesbæjar. Lagt er til að fjölga frídögum leikskóla, að bjóða foreldrum að skrá barn sitt í færri klukkustundir í leikskólann gegn lægra gjaldi og að veita afslátt af leikskólagjöldum til leikskólakennara gegn ákveðnu vinnuframlagi.

Svipaðar breytingar hafa verið gerðar í öðrum sveitarfélögum til að laða fólk til starfa í leikskólum og bregðast við áhrifum styttingar vinnuvikunnar.

Eftir umfjöllun um tillögurnar á fundi menntaráðs þann 24. maí 2024 var málinu frestað. Í framhaldi voru tillögurnar ræddar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar sem hefur málið nú til skoðunar. Vegna sumarleyfis bæjarstjórnar er það í höndum bæjarráðs að taka ákvörðun um tillögurnar í samráði við menntaráð Reykjanesbæjar.

Tekið skal fram að tillagan um sex klukkustunda gjaldfrjálsan leikskóla mun þýða lækkun á tekjum til Reykjanesbæjar og þarf bæjarráð því sérstaklega að fjalla um þá tillögu.

Menntaráð mun funda með bæjarráði ásamt sviðsstjóra menntasviðs á næstu vikum til að ræða málið nánar. Auk þess verður reynsla annarra sveitarfélaga af sams konar breytingum í leikskólamálum rýnd. Mikilvægt er að vinna áfram með tillögur starfshópsins af fagmennsku og ábyrgð.

Menntaráð þakkar starfshópnum um bættar starfsaðstæður í leikskólum Reykjanesbæjar fyrir gott og faglegt starf.

Menntaráð vísar tillögum starfshópsins til bæjarráðs til frekari umræðu.

2. Sérhæft námsúrræði í Myllubakkaskóla (2024050299)

Einar Trausti Einarsson yfirsálfræðingur og Kolfinna Njálsdóttir deildarstjóri skólaþjónustu mættu á fundinn og kynntu áætlun um stofnun og stækkun sérhæfðs námsúrræðis í Myllubakkaskóla.

Menntaráð lýsir ánægju með þessi áform.

3. Staða barna úr Grindavík (2024050008)

Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs fór yfir stöðuna varðandi skólagöngu barna úr Grindavík í skólum Reykjanesbæjar.

4. UNESCO skólar (2024060186)

Sigrún Svafa Ólafsdóttir, verkefnastjóri fræðslumála hjá Reykjanes jarðvangi, mætti á fundinn og kynnti verkefni sem Reykjanes UNESCO Geopark (Reykjanes jarðvangur) og Suðurnesjavettvangur hafa sett af stað í samvinnu við UNESCO skóla á Íslandi, sem ætlað er að styðja við leik-, grunn- og framhaldsskóla á Suðurnesjum til að gerast UNESCO skólar en í því felst að skólarnir skuldbinda sig til að vinna að verkefnum sem snúa að því að auka þekkingu á málefnum Sameinuðu þjóðanna og Heimsmarkmiðunum.

Fylgigögn:

UNESCO skólar á Suðurnesjum - kynningarbréf
UNESCO skólar á Reykjanesi - kynning

5. Húsnæðismál leikskóla (2023020148)

Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs fór yfir stöðu húsnæðismála leikskóla í sveitarfélaginu.

6. Strætóskólinn (2024050449)

Bæjarráð óskar eftir umsögn menntaráðs um Strætóskólann sem er tilraunaverkefni sem ætlað er að auka þekkingu og notkun á strætó hjá grunnskólabörnum.

Að mati menntaráðs er þetta verkefni mjög jákvætt enda þarft að auka notkun barna og íbúa almennt á almenningssamgöngum. Ráðið mælir því með að farið verði í verkefnið.

Fylgigögn:

Kynningarmyndband um strætóskólann


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:14. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarráðs 20. júní 2024.