Sólúrið

Sólúrið

Framan við Myllubakkaskóla við Sólvallagötu.

Sólúrið á lóð Myllubakkaskóla var afhjúpað 29. maí 2004.

Það var gjöf nemenda Barnaskóla Keflavíkur sem fæddir eru árið 1950, í tilefni af fjörutíu ára fermingarafmæli hópsins. Sólúrið er minnisvarði og tákn um sameiginlegt ferðalag nemendanna í gegnum skólann og tileinkað minningu Vilhjálms Ketilssonar, fyrrverandi skólastjóra Myllubakkaskóla, sem lést árið 2003 og annarra úr fermingarhópnum sem fallnir eru frá.

Innan í sólúrinu er steyptur „hornsteinn” og í honum er geymdur undirskriftarlisti með nöfnum og hinstu kveðju allra nemenda, kennara og starfsfólks Myllubakkaskóla til Vilhjálms. Sólúrið er á skemmtilegan hátt táknrænt fyrir sköpunarkraft mannsandans og er hugsað sem hvatning nemendum til dáða í náttúruvísindum jafnframt því að vera til gleði og yndisauka. Þegar sólúr mælir hreyfingar sólar frá austri til vesturs vísar það á stundir dagsins með því að varpa skugga af priki á skífuna. Talið er að Babýloníumenn hafi fundið upp sólúrið a.m.k. 2000 árum fyrir Krist. Sólúr eiga sér um 4000 ára sögu en þetta sólúr er hannað og framleitt af hátækni nútímans. Sólúrið er þannig útbúið að sá sem ætlar að nota það til að sjá hvað tímanum líður verður að stíga á mánuðinn og sjá skugga sinn falla á klukkuna.

 

Ábyrgðaraðili: Byggðasafn Reykjanesbæjar