420. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 18. apríl 2023 kl. 14:00
Viðstaddir: Sigurrós Antonsdóttir formaður, Andri Fannar Freysson, Birna Ósk Óskarsdóttir, Eyjólfur Gíslason, Una Guðlaugsdóttir.
Að auki sátu fundinn Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.
Rannveig Erla Guðlaugsdóttir boðaði forföll og sat Una Guðlaugsdóttir fundinn í hennar stað.
1. Reglur um félagsþjónustu (2022010182)
Ólafur Garðar Rósinkarsson teymisstjóri í málefnum fatlaðra, Margrét Arnbjörg Valsdóttir teymisstjóri öldrunar- og stuðningsþjónustu og Vilborg Pétursdóttir teymisstjóri barna- og fjölskylduteymis mættu á fundinn og fóru, ásamt Heru Einarsdóttur sviðsstjóra velferðarsviðs, yfir lokadrög að reglum um akstursþjónustu fatlaðs fólks og reglum um stuðning við börn og fjölskyldur þeirra.
a. Reglur um akstursþjónustu fatlaðs fólks
b. Reglur um stuðning við börn og fjölskyldur þeirra
Velferðarráð leggur til að reglurnar verði samþykktar.
2. Niðurgreiðslur á sundleikfimi (2023020239)
Lögð fram umsögn öldungaráðs Reykjanesbæjar um erindi Félags eldri borgara á Suðurnesjum varðandi niðurgreiðslur á sundleikfimi, en velferðarráð óskaði eftir umsögninni á fundi sínum þann 15. febrúar sl. Velferðarráð þakkar fyrir umsögnina.
Velferðarráð tekur undir bókun sem bæjarráð lagði fram þann 23. mars s.l. um hvatagreiðslur fyrir eldra fólk.
Ákveðið hefur verið að taka upp hvatagreiðslur fyrir eldra fólk frá janúar 2024. Hvatagreiðslur eru ætlaðar til lækkunar á námskeiðsgjöldum. Þá getur hver og einn valið sína heilsueflingu á eigin forsendum og fellur námskeið í sundi þar undir ásamt annarri heilusueflandi virkni. Að mati velferðarráðs er mikilvægt að það ríki jafnræði á meðal eldra fólks í Reykjanesbæ og allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi, getu og markmið, t.d. golf, líkamsrækt, Janus heilsueflingu o.fl. Það er von ráðsins að með þessu móti muni fleiri úr hópi eldra fólks sækja sér heilsueflingu í sveitarfélaginu.
3. Fundargerð öldungaráðs Reykjanesbæjar 27. mars 2023 (2023030622)
Fundargerðin lögð fram.
Fylgigögn:
Fundargerð 14. fundar öldungaráðs Reykjanesbæjar
4. Tölulegar upplýsingar (2023030016)
Lagðar fram tölulegar upplýsingar vegna fjárhagsaðstoðar og sérstaks húsnæðisstuðnings í mars 2023.
Fjárhagsaðstoð
Í mars 2023 fengu 378 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ, 222 karlar og 156 konur. Fjárhagsaðstoðin var veitt til 91 heimilis sem á bjuggu samtals 209 börn. Alls voru greiddar 56.388.499 kr. í fjárhagsaðstoð eða að meðaltali um 149.176 kr. pr. einstakling. Sveitarfélagið fær endurgreiðslu frá ríkinu fyrir u.þ.b. tveimur þriðju hluta þessarar upphæðar samkvæmt 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.
Í sama mánuði 2022 fengu 197 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ, 132 karlar og 65 konur. Fjárhagsaðstoðin var veitt til 43 heimila sem á bjuggu samtals 105 börn. Alls voru greiddar 32.912.855 kr. í fjárhagsaðstoð eða að meðaltali kr. 167.070 pr. einstakling.
Sérstakur húsnæðisstuðningur
Í mars 2023 fékk 291 einstaklingur greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, en jafnframt voru greiddar leiðréttingar vegna janúar og febrúar vegna breytinga á viðmiðunarreglum sérstaks húsnæðisstuðnings. Samtals var greitt í mars 7.360.263 kr.
Í sama mánuði 2022 fengu 262 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals 4.254.285 kr.
Áfrýjunarnefnd
Í mars 2023 var haldinn 1 fundur í áfrýjunarnefnd og 9 erindi lögð fyrir nefndina. 7 erindi voru samþykkt og 2 erindum var synjað.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:50. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 2. maí 2023.