17. júní - þjóðhátíðardagskrá

Þjóðhátíðardegi Íslendinga verður fagnað í Reykjanesbæ með hátíðardagskrá og skemmtidagskrá sem fram fer í skrúðgarðinum í Keflavík.

Hátíðardagskrá

Dagskráin hefst með hátíðarguðþjónustu í Keflavíkurkirkju sem fer fram kl. 12:00. Að henni lokinni gengur skrúðganga undir stjórn skáta úr Heiðabúum og Lúðrasveitar Tónlistarskóla Reykjanesbæjar með hátíðarfánann í skrúðgarðinn í Keflavík þar sem hátíðardagskrá fer fram. Sólveig Þórðardóttir, ljósmyndari, dregur þjóðfánann að húni og Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, flytur henni þakkarorð. Við þetta tilefni syngur Karlakór Keflavíkur þjóðsönginn. Setningarræða dagsins er í höndum Halldóru Fríðu Þorvaldsdóttur, forseta bæjarstjórnar. Valý Rós Hermannsdóttir, nýstúdent, verður í hlutverki fjallkonu og flytur ættjarðarljóð. Ræðu dagsins flytur Jóhann Smári Sævarsson, óperusöngvari, söngkennari, leikstjóri og stjórnandi. Íbúar eru hvattir til að taka þátt í hátíðardagskránni.

Skemmtidagskrá

Skemmtidagskrá fer einnig fram í skrúðgarðinum í Keflavík. Framkvæmdin er í höndum félagasamtaka en það eru Fimleikadeild Keflavíkur, Team DansKompaní, barna- og unglingaráð körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur, unglingaráð Fjörheima og ungmennaráð Reykjanesbæjar sem sjá um andlitsmálningu, þrautabraut, skemmtistöðvar, sölubása og svo mætti áfram telja. Leikfélag Keflavíkur mætir á svæðið með Kappa úr Hvolpasveit, Kalla kanínu og Sölla ásamt fleiri skemmtilegum fígúrum. Í boði verða hoppukastalar, hestateyming, bubblebolti, danspartý með DJ Dóru Júlíu, atriði frá Sirkus ananas og DansKompaní auk þess sem Bolli og Bjalla úr Stundinni okkar skemmta yngstu kynslóðinni. Að lokum er boðið upp á bubblebolta og Lazertag fyrir 10 ára og eldri en DJ Dóra Júlía sér um að halda uppi stuðinu. Skemmtidagskráin er öllum að kostnaðarlausu.

Aðrir viðburðir og strætó

Kaffihlaðborð verða á nokkrum stöðum, fjölskyldubingó í Stapaskóla auk þess sem ókeypis aðgangur er í Rokksafn Íslands og Duus safnahús en þar eru nýopnaðar sumarsýningar. Innanbæjarstrætó gengur samkvæmt laugardagsáætlun.

Gleðilega þjóðhátíð.