424. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 14. september 2023 kl. 13:00
Viðstaddir: Birna Ósk Óskarsdóttir varaformaður, Andri Fannar Freysson, Eyjólfur Gíslason, Rannveig Erla Guðlaugsdóttir og Linda María Guðmundsdóttir.
Að auki sátu fundinn Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Hilma H. Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningar og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.
Sigurrós Antonsdóttir boðaði forföll og sat Linda María Guðmundsdóttir fundinn í hennar stað.
1. Reglur um félagsþjónustu (2022010182)
Ólafur Garðar Rósinkarsson teymisstjóri í málefnum fatlaðs fólks mætti á fundinn og fór, ásamt Heru Ósk Einarsdóttur sviðsstjóra velferðarsviðs, yfir umsagnir og breytingar sem gerðar hafa verið á drögum að reglum um stuðningsþjónustu og stoðþjónustu frá fundi velferðarráðs 21. júní 2023.
a. Drög að reglum um stuðningsþjónustu
Lögð fram umsögn öldungaráðs Reykjanesbæjar um drög að reglum um stuðningsþjónustu. Engar athugasemdir bárust.
b. Drög að reglum um stoðþjónustu
Lagðar fram umsagnir notendaráðs fatlaðs fólks, bæjarlögmanns og persónuverndarfulltrúa. Athugasemdir bárust frá notendaráði fatlaðs fólks.
Velferðarráð tekur undir ábendingu notendaráðs fatlaðs fólks um að vefsíða Reykjanesbæjar verði útbúin talgervli.
Velferðarráð samþykkir drög að reglum um stuðningsþjónustu og stoðþjónustu með áorðnum breytingum. Reglurnar hafa ekki áhrif á kostnað við málaflokkana.
2. Móttaka flóttamanna - samningur um samræmda móttöku (2022020555)
Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu. Samningur félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, Fjölmenningarseturs og Reykjanesbæjar um samræmda móttöku flóttafólks rennur út 31. desember 2023.
Velferðarráð leggur áherslu á að við gerð nýs samnings um samræmda móttöku verði stefnt að því að umfang samningsins verði viðráðanlegt fyrir innviði Reykjanesbæjar og vísar þar til bókunar á fundi ráðsins 18. janúar 2023. Auk þess telur velferðarráð mikilvægt að gert verði ráð fyrir fjármagni vegna innviðakostnaðar, svo sem menntunar og frístundastarfs flóttabarna, almenningssamgangna, heilbrigðisþjónustu og löggæslu svo dæmi séu tekin.
Velferðarráð hefur áhyggjur af þróun umræðunnar um málefni flóttafólks í samfélaginu og leggur áherslu á mikilvægi þess að sýna hvert öðru gagnkvæma virðingu. Í fjölbreytileikanum felst kraftur sem getur byggt upp gefandi og fallegt samfélag, öllum til heilla. Saman þurfum við að sýna skilning, eiga samtalið og draga úr fordómum gagnvart ákveðnum samfélagshópum, leita lausna og finna samstöðuna sem byggir upp þann kraft sem Reykjanesbær stendur fyrir.
3. Fjárhagsáætlun 2024 (2023080020)
Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs fór yfir fjárhagsramma velferðarsviðs og stöðuna á vinnu við fjárhagsáætlun ársins 2024.
4. Tölulegar upplýsingar (2023030016)
Tölulegar upplýsingar vegna fjárhagsaðstoðar og sérstaks húsnæðisstuðnings í ágúst 2023 lagðar fram.
Framfærsla
Í ágúst fengu 319 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ, alls voru greiddar kr. 42.854.423 eða að meðaltali kr. 134.339.
Sveitarfélagið fær endurgreiðslu frá ríkinu að upphæð kr. 27.604.156 samkvæmt 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.
Í sama mánuði 2022 fengu 214 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð, alls voru greiddar kr. 29.857.495 eða að meðaltali kr. 139.521.
Fjöldi barna voru 98 á 45 heimilum.
Sérstakur húsnæðisstuðningur
Í ágúst fengu alls 285 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals kr. 5.907.147. Í sama mánuði 2022 fengu 287 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning, samtals kr. 3.972.726.
Áfrýjunarnefnd
Í ágúst var haldinn 1 fundur í áfrýjunarnefnd og 13 erindi lögð fyrir nefndina, 8 erindi samþykkt og 5 synjað.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:15. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 19. september 2023.