429. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 13. febrúar 2024, kl. 13:00
Viðstödd: Birna Ósk Óskarsdóttir varaformaður, Andri Fannar Freysson, Eyjólfur Gíslason, Linda María Guðmundsdóttir og Rannveig Erla Guðlaugsdóttir.
Að auki sátu fundinn Halldóra Mjöll Ingiþórsdóttir fulltrúi ungmennaráðs, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Hilma H. Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningaramála og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.
Sigurrós Antonsdóttir boðaði forföll og sat Linda María Guðmundsdóttir fundinn í hennar stað.
Velferðarráð samþykkti að taka á dagskrá málið Eldgos 8. febrúar 2024 - afleiðingar (2024010247). Fjallað er um málið undir dagskrárlið 8.
1. Barna- og ungmennaþing Reykjanesbæjar 19. október 2023 - niðurstöður (2023110099)
Ólafur Bergur Ólafsson umsjónarmaður ungmennaráðs mætti á fundinn og kynnti, ásamt Halldóru Mjöll Ingiþórsdóttur fulltrúa ungmennaráðs, niðurstöður barna- og ungmennaþings sem haldið var í Reykjanesbæ 19. október 2023.
Velferðarráð þakkar fyrir góða kynningu. Ráðið lýsir ánægju með að ungmenni fái vettvang eins og Barna- og ungmennaþing til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og láti sig málefni sveitarfélagsins varða.
Fylgigögn:
Niðurstöður barna- og ungmennaþings Reykjanesbæjar 2023
2. Málefni heimilislausra – smáhýsi (2023070008)
Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarráðs fór yfir stöðu á undirbúningsvinnu starfshóps um húsnæði fyrir heimilislaust fólk. Unnið er að hugmyndavinnu og forvinnu varðandi staðsetningu og gerð húsnæðis.
3. Samræmd móttaka flóttafólks - samningur (2022020555)
Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarráðs fór yfir stöðuna í viðræðum við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið varðandi samning um samræmda móttöku flóttafólks.
Lagt fram svar við bókun D-lista í bæjarstjórn 9. janúar 2024 sem var svohljóðandi:
„Samningur var gerður á milli Reykjanesbæjar og félags- og vinnumarkaðsráðuneytis um samræmda móttöku flóttafólks í október 2022, en þar kemur fram að fækka átti flóttafólki úr 300 í 150 á árinu 2023.
Í júní síðastliðnum var undirrituð aðgerðaáætlun milli félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, Vinnumálastofnunar og Reykjanesbæjar m.a. með það að markmiði að draga úr fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd sem dvelja í Reykjanesbæ á vegum Vinnumálastofnunar.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur áður lýst yfir áhyggjum sínum um að markmið áætlunarinnar næðust ekki og óskar því svara við eftirfarandi:
1. Hversu margir voru í Reykjanesbæ í samræmdri móttöku flóttafólks 31. desember 2023?
2. Hefur fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd sem dvelja í Reykjanesbæ fækkað frá því í júní 2023 og þá hversu mikið?“
Svar:
1. 31. desember 2023 voru 264 einstaklingar í þjónustu í samræmdri móttöku flóttafólks.
2. Í júní 2023 voru 1.215 umsækjendur um alþjóðlega vernd. Í desember 2023 voru 1.119 manns sem dvelja hér í Reykjanesbæ. Fækkun um 96 einstaklinga.
Fækkun er því um 96 manns á þessu tímabili. Samkvæmt bestu mögulegu sviðsmynd við gerð aðgerðaáætlunarinnar átti Reykjanesbær að fara að sjá fækkun í maí/júní 2024 en samkvæmt raunhæfustu sviðsmyndinni sem dregin var upp þá var ekki talið líklegt að það myndi nást fyrr en í október/nóvember 2024. Samkvæmt aðgerðaáætluninni stefnir Vinnumálastofnun á að fjöldinn verði um 900 umsækjendur um alþjóðlega vernd í úrræðum Vinnumálastofnunar í Reykjanesbæ á þeim tíma.
Fylgigögn:
Málefni flóttafólks
4. Starfsáætlun velferðarsviðs 2024 (2023110335)
Málinu frestað til næsta fundar.
5. Vefstefna Reykjanesbæjar 2024-2027 - drög til umsagnar (2023060380)
Menningar- og þjónusturáð óskar eftir umsögn um drög að vefstefnu Reykjanesbæjar 2024-2027.
Velferðarráð lýsir ánægju með vefstefnuna og aðgerðaáætlunina sem fylgir henni. Ráðið vill benda á eftirfarandi atriði:
Í 3. kafla aðgerðaáætlunarinnar mætti tala um þjálfun starfsfólks við að skrifa texta í takt við raddblæ Reykjanesbæjar/vefsíðunnar.
Velferðarráð fagnar því að það verði svæði fyrir myndir og myndbönd.
Ráðið fagnar því líka að hönnunarefnið eigi að vera aðgengilegt starfsfólki sem mun þurfa að nota það.
Í neðangreindri málsgrein undir kaflanum Upplýsingaveita mætti bæta við fólki sem er að læra íslensku:
Mikilvægt er að efni sem birt er á vefnum sé skrifað fyrir vef. Allt efni þarf að taka mið af þörfum ólíkra hópa eins og kostur er, svo sem blindra, sjónskertra, lesblindra, fólks með hreyfihömlun og annarra hópa fólks með fötlun.
6. Jafnréttisáætlun Reykjanesbæjar 2023-2027 - drög til umsagnar (2022080621)
Bæjarráð óskar eftir umsögn um drög að jafnréttisáætlun Reykjanesbæjar 2023-2027.
Velferðarráð felur Heru Ósk Einarsdóttur sviðsstjóra velferðarsviðs og Hilmu H. Sigurðardóttur verkefnastjóra fjölmenningarmála að senda inn umsögn í samræmi við umræður á fundinum.
7. Mælaborð og tölulegar upplýsingar (2024020127)
Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs fór yfir mælaborð og lagði fram tölulegar uppýsingar vegna fjárhagsaðstoðar og sérstaks húsnæðisstuðnings í janúar 2024.
Fjárhagsaðstoð
Í janúar 2024 fengu 282 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ. Alls voru greiddar 43 milljónir kr. í fjárhagsaðstoð eða að meðaltali um 152.482 kr. á einstakling.
Í sama mánuði 2023 fengu 341 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ. Alls voru greiddar 49 milljónir kr. í fjárhagsaðstoð eða að meðaltali kr. 143.695 á einstakling.
Sérstakur húsnæðisstuðningur
Í janúar 2024 fengu 316 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins. Samtals voru greiddar 6.547.262 kr.
Í sama mánuði 2023 fengu 269 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals 4.655.057 kr.
Áfrýjunarnefnd
Í janúar 2024 voru haldnir 2 fundir í áfrýjunarnefnd og 17 erindi lögð fyrir nefndina í 15 málum.
10 erindi voru samþykkt, 6 erindum var synjað og 1 erindi frestað.
8. Eldgos 8. febrúar 2024 - afleiðingar (2024010247)
Velferðarráð og sviðsstjóri vilja sérstaklega þakka starfsfólki velferðarsviðs og öðru starfsfólki Reykjanesbæjar ásamt öllum viðbragðsaðilum sem unnu gríðarlega gott starf við þær erfiðu aðstæður sem komu upp þegar hraunstraumur frá eldgosinu í Sundhnúkagígum eyðilagði heitavatnslögn með þeim afleiðingum að heitavatnslaust varð á öllum Suðurnesjum.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:27. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 20. febrúar 2024.