Föstudaginn 20. jan. kl. 18.00 opnar Aðalheiður S. Eysteinsdóttir sýninguna " Á Bóndadag " í Listasafni Reykjanesbæjar. Í sýningarskránni segir Aðalsteinn Ingólfsson m.a. : “ Í myndverkum Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur, á sér stað óvenjulegra stefnumót íslenskra og erlendra myndlistarhefða en við höfum áður séð. Annars vegar eru verk hennar íslenskara en allt sem íslenskt er, sprottin beinustu leið upp úr margra alda gamalli tálgu-og tréskurðarhefð meðal þjóðarinnar, í bland við alþýðlega sagnalist af kynlegum kvistum eins og þeim sem birtast ljóslifandi í skáldsögum Jóns Thoroddsen. Á hinn bóginn sækir Aðalheiður vinnubrögð sín til myndlistarmanna beggja vegna Atlantsála sem meðvitað og ómeðvitað ögruðu hámenningarlegum viðhorfum neysluþjóðfélagsins með endurvinnslu úrgangs af ýmsu tagi, upp í hugann koma Merz-hús dadaistans Kurts Schwitters, jafnvel einnig umhverfisverk einfaranna Fernands Cheval í Lyon og Simons Rodia í Los Angeles.“
Sýningin er liður í verkefninu Réttardagur- 50 sýninga röð og mun vera sú 34. í röðinni. Stefnt er að því að setja upp 50 sýningar á tímabilinu júní 2008 til júní 2013 sem allar fjalla á einn eða annan hátt um sauðkindina og þá menningu sem skapast út frá henni. Nú þegar hafa sýningarnar ratað í flesta landshluta auk Hollands, Þýskalands og Bretlands. Verkefnið vinnur Aðalheiður yfirleitt í samstarfi við heimamenn og aðra listamenn á hverjum stað fyrir sig.
Að þessu sinni taka 11 listamenn auk Aðalheiðar, þátt í því að gera Þorrablótsstemmningu á Bóndaginn í Reykjanesbæ. Gestalistamennirnir eru Arnar Ómarsson og Sean Millington sem gera rýmið fyrir viðburðinn, Guðbrandur Siglaugsson gerir textaverk, Gunnhildur Helgadóttir gerir borðbúnað, Jón Laxdal gerir fylgihluti, Nikolaj Lorentz Mentze gerir hljóðfæri og hljómsveitin Hjálmar verður með uppákomu við opnun. Á opnuninni flytur Aðalheiður dansverk og boðið verður upp á veitingar að þjóðlegum sið.
Listasafn Reykjanesbæjar hefur í nokkur ár staðið fyrir kynningu á íslenskri myndlist í Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli. Í næstu viku verður hægt að sjá þar skúlptúra eftir Aðalheiði undir heitinu „Ferðalangar“ og telst það 35.sýningin í Réttardagsverkefninu.
Listasafn Reykjanesbæjar er opið alla daga 12.00-17.00 og um helgar 13.00-17.00, aðgangur er ókeypis. Sýningin stendur til 18. mars.