Af hverju ættu allir íbúar Reykjanesbæjar að hafa tilbúinn 3 daga viðlagakassa?
Í þeim jarðhræringum sem nú standa yfir á Reykjanesinu er mikilvægt fyrir íbúa Reykjanesbæjar að vera viðbúin því að skortur geti orðið á heitu vatni og/eða rafmagni. Við hvetjum alla íbúa til að kynna sér upplýsingar um þriggja daga viðlagakassann sem má finna á vef Rauða Krossins. Þar eru taldir upp hlutir sem hvert og eitt heimili þarf að geta verið sjálfu sér nægt um í 3 daga ef hamfarir og neyðarástand dynur yfir.
Engin sviðsmynd sem nú er uppi lítur að því að rýma þurfi Reykjanesbæ með litlum fyrirvara en það getur komið til þess að hér verði takmarkað rafmagn og heitt vatn um tíma ef orkuverið í Svartsengi verður fyrir skakkaföllum vegna kviku eða gjósku. Þá er gott að hafa 3 daga viðlagakassann við höndina á meðan beðið er eftir úrlausn eða hugað er að flutningi af svæðinu.
Þær sviðsmyndir sem kæmu sér illa fyrir íbúa í Reykjanesbæ eru einkum tvær.
Ef kvika kemur upp úti í sjó fylgir slíku gosi mikil gjóska sem er ekki raunin í þeim eldgosum sem hér verða á landi. Gjóskan getur haft víðtæk áhrif, m.a. á starfsemi orkuversins í Svartsengi og flutning rafmagns um svæðið. Önnur sviðsmynd sem myndi hafa mikil áhrif á íbúa í Reykjanesbæ er ef fer að gjósa í eða við orkuverið Svartsengi. Verði orkuverið óstarfhæft missir svæðið heitt vatn. Reykjanesbær fengi áfram rafmagn í gegnum orkuverið á Reykjanesi og í gegnum Suðurnesjalínu eitt en þó í minna magni en það sem við höfum í dag.