431. fundur

11.04.2024 13:00

431. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 11. apríl 2024 kl. 13:00

Viðstaddir: Sigurrós Antonsdóttir formaður, Andri Fannar Freysson, Birna Ósk Óskarsdóttir, Eyjólfur Gíslason og Rannveig Erla Guðlaugsdóttir.

Að auki sátu fundinn Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Hilma H. Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningar og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Reglur um félagsþjónustu – stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra (2022010182)

Vilborg Pétursdóttir, teymisstjóri barna- og fjölskylduteymis, mætti á fundinn og lagði fram tillögu að breytingu á 5. gr. reglna um stuðningsþjónustu við börn og fjölskyldur þeirra.

Velferðarráð samþykkir tillöguna.

2. Þarfagreining þjónustuúrræða (2024040173)

Vilborg Pétursdóttir, teymisstjóri barna- og fjölskylduteymis, mætti á fundinn og gerði grein fyrir verkefnavinnu barna- og fjölskylduteymis sem miðar að bættri stuðningsþjónustu fyrir börn með stuðningsþarfir og fjölskyldur þeirra.

Lagt fram minnisblað frá sviðsstjóra velferðarsviðs og teymisstjóra barna- og fjölskylduteymis um fjölnota þjónustuúrræði fyrir fötluð börn og ungmenni ásamt tillögu um starfshóp til að greina tækifæri og áskoranir við slíkt úrræði.

Velferðarráð Reykjanesbæjar samþykkir að setja af stað starfshóp sem á að greina og skoða möguleikana sem felast í að breyta Hlévangi í fjölnota þjónustuúrræði fyrir fötluð börn og fjölskyldur þeirra auk þess að kostnaðargreina þær breytingar sem gera þyrfti á húsnæðinu. Áætlað er að heimilisfólk á Hlévangi flytjist yfir á nýtt hjúkrunarheimili á Nesvöllum haustið 2025.

Reykjanesbær er ört stækkandi sveitarfélag og telur ráðið þetta mjög brýnt verkefni, því áhersla er lögð á að færa þar undir sama þak lögbundna frístundaþjónustu og tímabundna sólarhringsþjónustu fyrir fötluð börn með miklar umönnunarþarfir. Hlutdeild Reykjanesbæjar er um 70% af rekstri Heiðarholts sem er skammtímavistun fyrir fötluð börn sem er rekin af Suðurnesjabæ og er starfsemin rekin fyrir öll sveitarfélögin á Suðurnesjum. Þörfin fyrir skammtímadvöl er mun meiri en við náum að veita og eru biðlistar langir.

Að auki getur Hlévangur vegna stærðar sinnar einnig bætt verulega aðstöðuna fyrir aðrar lögbundnar þjónustur fyrir fötluð börn og ungmenni. Má þar nefna Skjólið sem er frístundarúrræði og Ævintýrasmiðjuna sem er sumarúrræði sem hefur verið mjög eftirsótt síðustu ár fyrir þennan málaflokk. Hægt verður að efla og byggja upp fjölþætta og heilsteypta stuðningsþjónustu fyrir þennan málaflokk.

3. Vinnsla barnaverndarmála í Grindavík (2024040136)

Henný Úlfarsdóttir teymisstjóri barnaverndarþjónustu mætti á fundinn. Lagt fram erindi frá Barna- og fjölskyldustofu um vinnslu barnaverndarmála í Grindavík.

Barna- og fjölskyldustofa hefur sent frá sér beiðni um að barnaverndarþjónustur í landinu taki við vinnslu barnaverndarmála frá Grindavík vegna aðstæðna þar.

Velferðarráð telur það sjálfsagt að styðja við sveitarfélagið Grindavík í þessum málaflokki eins og öðrum. Velferðarráð telur eðlilegt í framhaldinu að ráða inn ráðgjafa til velferðarsviðs Reykjanesbæjar og að sveitarfélagið leiti til ríkisins um styrk fyrir slíkri ráðningu vegna aukins umfangs mála sem koma til sveitarfélagsins á sama tíma. Vegna hagsmuna umræddra barna og í ljósi álags á velferðarsviðið er eðlilegt að farið verði í auknar mannaráðningar til að tryggja þessum börnum og ungmennum góða þjónustu og koma í veg fyrir aukinn biðlista eftir umræddri þjónustu.

4. Samræmd móttaka flóttafólks – endurnýjun samnings (2022020555)

Velferðarráð hefur farið yfir samningsdrögin og þær sviðsmyndir sem lagðar voru fram á síðasta fundi velferðarráðs.

Lögð fram uppfærð drög að þjónustusamningi milli félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, Vinnumálastofnunar og Reykjanesbæjar um samræmda móttöku flóttafólks.

Velferðarráð samþykkir uppfærð samningsdrög. Einnig samþykkir velferðarráð að alþjóðateymi og ráðgjafar- og virkniteymi velferðarsviðs Reykjanesbæjar verði sameinuð.

5. Velferðarmiðstöð Suðurnesja (2023060104)

Hilma H. Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningar sagði frá stöðunni á verkefninu Suðurhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis sem er í undirbúningi fyrir Suðurnesin. Auglýst hefur verið eftir teymisstjóra fyrir miðstöðina sem ætlað er að móta og þróa starfið.

6. Atvinnustefna Reykjanesbæjar – drög til umsagnar (2023020501)

Atvinnu- og hafnarráð óskar eftir umsögn um drög að atvinnustefnu Reykjanesbæjar 2024-2034.

Velferðarráð hrósar atvinnu- og hafnarráði fyrir vel unnin drög að atvinnustefnu. Lagt er til að í kaflanum um tækifæri verði sérstaklega minnst á atvinnutækifæri fyrir fólk með skerta starfsgetu þar sem skortur á tækifærum fyrir þennan hóp er þegar fyrir hendi.

7. Fundargerð Samtakahópsins 18. mars 2024 (2024030167)

Fundargerðin lögð fram.

Fylgigögn:

Fundargerð Samtakahópsins 18. mars 2024

8. Fundargerð öldungaráðs Reykjanesbæjar 20. mars 2024 (2024030456)

Fundargerðin lögð fram.

Velferðarráð tekur undir ánægju öldungaráðs með viðtökur á hvatagreiðslum og hvetur eldra fólk til að nýta sér þær.

Fylgigögn:

Fundargerð 17. fundar öldungaráðs Reykjanesbæjar

9. Mælaborð og tölulegar upplýsingar (2024020127)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs fór yfir mælaborð og lagði fram tölulegar upplýsingar vegna fjárhagsaðstoðar og sérstaks húsnæðisstuðnings í mars 2024.

Fjárhagsaðstoð

Í mars 2024 fengu 250 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ. Alls voru greiddar 44.724.376 kr. í fjárhagsaðstoð eða að meðaltali um 178.898 kr. á einstakling. Fjöldi barna á framfæri foreldra/forráðamanna á fjárhagsaðstoð er 86.

Í sama mánuði 2023 fengu 378 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ. Alls voru greiddar 56.388.500 kr. í fjárhagsaðstoð eða að meðaltali kr. 149.176 á einstakling. Fjöldi barna á framfæri foreldra/forráðamanna á fjárhagsaðstoð var 169.

Sérstakur húsnæðisstuðningur

Í mars 2024 fengu 317 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins. Samtals voru greiddar 6.804.806 kr.

Í sama mánuði 2023 fékk 301 einstaklingur greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals 7.834.773 kr. Í mars 2023 var greidd út leiðrétting vegna hækkunar á sérstökum húsnæðisstuðningi sem skýrir hærri greiðslur marsmánaðar 2023 miðað við árið í ár.

Áfrýjunarnefnd

Í mars 2024 voru haldnir 2 fundir í áfrýjunarnefnd og 21 erindi lagt fyrir nefndina.

10 erindi voru samþykkt, 6 erindum var synjað og 5 erindum frestað.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:40. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 16. apríl 2024.