417. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 18. janúar 2023 kl. 14:00
Viðstaddir: Sigurrós Antonsdóttir formaður, Andri Fannar Freysson, Birna Ósk Óskarsdóttir, Eyjólfur Gíslason, Rannveig Erla Guðlaugsdóttir.
Að auki sátu fundinn Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.
1. Heimsókn í Hæfingarstöð (2023010349)
Jón Kristinn Pétursson forstöðumaður Hæfingarstöðvar kynnti starfsemina. Hæfingarstöðin Reykjanesbæ veitir hæfingartengda dagþjónustu fyrir fatlað fólk á Suðurnesjum og stuðlar að því að auka hæfni þjónustunotenda til starfa og þátttöku í daglegu lífi til jafns við aðra samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir (nr. 38/2018). Hæfingarstöðin býður upp á þjónustu sem tekur mið af þörfum þjónustunotenda með áherslu á að efla sjálfstæði og styrkja atvinnutengda og félagslega færni.
Velferðarráð Reykjanesbæjar þakkar kærlega fyrir góðar móttökur og fræðslu um starfsemi Hæfingarstöðvarinnar. Mikilvægt er að auka hæfni hvers og eins svo að allir í samfélaginu okkar fái að tilheyra. Þá vill velferðaráð einnig hvetja fyrirtæki á svæðinu til að huga betur að því hvernig hægt er að efla fatlað fólk til virkni á vinnumarkaði með „atvinnu með stuðningi“, en mikil þörf er á því.
2. Hinsegin Plútó - félagsstarf fyrir hinsegin ungmenni (2022110030)
Guðrún María Þorgeirsdóttir frá Hinsegin Plútó mætti á fundinn og kynnti starfið.
Hinsegin Plútó sem stofnað var 30. maí 2018 er félagsstarf fyrir ungmenni á aldrinum 12-18 ára og hefur verið starfandi í um 5 ár. Það sem dreif Ragnar Birki Bjarkarson og Guðrúnu Maríu Þorgeirsdóttur áfram að stofna félagasamtök var hugsjón og drífandi kraftur. Hvernig á að fræða barnið sitt þegar ungir krakkar eru að finna sig og máta lífið og tilveruna? Á fyrsta kvöldi komu 7 ungmenni og með tímanum sem liðinn er frá stofnun félagsins hefur forsvarsfólk tekið á móti allt að 20 ungmennum á einu kvöldi. Hinsegin Plútó þjónustar öll Suðurnesin og hafa ungmenni frá Reykjanesbæ, Vogum, Grindavík og Suðurnesjabæ sótt kvöldin.
Samkvæmt greinargerð er tilgangur Hinsegin Plútó að halda úti félagsmiðstöð fyrir hinsegin ungmenni á Suðurnesjum og vinna að málefnum hinsegin samfélagsins. Félagið leitast við að vera með fræðslu og skemmtikvöld fyrir hinsegin ungmenni og aðstandendur þeirra eftir efnum og áhuga auk þess að vinna að réttindum alls hinsegins fólks á svæðinu, sem með félaginu kýs að starfa.
Öll vinna sem framkvæmd er af Hinsegin Plútó hefur verið í sjálfboðavinnu. Velferðarráð telur mjög mikilvægt að starf af þessu tagi sé í boði á svæðinu þar sem tækifæri gefst fyrir ungmenni að eignast jafningjagrundvöll og finni stað sem þau tilheyra frjáls í okkar samfélagi hér á Suðurnesjum. Rík áhersla er lögð á þá staðreynd að hinsegin ungmenni eru í aukinni hættu á útskúfun, hatursfullri orðræðu og minni stuðningi frá jafnöldrum, vinum og jafnvel fjölskyldu. Það er á ábyrgð hvers samfélags að koma í veg fyrir mismunun og óréttlæti.
Velferðarráð tekur undir með forsvarsfólki Hinsegin Plútó um mikilvægi þess að þau hafi sitt húsnæði til umráða þar sem hægt er að tryggja betur öryggi, vellíðan og traust ungmenna sem sækja stuðning í félagsstarfið. Hinsegin Plútó hefur fengið aðstöðu í 88 húsinu undanfarin ár sem hefur gert starfinu kleift að dafna. Þar blandast ungmennin við önnur sem sækja aðra viðburði í húsinu, sem undir öðrum kringumstæðum væri frábært, en í tilfelli ungmenna sem treysta sér ekki til að opinbera hver þau í raun og veru eru – getur það verið erfiðara en orð fá lýst. Með því að tryggja Hinsegin Plútó eigin aðstöðu getur forsvarsfólk betur búið um öryggi ungmenna og fengið tækifæri til að gera umhverfið sitt regnbogavænt með hlýjuna að leiðarljósi. Ungmenni í okkar bæjarfélagi sem mögulega leita svara við spurningum sínum um eigin kynhneigð eiga að geta gert það á hlutlausum stað, það er mikilvægt í okkar fjölmenningarsamfélagi.
Öll með í krafti fjölbreytileikans.
Fylgigögn:
Hinsegin Plútó - greinargerð um starfsemina
3. Starfsáætlun velferðarsviðs 2023 (2022120121)
Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs fór yfir helstu áherslur í starfsáætlun velferðarsviðs 2023.
4. Samræmd móttaka flóttafólks – endurnýjun þjónustusamnings (2022020555)
Undirritaður þjónustusamningur Reykjanesbæjar, félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og Fjölmenningarseturs um samræmda móttöku flóttafólks lagður fram ásamt fylgiskjölum. Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs gerði grein fyrir samningnum og hvernig framkvæmd og mönnun verður háttað samkvæmt honum.
Velferðarráð vísar í bókun sem var gerð á 412. fundi ráðsins þann 17. ágúst s.l. um samræmda móttöku flóttafólks. Þá er við bókunina að bæta:
„Með samningnum um samræmda móttöku flóttafólks sem undirritaður var í síðustu viku, vill velferðarráð Reykjanesbæjar leggja aðaláherslu á að senda skýr skilaboð til félags- og vinnumarkaðsráðherra um að í lok ársins 2023 verði ljóst að markmið samningsins standi um að ná fjöldanum úr 350 manns niður í 150 manns.
Staðreyndin er sú að starfsfólk Reykjanesbæjar, helst ráðgjafar, kennarar og leikskólakennarar hafa staðið sig með eindæmum vel að taka á móti fólki á flótta en með þessum mikla fjölda fólks hefur verið gríðarlegt álag á félagsþjónustu sveitarfélagsins. Það gefur augaleið að innviðir okkar munu til framtíðar ekki ráða lengur við þetta umfangsmikla verkefni, sér í lagi ef fjöldinn eykst meira í sveitarfélaginu á næstu misserum. Með innviðum erum við að vísa í félagsþjónustu sveitarfélagsins, heilbrigðisþjónustu, menntastofnanir (fjölbrautaskólann, grunnskólana og leikskólana) auk löggæslunnar.
Velferðarráð mun fylgja verkefninu vel eftir á árinu og upplýsa bæjarstjórn um framgang samningsins og vonast eftir góðu samstarfi við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.“
Sigurrós Antonsdóttir
Birna Ósk Óskarsdóttir
Andri Fannar Freysson
Rannveig Erla Guðlaugsdóttir
Eyjólfur Gíslason
5. Markaðsstefna Reykjanesbæjar - drög til umsagnar (2021110284)
Menningar- og atvinnuráð óskar eftir umsögn ráða og nefnda Reykjanesbæjar um drög að markaðsstefnu Reykjanesbæjar.
Lagt fram. Velferðarráð mun senda inn umsögn fyrir tilskilinn frest.
6. Mælaborð og tölulegar upplýsingar (2022010091)
Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs kynnti mælaborð fyrir nóvember 2022 og lagði fram tölulegar upplýsingar vegna fjárhagsaðstoðar og sérstaks húsnæðisstuðnings í desember 2022.
Fjárhagsaðstoð
Í desember fengu 332 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ, alls voru greiddar kr. 49.210.254. Í sama mánuði 2021 fengu 148 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð, alls voru greiddar kr. 22.591.715.
Sérstakur húsnæðisstuðningur
Í desember fengu alls 299 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals kr. 4.995.609. Í sama mánuði 2021 fengu 288 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning, samtals kr. 4.288.209.
Áfrýjunarnefnd
Í nóvember var haldinn einn fundur í áfrýjunarnefnd og 6 erindi lögð fyrir nefndina. 4 erindi voru samþykkt og 2 erindum frestað.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:46. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 7. febrúar 2023.