85. fundur

09.02.2024 08:30

85. fundur neyðarstjórnar Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 9. febrúar 2024 kl. 08:30

Viðstödd: Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Halldóra G. Jónsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir formaður bæjarráðs, Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs, Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs, Jón Haukur Baldvinsson markaðsstjóri, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Kristinn Óskarsson mannauðsstjóri, Einar Snorrason öryggisfulltrúi, Hilma Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningarmála. Fundargerð ritaði Halldóra G. Jónsdóttir.

1. Eldgos 8. febrúar 2024 - neyðarstjórn virkjuð

Laust eftir kl. 6 í gærmorgun hófst gos í Sundhnúkagígum á Reykjanesi og fór hröð atburðarás af stað þegar ljóst varð að hraun tók að renna í átt að heitavatnslögn sem flytur heitt vatn til Reykjanesbæjar auk Voga og Sandgerðis. Svo fór að lögnin fór undir hraun um hádegisbil.

Þegar ljóst var í hvað stefndi var neyðarstjórn Reykjanesbæjar virkjuð og var hún með aðgerðastöð í ráðhúsinu. Ekki var haldinn formlegur fundur heldur skipti fólk með sér verkum og við tók viðbragð sem sneri að starfsemi sveitarfélagsins og í kjölfarið upplýsingagjöf til starfsfólks og íbúa.

Eftirfarandi upplýsingar voru sendar til stjórnenda og starfsfólks Reykjanesbæjar og til bæjarstjóra í Suðurnesjabæ og Vogum að þeirra ósk til að samræma aðgerðir á svæðinu:

SKERÐING Á STARFSEMI SVEITARFÉLAGSINS Á NÆSTU DÖGUM VEGNA HEITAVATNSLEYSIS

Í ljósi þess að heitt vatn er farið af Suðurnesjum þarf að grípa til lokana víða í starfsemi sveitarfélagsins þar til varalögn kemst í gagnið.

Gera má ráð fyrir að heitt vatn haldist á a.m.k. hluta af bænum fram eftir nóttu.

Fimmtudagur 8. febrúar

• Allar sundlaugar lokaðar
• Íþróttahúsum verður lokað kl. 17:00 og öllum kappleikjum aflýst
• Félagsmiðstöð / 88 hús lokar kl. 17:00
• Leik- og grunnskólar ásamt tónlistarskóla starfa til kl. 16:00 að öllu óbreyttu.
• Starfsemi velferðarsviðs opin út daginn að öllu óbreyttu.
• Söfn loka kl. 16:00
• Ráðhús og bókasafn loka kl. 16:00

Föstudagur 9. febrúar (og meðan ekki er heitt vatn á sveitarfélaginu)

• Allt skólastarf í leik- og grunnskólum auk tónlistarskóla fellur niður.
• Öll íþróttamannvirki og sundlaugar verða lokuð.
• Starfsemi velferðarsviðs verður með eftirfarandi hætti:

o  Hefðbundin starfsemi í sérstökum búsetuúrræðum. Suðurgata, Seljudalur og Stapavellir.
o  Björgin - opið í Lautinni
o  Hæfingarstöðin - lokað
o  Selið - lokað
o  Dagdvöl og félagsstarf á Nesvöllum - lokað
o  Heima- og stuðningsþjónusta verður skert en haldið verður uppi nauðsynlegri þjónustu.

• Ráðhús og bókasafn - lokað
• Söfn lokuð

Starfsfólk sem á þess kost er hvatt til að vinna í fjarvinnu á meðan þessi staða er uppi.

Neyðarstjórn sveitarfélagsins er að störfum og mun flytja fréttir jafn óðum ef og þegar aðstæður breytast.“

Reykjanesbær á 2 fulltrúa í aðgerðastjórn almannavarna, Halldóru Fríðu Þorvaldsdóttur formann bæjarráðs og Guðlaug Sigurjónsson sviðsstjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs. Málin voru rædd með þeim sem þar eru, m.a. lögreglunni, BS, HS veitum, HS orku, HSS, Hrafnistu, Rauða krossinum, Landsbjörgu og sveitarfélögunum á Suðurnesjum.

Þar skiptast aðilar á upplýsingum um stöðuna og munu halda áfram að funda reglulega á meðan þetta ástand varir.

M.a. var rætt um hagnýt atriði eins og varaafl, fjöldahjálparstöð, vatnsleiðslur, vatnsbirgðir, stöðuna á mannvirkjum, viðgerðaráætlanir og fl.

Rafmagn hefur haldist inni og ekki í hættu þó að takmarka þurfi notkunina. Staðan á neysluvatni var í lagi og varavatnsbólið til taks ef Lágar fara út.

Vinna hófst strax við hjáveitulögn og er fyrsti kostur hjá HS orku að ná að tengja hana og koma í gagnið. Einnig eru í skoðun leið B og C ef A leið gengur ekki upp en í öllum tilfellum má gera ráð fyrir að heitavatnsleysi verði í 2-3 sólarhringa.

2. Staðan eftir nóttina

a. Hitinn fór alveg um kl. 9:00 í gærkvöldi þegar tankarnir á Fitjum kláruðust.

b. Punktar eftir stöðufund SST í morgun kl. 07:30:

• Dregið mikið úr gosinu í nótt, virkni á tveimur stöðum
• Kaldasta nótt ársins í nótt, -10 gráður, komið upp í -8 núna. Frost í kortunum alla helgina en á að draga úr frosti eftir helgi, samkvæmt spá Veðurstofunnar.
• Þarf að skoða tengingu á rafstöð við Hlévang, verið að vinna í því. Rafstöðin sem Reykjanesbær á var allt of stór.
• Tengingar á lögn ganga vel og er búist við að hleypt verði inn á lögnina um hádegisbil en þá fer að renna á kerfið. Ef allt gengur vel gæti hiti verið kominn á bæinn seinnipartinn. Tekur um 4 tíma að renna inn á kerfið. Svo virðist sem plan A sé að ganga upp og hiti alveg kominn á bæinn á morgun. Ljóst er að hiti verður ekki kominn á öll hús á Suðurnesjum fyrr en á sunnudagskvöld.
• Fundur hjá aðgerðastjórn (AST) kl. 10:00 og samhæfingarstöð (SST) kl. 11:00.

c. Erfiðlega gengur að laga stofnlögn kaldavatns fyrir Ásbrú, Háaleitishlað og við flugvallarsvæðið og er því kaldavatnslaust á því svæði en lögnin fór út um miðnætti vegna bilunar sem ekki tengist eldgosinu. Vonast er til að kalt vatn verði komið á um kl. 10:00. Vatnsbólið í Lágum er enn virkt svo það hefur ekki reynt á varavatnsból í Árnarétt.

d. Píparar voru til fjögur í nótt að tæma snjóbræðsluna undir gervigrasvellinum og því var kveikt á flóðlýsingu á meðan.

e. Unnið var fram á kvöld við að ganga frá sundlaugum. Kl. 10:00 í gærmorgun var slökkt á hita inn á laugarnar. Búið að slökkva á loftræstingu og verið að vinna við að draga úr raka sem safnast fljótt upp.

3. Dagurinn í dag - 9. febrúar

a. Höfum mestar áhyggjur af snjóbræðslum við stofnanir sem við munum skoða og yfirfara í dag.

b. Mikið spurt af hverju götulýsing sé á þegar við erum að spara rafmagn. Götulýsing er höfð á í samráði við almannavarnir vegna öryggisástæðna.

c. Fólk veltir mikið fyrir sér hleðslu á rafmagnsbílum við heimahús sem er ekki æskileg. Fólk er hvatt til að hlaða í hraðhleðslustöðvum í útjaðri bæjarins, t.d. við Aðaltorg, Fitjar og Flugvelli.

d. HS veitur fylgjast vel með rafmagnsnotkun og sjá notkun alveg niður á götu. Munu bregðast við ef álagið verður of mikið. Kemur í ljós kl. 10:00 hvernig nóttin hefur verið en virðist hafa gengið vel í nótt og íbúar verið skynsamir í rafmagnsnotkun.

e. Heimaþjónusta mun sinna allri nauðsynlegri þjónustu í dag.

4. Verkefnaskipting í dag

a. Vantar ofna í húsnæði sem er í leigu á vegum sveitarfélagsins, þarf að kaupa.

b. Kaupa þarf fleiri ofna til að hita upp lagnarými.

c. Umhverfissvið mun veita stjórnendum og húsumsjónarmönnum stuðning við frágang eigna í umsjá sveitarfélagsins. Mikilvægt að allir forstöðumenn eða starfsmenn þeirra vakti þær eignir sem þeir eru með í umsjón.

d. Halda áfram að upplýsa íbúa og koma einnig upplýsingum á fleiri tungumál.

e. Yfirfara viðbragðsáætlanir og setja upp viðbragð og fréttatilkynningar fyrir ólíkar sviðsmyndir.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10.45.