10. fundur

19.03.2020 15:15

10. fundur í neyðarstjórn Reykjanesbæjar - fjarfundur haldinn þann 19. mars 2020 kl. 15:15.

Þátttakendur: Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Unnar Steinn Bjarndal bæjarlögmaður, Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Guðlaugur Helgi Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs, Regína F. Guðmundsdóttir fjármálastjóri, Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar, Halldór Karl Hermannsson hafnarstjóri, Halldóra G. Jónsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra, Guðrún Magnúsdóttir lýðheilsufulltrúi, Kristinn Óskarsson mannauðsstjóri, Hilma H. Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningarmála, Theodór Kjartansson vinnuverndar- og öryggisfulltrúi, Jóna Hrefna Bergsveinsdóttir deildarstjóri þjónustu og þróun, Friðjón Einarsson formaður bæjarráðs, Jóhann Friðrik Friðriksson forseti bæjarstjórnar og Hrefna Höskuldsdóttir ritari.

1. Upplýsingafundur Almannavarna 19. mars 2020

a. Spá gerir ráð fyrir að veiran verði í hámarki um miðjan apríl.

b. Fólk á öllum aldri er að veikjast, ekki bara eldra fólk. Það getur verið að mismunandi tegundir veirunnar valdi misalvarlegum veikindum.

2. Staðan á sviðum

Velferðarsvið

Unnið er að endurskipulagningu vegna vinnu við takmarkanir á smitleiðum í ráðhúsinu/hólfaskiptingar, þannig að starfsmenn geti leyst aðra af í verkefnum og haldið starfseminni órofinni. Skerðing á starfsemi leik-og grunnskóla er eðlilega farin að hafa áhrif á mönnun, þeirri þörf mætt þar sem hún skapast eins vel og hægt er. Unnið að endurskipulagningu á vaktafyrirkomulagi í búsetuúrræðum og dagdvölum til að takmarka enn frekar hættu á krosssmiti milli vakta.

Stuðningsþjónustan - heimaþjónusta, innlit, búðarferðir. Unnið að forgangsröðun verkefna og þjónustuþega þegar þrengir að í mannahaldi.

Óbreytt fyrirkomulag í Björginni og á Hæfingarstöðinni.

Fræðslusvið

Gekk vel í leik- og grunnskólum í gær. Erfiðast er að mæta forgangsmálum en listinn er orðinn langur.

Fylgst verður með hvort meiri tilhneiging sé til að börnum af erlendum uppruna sé haldið heima en öðrum eins og vísbendingar eru um í Reykjavík.

Gengur vel með sértæk námsúrræði.

Heimanám með aðstoð hefur gengið ágætlega en það hafa komið ábendingar um að tækjakostur sé ekki nægilega uppfærður t.d. spjaldtölvur nemenda.

Umhverfissvið, skrifstofa og Umhverfissmiðstöð

Engar breytingar á umhverfissviði. Einn starfsmaður bættist við í heimavinnu vegna skólaleyfis barna.

Fjármálaskrifstofa

Óbreytt frá 18.3.2020. Einhverja daga vinna starfsmenn heima vegna skólaleyfa.

Reykjaneshöfn

Óbreytt frá 18.3.2020.

Súlan

Óbreytt frá 18.3.2020. Vantar tölvur fyrir starfsmenn bókasafns fyrir heimavinnu.

Skrifstofa stjórnsýslu

Óbreytt frá 18.3.2020. Nokkrir í fjarvinnu. Rólegt í þjónustuveri.

3. Önnur mál

a. Komin er tillaga um hvernig Tjarnargötu 12 verði skipt upp í þrjú svæði hvert með sér inn- og útgang. Verið að útfæra nánar, ýmislegt sem þarf að huga að.

b. Í Bakvarðarsveit velferðarþjónustu hafa nú þegar um 250 manns skráð sig. Skráningar og aðgangur að starfsfólki í bakvarðarsveit er fyrir öll sveitarfélög. Voru 8 skráðir tilbúnir til starfa á Suðurnesjum í gærkvöld. Þegar óskað er eftir starfsfólki er sendur nafnalisti í læstu skjali og svo lykilorð í sms. Íbúar á Suðurnesjum eru hvattir til að skrá sig.

c. Einstæðingar – Forstöðumaður öldrunarþjónustu Reykjanesbæjar hefur haft samband við kirkjurnar, Rauða krossinn og Félag eldri borgara. Allir þessir aðilar eru í fullri vinnslu með þessi mál. 
Tillaga kom um að auglýsa heimsendan mat til eldri borgara og hvetja fólk til að hafa samband þarfnist það aðstoðar og þjónustu.

d. Rætt um aðgengi að upplýsingum fyrir fólk af erlendum uppruna. Vefsíðan Covid.is er nú aðgengileg á íslensku, ensku og pólsku og er von á frekari upplýsingum á fleiri tungumálum. 
Mikilvægt að starfsmenn hjálpist að við að koma réttum upplýsingum áleiðis til íbúa af erlendum uppruna.

e. Bæjarráð samþykkti í morgun erindi vegna meðferðar gjaldtöku í grunn- og leikskólum og framkomnar tillögur vegna launagreiðslna til starfsmanna vegna Covid 19. Unnið er að nánari útfærslu. Komin frétt á heimasíðu varðandi gjaldtökuna.

f. Mannauðsstjóri er að útbúa mælaborð með yfirliti yfir stöðu starfsmanna Reykjanesbæjar, í fjarvinnu, veikindum, sýktum af Covid-19 veirunni, í sóttkví, heima hjá börnum o.fl. Sviðsstjórar verða ábyrgir fyrir því að uppfæra skjalið.

g. Alþingi hefur samþykkt lagabreytingu sem heimilar bæjarstjórn, bæjarráði og öðrum kjörnum nefndum að halda fjarfundi.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.00.