70. fundur neyðarstjórnar Reykjanesbæjar – fjarfundur haldinn á annan í hvítasunnu, 24. maí 2021 kl. 10:00
Viðstaddir: Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar, Regína Fanný Guðmundsdóttir fjármálastjóri, Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs, Unnar Steinn Bjarndal bæjarlögmaður, Kristinn Óskarsson mannauðsstjóri, Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir deildarstjóri þjónustu og þróunar, Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar, Friðjón Einarsson formaður bæjarráðs og Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri sem jafnframt ritaði fundargerð.
1. Ný reglugerð um takmarkanir á samkomum vegna farsóttar
1. Ný reglugerð vegna sóttvarna og fjöldatakmarkana vegna COVID-19 hefur verið gefin út. Á Covid.is segir: Fjöldatakmörk hækka í 150 manns og slakað verður á grímuskyldu og tveggja metra reglunni. Takmörkunum á gestafjölda sund- og baðstaða, skíða- og tjaldsvæða og safna verður aflétt og sömuleiðis á líkamsræktarstöðvum nema hvar þar mega að hámarki vera 150 manns í hverju rými. Hámarksfjöldi áhorfenda eða gesta á sitjandi viðburðum fer úr 150 í 300 manns í hverju sóttvarnahólfi og veitingasala í hléi verður heimil. Veitingastöðum verður kleift að lengja afgreiðslutíma sinn til kl. 23. Í verslunum verður grímuskylda afnumin og regla um 200 manna hámarksfjölda viðskiptavina fellur úr gildi. Þetta er megininntak tilslakana á sóttvarnaráðstöfunum sem taka gildi frá og með 25. maí næstkomandi samkvæmt ákvörðun heilbrigðisráðherra og í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. Reglugerð um þessar breytingar gildir til 16. júní.
2. Sérstök reglugerð um skólahald fellur úr gildi.
3. Stofnanir og vinnustaðir munu laga starfsemi sína að nýrri reglugerð á morgun, 25. maí.
4. Starfsfólki, sem hefur unnið heima, er bent á að ræða mögulega endurkomu á vinnustaðinn við næsta stjórnanda ÁÐUR en það mætir á staðinn. Tveggja metra reglan verður enn í gildi og ekki sjálfgefið að hægt verði að koma öllum fyrir á fyrri vinnustöð strax.
5. Þótt almenn grímuskylda falli niður verður áfram boðið upp á grímur og spritt. Starfsmenn og íbúar eru hvattir til að sinna áfram persónulegum sóttvörnum.
6. Áfram þarf að skrá nöfn og kennitölur gesta í menningarstofnunum.
7. Í stærri stofnunum, þar sem sem starfrækt eru mötuneyti fyrir starfsfólk, mun fólk þurfa að laga sig að breyttum reglum. Einhver mötuneyti kunna að vilja halda í núverandi fyrirkomulag, að fólk skrái sig í mat og komi í minni hópum á ákveðnum tímum, og önnur ekki.
8. Skipulag fundar- og viðtalsherbergja í ráðhúsinu verður til skoðunar og reynt að dreifa móttöku gesta meira innan dagsins og innan vikunnar. Einnig þarf að hvetja starfsfólk til að losa um bókuð fundarherbergi sem ekki stendur til að nota. Eitthvað mun vera um fasta fundi sem bókaðir eru langt fram í tímann en falla svo stundum niður án þess að bókun fundarherbergis sé afturkölluð.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:40.