74. fundur

22.12.2021 13:00

74. fundur neyðarstjórnar Reykjanesbæjar – fjarfundur haldinn þann 22. desember 2021 kl. 13:00

Viðstaddir: Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Friðjón Einarsson formaður bæjarráðs, Unnar Steinn Bjarndal bæjarlögmaður, Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs, Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs, Gunnar Víðir Þrastarson verkefnastjóri markaðsmála, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Halldóra Guðrún Jónsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra, Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar, Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi og Einar Snorrason öryggisfulltrúi. Fundargerð ritaði Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir.

1. Hertar sóttvarnaraðgerðir

Ný reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar tekur gildi á miðnætti fimmtudaginn 23. desember 2021. Almennar fjöldatakmarkanir verða 20 manns og nándarregla 2 metrar. Veitinga- og skemmtistöðum, krám og öðrum stöðum með vínveitingaleyfi ber að loka kl. 21 á kvöldin. Sund- og baðstöðum, líkamsræktarstöðvum og skíðasvæðum verður heimilt að taka á móti 50% af hámarksfjölda. Hraðprófsviðburðir verða takmarkaðir við 200 manns. Hvatt verður til fjarvinnu á vinnustöðum eins og kostur er.

Á öllum skólastigum miðast hámarksfjöldi barna/nemenda við 50 einstaklinga í rými. Hámarksfjöldi starfsfólks í sama rými verður 20 manns og starfsfólki verður heimilt að fara á milli rýma. Almennt mun 2 metra nálægðarregla gilda en að öðrum kosti verður grímuskylda. Leikskólabörn eru undanskilin nálægðarreglu. Börn fædd 2005 og síðar eru undanþegin grímuskyldu.

Íþróttaæfingar og keppnir barna og fullorðinna verða heimilar, jafnt með eða án snertingar, fyrir allt að 50 manns.

Söfn mega taka á móti 50 manns í hverju hólfi að börnum meðtöldum. Fyrir hverja 10m² má bæta við fimm viðskiptavinum, að hámarki 500 manns.

Með því að smella hér má skoða upplýsingar um nýja reglugerð um takmarkanir á samkomum vegna farsóttar á vef Stjórnarráðs Íslands

2. Ráðstafanir vegna nýrra sóttvarnarreglna

Ráðhús

Kaffihúsi verður lokað um óákveðinn tíma og mötuneyti lokað milli jóla og nýárs auk mánudagsins 3. janúar. Fyrirkomulag eftir það verður tilkynnt eftir jól.

Ráðhúsi verður skipt upp í fimm hólf með að hámarki 20 manns í hverju hólfi.

Starfsfólk er hvatt til að vinna heima þar sem því verður við komið.

Súlan

Söfn bæjarins verða áfram opin. Gerðar verða ráðstafanir til að uppfylla skilyrði nýrra sóttvarnarreglna.

Velferðarsvið

Gerðar verða ráðstafanir á Nesvöllum þannig að ekki verði fleiri en 20 manns í matsalnum hverju sinni.

Ekki þarf að gera ráðstafanir vegna búsetueininga.

Reynt verður eftir fremsta megni að veita þjónustu í gegnum vef og síma þar sem því verður við komið.

Fræðslusvið

Grunnskólar eru komnir í jólafrí og leikskólar verða lokaðir á milli jóla og nýárs.

Upplýsingagjöf

Upplýsingar um breytingar á starfsemi vegna COVID-19 verða birtar á vef Reykjanesbæjar.

Upplýsingar til starfsmanna verða settar á Workplace.

3. Aðgengi fatlaðra vegna lokunar inngangs á ráðhúsi

Kvörtun barst frá íbúa vegna lokunar inngangs að norðanverðu á ráðhúsi og bókasafni Reykjanesbæjar þar sem það hamli töluvert aðgengi fatlaðra að ráðhúsinu. Rampurinn að framanverðu sé langur og ekki á færi allra að komast þar upp.

Neyðarstjórn ákvað að inngangur að norðanverðu verði opnaður að nýju og sett skilrúm þannig að lokað verði á milli innganga í vestari stigaganginum.

4. Breyting á skóladagatölum vegna COVID-19

Skoða þarf hvort skólar þurfi að bæta upp skóladaga sem felldir eru niður vegna COVID-19. Einnig þarf að skoða verklag ef gera þarf óvæntar breytingar á skóladagatölum og ekki gefst ráðrúm til að fá samþykki fræðsluráðs.

5. Óvissustig almannavarna vegna jarðskjálftahrinu á Reykjanesi

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum lýsir yfir óvissustigi almannavarna vegna jarðskjálftahrinu við Fagradalsfjall. Jarðskjálftahrinan hófst í gær 21. desember og stendur enn yfir.

Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 13:36.