430. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 14. mars 2024 kl. 13:00
Viðstödd: Sigurrós Antonsdóttir formaður, Andri Fannar Freysson, Birna Ósk Óskarsdóttir, Eyjólfur Gíslason og Rannveig Erla Guðlaugsdóttir.
Að auki sátu fundinn Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Hilma H. Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningar og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.
1. Málefni heimilislausra – smáhús (2023070008)
a. Staðan varðandi Víkurbraut 6
Erla Bjarný Gunnarsdóttir lögfræðingur og Sveinn Björnsson byggingarfulltrúi mættu á fundinn og gerðu grein fyrir stöðu mála varðandi smáhús sem staðsett eru að Víkurbraut 6.
b. Uppbygging smáhúsa í Reykjanesbæ - tillögur starfshóps
Hreinn Ágúst Kristinsson deildarstjóri eignaumsýslu, Margrét Lilja Margeirsdóttir verkefnastjóri skipulagsmála og Íris Andrea Guðmundsdóttir, skrifstofu- og þjónustufulltrúi á velferðarsviði, sem skipa starfshóp um húsnæðismál heimilislauss fólks ásamt þeim Heru Ósk Einarsdóttur sviðsstjóra velferðarsviðs og Hilmu H. Sigurðardóttur verkefnastjóra fjölmenningar, mættu á fundinn.
Farið var yfir tillögur starfshópsins um staðsetningu og gerð smáhúsa og útfærslu á þjónustu við íbúa.
Velferðarráð leggur til að undirbúningur verði hafinn til að hægt verði að staðsetja smáhús fyrir fólk með fjölþættan vanda í Grófinni og á Hákotstöngum. Hreini Ágústi Kristinssyni deildarstjóra eignaumsýslu er falið að vinna áfram að útfærslu varðandi gerð húsanna.
Hlutverk sveitarfélagsins er að leysa úr brýnum húsnæðisvanda fyrir þau sem ekki eru fær um það sjálf. Starfsfólk velferðarsviðs hefur unnið þarfagreiningu fyrir velferðarráð á stöðu heimilislausra í Reykjanesbæ. Sú vinna hefur verið til fyrirmyndar og er niðurstaðan sú að byggja þarf fleiri smáhús og fara í markvisst starf með nýja stefnu í þjónustu við einstaklinga með miklar þjónustuþarfir. Mikilvægt er að smáhúsin séu í nálægð við almenningssamgöngur og aðra þjónustu sem nýtist þeim sem best, líkt og matvöruverslun, apótek og heilbrigðisþjónustu.
Reykjanesbær leigir tvö smáhús og hefur gert um árabil en einnig eru tvö önnur tilbúin til afhendingar. Í framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2023 var samþykkt að leggja til fé í þennan mikilvæga málaflokk og er sú vinna hafin að fjölga smáhúsum. Horft er til þess að smáhúsin nýtist einstaklingum sem eru heimilislausir, búa við miklar áskoranir tengdar vímuefna- og geðvanda og hafa verið að nýta sér gistiskýlin eða Konukot í Reykjavík. Samkvæmt tölum Reykjanesbæjar er mikil þörf fyrir fleiri smáhús til að koma til móts við þennan viðkvæma hóp. Mikilvægt er að þjónustan einkennist af skaðaminnkandi nálgun með þarfir notenda í forgangi þar sem byggt er á valdeflingu, virðingu og þörfum einstaklingsins hverju sinni. Þá hvetur velferðarráð bæjarbúa til að nálgast umræðuna af nærgætni og samkennd.
2. Samræmd móttaka flóttafólks (2022020555)
Ásta Kristín Guðmundsdóttir teymisstjóri alþjóðateymis mætti á fundinn og fór, ásamt Heru Ósk Einarsdóttur sviðsstjóra velferðarsviðs og Hilmu H. Sigurðardóttur verkefnastjóra fjölmenningar, yfir þróun og stöðu samræmdrar móttöku og þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd.
Drög að þjónustusamningi milli félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, Vinnumálastofnunar og Reykjanesbæjar um samræmda móttöku flóttafólks lögð fram. Velferðarráð mun vinna málið áfram og taka fyrir á næsta fundi.
3. Starfsáætlun velferðarsviðs 2024 (2023110335)
Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs lagði fram starfsáætlun velferðarsviðs fyrir árið 2024.
4. Mælaborð og tölulegar upplýsingar (2024020127)
Tölulegar upplýsingar vegna fjárhagsaðstoðar og sérstaks húsnæðisstuðnings í febrúar 2024 lagðar fram.
Fjárhagsaðstoð
Í febrúar 2024 fékk 191 einstaklingur greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ. Alls voru greiddar 29.539.859 kr. í fjárhagsaðstoð eða að meðaltali 154.659 kr. á einstakling. Fjöldi barna foreldra/forráðamanna á fjárhagsaðstoð er 68.
Í sama mánuði 2023 fengu 365 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ. Alls voru greiddar 55.018.424 kr. í fjárhagsaðstoð eða að meðaltali 150.735 kr. á einstakling. Fjöldi barna foreldra/forráðamanna á fjárhagsaðstoð var 159.
Sérstakur húsnæðisstuðningur
Í febrúar 2024 fengu 326 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins. Samtals voru greiddar 7.046.259 kr.
Í sama mánuði 2023 fékk 281 einstaklingur greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals 4.910.873 kr.
Áfrýjunarnefnd
Í febrúar 2024 var haldinn 1 fundur í áfrýjunarnefnd og 8 erindi lögð fyrir nefndina. 3 erindi voru samþykkt, 3 erindum var synjað og 2 erindum frestað.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:50. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 19. mars 2024.