72. fundur neyðarstjórnar Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn þann 24. ágúst 2021 kl. 15:00
Viðstaddir: Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Friðjón Einarsson formaður bæjarráðs, Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs, Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs og Gunnar Víðir Þrastarson verkefnastjóri markaðsmála. Fundargerð ritaði Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir.
1. Upphaf skólastarfs
Með breyttum reglum um sóttkví í skólum er gert ráð fyrir að færri þurfi að sæta sóttkví ef smit kemur upp. Það auðveldar skólunum að halda uppi eðlilegu skólastarfi en sumir óttast að smit geti breiðst frekar út ef færri þurfa að fara í sóttkví. Ákvörðunin þar um er alltaf smitrakningarteymisins en með nýjum reglum reynir meira á úrvinnslu skólastjórnenda. Skólarnir ganga eins langt og þeir geta í að verja starfsemi sína miðað við gildandi samkomutakmarkanir og viðhafa strangar sóttvarnir en á sama tíma halda skólastarfi jafnframt í eins eðlilegu formi og mögulegt er. Reynt er að takmarka samgang á milli deilda og takmarka aðkomu foreldra inn í skólana.
Smit sem hafa komið upp nú í byrjun skólaárs hafa haft áhrif á starfsemi eins leikskóla og frístundar í einum grunnskóla.
Öllu starfsfólki skóla sem fengu Jansen bóluefni hefur verið boðinn örvunarskammtur og bólusetningar barna 12-15 ára fara fram í Hljómahöll 25. ágúst og 15. september.
Með því að smella hér má skoða leiðbeiningar um sóttkví í leikskólum, skólum, frístund og félagsmiðstöðvum á vef Stjórnarráðs Íslands
2. Svæðaskipting í ráðhúsi
Svæðaskipting í ráðhúsi verður afnumin frá og með morgundeginum. Starfsfólk er hvatt til að nota grímur þegar farið er á milli hæða og gæta vel að sóttvörnum.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:30.