20. fundur

03.04.2020 15:15

20. fundur í neyðarstjórn Reykjanesbæjar - fjarfundur var haldinn 3. apríl 2020 kl. 15:15

Þátttakendur: Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Halldóra G. Jónsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra, Unnar S. Bjarndal bæjarlögmaður, Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs, María Gunnarsdóttir forstöðumaður barnaverndar og staðgengill sviðsstjóra velferðarsviðs, Regína F. Guðmundsdóttir fjármálastjóri, Halldór Karl Hermannsson hafnarstjóri, Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs, Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir deildarstjóri þjónustu og þróunar, Kristinn Óskarsson mannauðsstjóri, Hilma H. Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningarmála, Guðrún Magnúsdóttir lýðheilsufulltrúi, Theodór Kjartansson vinnuverndar- og öryggisfulltrúi, Jóhann Friðrik Friðriksson forseti bæjarstjórnar, Friðjón Einarsson formaður bæjarráðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Upplýsingafundir Almannavarna

Samkomubann hefur verið framlengt til 4. maí.

2. Staðan á sviðum

Velferðarsvið

Óbreytt staða að mestu.

Fræðslusvið

Vikan hefur gengið vel. Tjarnarsel fór af stað á miðvikudag og gekk vel, fá börn og allt í mestu ró. Börnum hefur farið fækkandi í leikskólum eins og reyndar í grunnskólunum og má búast við því að dymbilvikan verði róleg í leikskólunum.
Farið var yfir samantekt frá leik- og grunnskólum á fræðsluráðsfundi í morgun. Þar var öllu starfsfólki í skólasamfélaginu færðar þakkir fyrir fagleg viðbrögð.
Fræðsluráð samþykkti einnig beiðni frá skólastjórum grunnskóla um að hefja starf eftir páska á starfsdegi, 14. apríl, sem nýttur verður til þess að endurskipuleggja skólastarfið og hópaskiptingu nemenda með tilliti til reynslunnar undanfarnar vikur, sérstaklega til að huga að skipulagi á fjarnámi eldri nemenda og til að ræða um fyrirkomulag námsmats með mögulega breyttu sniði.
Fræðsluefni sem sálfræðingar á fræðslusviði hafa unnið og hefur verið sent út hefur fengið jákvæð viðbrögð.

Umhverfissvið - skrifstofa og umhverfissmiðstöð

Óbreytt staða

Fjármálaskrifstofa

Óbreytt staða.

Skrifstofa stjórnsýslu

Óbreytt staða.

Súlan

Átaksverkefni í undirbúningi. Nýsköpunarsmiðja hjá Keili tekur til starfa eftir páska.
Starfsfólk Súlunnar stendur sig mjög vel og á hrós skilið.

Reykjaneshöfn

Óbreytt staða.

3. Önnur mál

a. Atvinnuleysi 1. apríl:

• Komið í 15,4% eða 2.325 á Suðurnesjum
• 17% eða 1.804 í Reykjanesbæ. Lítur út fyrir að það gæti farið í 24% í apríl
• 65% Íslendingar – 23% Pólverjar – 11% önnur lönd
• 55% karlar
• 68% ferðaþjónustutengt
• 27% 18-29 ára
• 32% 30-49 ára
• 21% 50-69 ára
• 3.000 á Suðurnesjum í gegnum hlutastörf

Á meðan versti kúfurinn gengur yfir, mun Vinnumálastofnun ekki geta boðið öll sömu úrræði og voru í hruninu, það lítur út fyrir að 35.000 manns verði þiggjendur greiðslna frá þeim næstu misserin.

b. Símaspjall í stað félagsstarfs eldri borgara – verið að skoða hvort hægt er að sinna því.

c. Samráðsfundur bæjarstjóranna á Suðurnesjum með framkvæmdastjóra Almannavarna og lögreglustjóra var haldinn fyrr í dag, 3. apríl 2020. Þar kom m.a. fram;

• Lögreglan á Suðurnesjum reynir að fylgjast vel með að samkomubann og tveggja metra fjarlægð sé virt í verslunum og á opinberum stöðum.
• Nettó og fleiri verslanir hafa sett upp plastþil sem aðskilja starfsmenn á kassa og viðskiptavini.
• 11 útköll hjá HSS í gær, þar af 3 vegna Covid. Bíll fyrir þá sem þurfa ekki aðhlynningu í flutningi nýtist vel, vilja bæta við öðrum. Bíllinn sótthreinsaður á milli flutninga.
• Sóttvarnarhús við Rauðarárstig í Reykjavík stendur okkur til boða fyrir smitaða ef fólk getur ekki verið í einangrun heima hjá sér.
• HSS er að taka 35-40 sýni á dag og 2-3 reynast smitaðir að meðaltali. Aðrir eru með aðrar flensur sem eru einnig í gangi.

d. Staðan 3. apríl í Reykjanesbæ

• 43 staðfest smit hafa komið upp
• 36 í einangrun í dag
• 7 hafa fengið bata
• 262 í sóttkví

e. Landris að aukast vestast á Reykjanesi, líklega kvikuinnskot. Þurfum að vera viðbúin.
HS Orka segist vera búin að stunda niðurdælingar í meira en 20 ár en það eru einmitt til þýskar rannsóknir sem sýna að það geti tekið þann tíma að hafa svipaðar afleiðingar og Grindvíkingar hafa verið að upplifa. Landris þar er nú 8-9 cm og enn í gangi.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:50.