Minnisvarði um drukknaða skipsáhöfn

Minnisvarði um drukknaða skipsáhöfn

Við suðurgafl Duus Safnahúsa.

Aðstandendur reistu steininn til minningar um 4 unga skipverja sem fórust í lendingu við Stokkavör 6. apríl 1930

Í tímaritinu Ægi 1930, 23. Árg, 4. tbl bls. 91 birtist eftirfarandi grein um atburðinn: Slys í Keflavík. 4 menn drukkna. Vélbáturinn Baldur réri úr Keflavík á laugardaginn 4. þ. m. og kom aftur daginn eftir. Þegar búið var að koma aflanum í land, fóru skipverjar með bátinn út á höfn til þess að leggja honum þar. Síðan fóru þeir allir 5 í land á stóru fjögra manna fari. En þá bar út af réttri leið, og lentu á flúð fyrir vestan bryggjuna og hvolfdi bátnum og brotnaði nokkuð. Drukknuðu 4 skipverjar en sá fimmti bjargaðist. Hékk hann á bátnum, en var þó búinn að sleppa honum, enda meðvitundarlaus, þegar hann náðist; það var vaðið út eftir honum.

Bátur var strax settur fram, en það kom að engu haldi. Þetta skeði um kl. 7 og var ekki orðið dimt. Þeir sem drukknuðu hétu: Guðjón Sigurðsson úr Keflavík, ógiftur, 23—24 ára. Stefán Jóhannesson úr Keflavík, milli þrítugs og fertugs (giftur Þórdísi Torfadóttur, þau eiga 2 eða 3 börn). Júlíus Hannesson, 18 eða 19 ára, á foreldra í Reykjavik, og Skafti Guðmundsson af Seyðisfirði, ógiftur, um þrítugt. Þrír af þessum mönnum kunnu að synda. — Öll líkin hafa fundist. Fanst eitt um nóttina kl. 4, en tvö kl. 10 morguninn eftir. Sá skipverja, sem bjargaðist, var Arinbjörn Þorvarðarson formaður bátsins, maður á fertugsaldri (sonur Þorv. Þorvarðarsonar í Keflavík). Vélbáturinn Baldur er eitthvað innan við 12 smál. Þeir eiga hann Arinbjörn form., Valdimar Kristmundsson, Keflavík, og Ólafur Ásbjörnsson kaupmaður í Reykjavík.

 

Ábyrgðaraðili: Byggðasafn Reykjanesbæjar