418. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 15. febrúar 2023 kl. 14:00
Viðstaddir: Sigurrós Antonsdóttir formaður, Andri Fannar Freysson, Bjarney Rut Jensdóttir, Eyjólfur Gíslason, Rannveig Erla Guðlaugsdóttir.
Birna Ósk Óskarsdóttir boðaði forföll og sat Bjarney Rut Jensdóttir fundinn í hennar stað.
Að auki sátu fundinn Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.
1. Reglur um félagsþjónustu - ferðaþjónusta fatlaðra og aldraðra (2022010182)
Ólafur Garðar Rósinkarsson verkefnastjóri í málefnum fatlaðs fólks og Ása Eyjólfsdóttir forstöðumaður öldrunar- og stuðningsþjónustu mættu á fundinn og fóru, ásamt Heru Ósk Einarsdóttur sviðsstjóra velferðarsviðs, yfir drög að reglum um ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk og aldraða sem eru hluti af reglum um félagslega þjónustu í Reykjanesbæ.
Lögð fram fundargerð notendaráðs fatlaðs fólks og umsögn ráðsins um drög að reglum um akstursþjónustu fatlaðs fólks.
Velferðarráð felur verkefnastjóra í málefnum fatlaðs fólks og forstöðumanni öldrunar- og stuðningsþjónustu að vinna málið áfram.
2. Niðurgreiðslur á sundleikfimi - erindi frá FEBS (2023020239)
Lagt fram erindi frá Félagi eldri borgara á Suðurnesjum þar sem tilkynnt er ákvörðun stjórnar félagsins um að hætta niðurgreiðslu á sundleikfimi. Stjórnin telur raunhæft að Reykjanesbær niðurgreiði sundleikfimi fyrir eldri borgara.
Ása Eyjólfsdóttir forstöðumaður öldrunar- og stuðningsþjónustu mætti á fundinn og gerði grein fyrir málinu.
Velferðarráð óskar eftir umsögn frá öldungaráði Reykjanesbæjar um erindið.
3. Sérstakur húsnæðisstuðningur (2022080318)
Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu. Lagt er til að sérstakar húsnæðisbætur sveitarfélagsins taki mið af hækkun almennra húsnæðisbóta frá 1. janúar sl. en þá hækkuðu almennar húsnæðisbætur um 13,8%. Sérstakar húsnæðisbætur hækkuðu til samræmis við hækkun almennra húsnæðisbóta 2022 um 10% til að tryggja að hækkunin skili sér til húsnæðisleigjenda.
Viðmiðunarmörk sérstaks húsnæðisstuðnings yrðu þá 751 kr. á hverjar 1000 kr. í greidda húsaleigu frá 1. janúar 2023 og hámark almenns og sérstaks húsnæðisstuðnings samanlagt yrði 75.108 kr.
Velferðarráð mælir með að tillagan verði samþykkt og vísar málinu til bæjarráðs. Lögð er áhersla á mikilvægi hækkunar sérstaks húsnæðisstuðnings til að draga úr áhrifum verðbólgu á lífskjör viðkvæmustu hópa samfélagsins, hún er til þess fallin að styðja við tekjulægstu hópa leigjenda.
4. Gistinætur í neyðarathvörfum Reykjavíkurborgar (2019050523)
Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs lagði fram minnisblað um gistinætur einstaklinga með lögheimili í Reykjanesbæ í neyðarathvörfum Reykjavíkurborgar. Samningur milli velferðarsviða Reykjavíkurborgar og Reykjanesbæjar um þessa þjónustu var gerður árið 2019.
Velferðarráð Reykjanesbæjar leggur til að farið verði í þarfagreiningu á stöðu heimilislausra. Byggja þarf fleiri smáhýsi og fara í markvisst starf með nýja stefnu í þjónustu við einstaklinga með miklar þjónustuþarfir. Þjónusta þarf einstaklinga sem byggja á skaðaminnkandi nálgun og húsnæði meðfram því með notendur í forgangi. Markmiðið með skaðaminnkandi úrræði á að byggja á valdeflingu, virðingu og þörfum notenda hverju sinni.
5. Velferðarnet Suðurnesja (2021030184)
Eydís Rós Ármannsdóttir verkefnastjóri Velferðarnets Suðurnesja og Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningarmála mættu á fundinn og greindu frá stöðu verkefna Velferðarnets Suðurnesja.
Meðal annars var greint frá nýju samstarfi Velferðarnetsins við Hjálpræðisherinn um virkniúrræði fyrir fólk utan vinnumarkaðar og frábæru gengi námskeiðsins Fjölmenning auðgar þar sem yfir þúsund starfsmenn þátttökustofnana Velferðarnetsins hafa sótt námskeiðið. Í upphafi árs gaf Velferðarnetið öllum þátttökustofnunum spjaldtölvu í framlínuna til að stuðla að færniuppbyggingu íbúa og veita enn betri þjónustu. Velferðarnetið hefur vakið athygli út fyrir landsteinana þar sem það verður með kynningu og mun taka þátt í pallborðsumræðum á ráðstefnunni European Social Services Conference í Malmö í júní nk.
Fylgigögn:
Velferðarnet Suðurnesja - kynning
Með því að smella hér má skoða vef Velferðarnets Suðurnesja og kynningarmyndband
6. Mælaborð og tölulegar upplýsingar (2022010091)
Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs kynnti mælaborð ársins 2022 og lagði fram tölulegar upplýsingar vegna fjárhagsaðstoðar og sérstaks húsnæðisstuðnings í janúar 2023. Einnig voru lagðar fram tölulegar upplýsingar um fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónustu í janúar 2023.
Fjárhagsaðstoð
Í janúar 2023 fengu 342 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ, 215 karlar og 127 konur. Fjárhagsaðstoðin var veitt til 77 heimila sem á bjuggu samtals 145 börn. Alls voru greiddar 48.847.022 kr. í fjárhagsaðstoð eða að meðaltali kr. 142.827 pr. einstakling.
Í sama mánuði 2022 fékk 151 einstaklingur greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ, 100 karlar og 51 kona. Fjárhagsaðstoðin var veitt til 31 heimilis sem á bjuggu samtals 81 barn. Alls voru greiddar 23.008.824 kr. í fjárhagsaðstoð eða að meðaltali kr. 152.376 pr. einstakling.
Sérstakur húsnæðisstuðningur
Í janúar 2023 fengu 269 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals 4.639.080 kr.
Í sama mánuði 2022 fengu 307 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals 4.468.618 kr.
Áfrýjunarnefnd
Í desember 2022 var haldinn einn fundur í áfrýjunarnefnd og 6 erindi lögð fyrir nefndina. 4 erindi voru samþykkt og 2 erindum synjað.
Í janúar 2023 var haldinn einn fundur í áfrýjunarnefnd og 7 erindi lögð fyrir nefndina. 5 erindi voru samþykkt og 2 erindum synjað.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:40. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 21. febrúar 2023.