38. fundur í neyðarstjórn Reykjanesbæjar – fjarfundur 10. júní 2020 kl. 11:00
Þátttakendur: Friðjón Einarsson formaður bæjarráðs, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Halldóra G. Jónsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra, Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri viðskiptaþróunar, Guðrún Magnúsdóttir lýðheilsufulltrúi, Regína F. Guðmundsdóttir fjármálastjóri og Hrefna Höskuldsdóttir ritari.
1. Atvinnuátak
Atvinnuleysi 15. maí síðastliðinn var 22,4% og hafði þá lækkað úr 28% í lok apríl. Þar af voru 8,6% á hlutabótaleið en höfðu verið 16,1% í apríl. Á sama tíma hafði fjöldi þeirra sem voru að fullu atvinnulausir hækkað úr 11,9% í 13,9%.
Mikinn tíma hefur tekið að ráða í störf í gegnum átak stjórnvalda um sumarstörf fyrir námsmenn. Spilar þar inn í að meira framboð er af sumarstörfum á almennum markaði en útlit var fyrir. Eru það því góðar fréttir og mögulega merki um það að botninum hafi verið náð. Jákvæðar fréttir af því að flugvöllurinn sé að opnast og sérstaklega að erlend flugfélög ætli að hefja hér starfsemi aftur strax í sumar gefa líka til kynna að umsvifin í atvinnulífi bæjarins séu tekin að aukast.
2. Velferðarmál
Verið að klára ráðningar í sumarátak og hefur tekist að ráða í um 70% þeirra starfa sem velferðarsvið auglýsti. Sótt var um styrki til félagsmálaráðuneytisins vegna viðbótarþjónustu sem veitt er í sumar í tengslum við sumarátak námsmanna, m.a. í félagsstarfi aldraðra og vegna barna í viðkvæmum hópum. Styrkir hafa verið samþykktir að upphæð 6,5 milljónir til þessara verkefna.
Lýðheilsuráð hefur látið gera kynningarmyndband um lýðheilsu sem dreift verður sem víðast á vefmiðlum sveitarfélagsins.
3. Fjármál
Viðauki II við fjárheimildir ársins 2020 fer fyrir fund bæjarráðs nk. fimmtudag. Tekjulækkun í útsvari 500 milljónir, 153 milljónir í launakostnað vegna vinnuátaks, öll börn fædd 2003 og atvinnuátak vegna námsmanna. Einnig búið að samþykkja aukna styrki til íþróttafélaganna og fleira.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 11:20.